og svo bara dó hún…

Ertu dáin út í bláinn…

Og hversvegna er manneskju í sjálfsvígshættu hleypt út af geðdeild fylgdarlaust?
Af því að hún var ekki drykkjusjúklingur?
Af því að hún hætti ekki að mæta í vinnu þótt henni liði djöfullega?
Af því að hún vanrækti ekki barnið sitt?
Af því að hún hætti ekki að þrífa sig?
Af því að hún öskraði ekki á athygli, hótaði ekki eða hegðaði sér eins og bjáni?
Af því að hún hlaut að vera of greind til að trúa því í alvöru að líf hennar væri ónýtt?
Af því að hún hlaut að vera of góð og tillitsöm manneskja til að gera fjölskyldunni annað eins?

Sá sem planar sjálfsvíg (án þess að hafa góðar og gildar ástæður til að telja útilokað að lifa þolanlegu lífi)er mjög veikur á geðinu og fullkomlega ófær um að meta hvort tilfinningar hans séu rökréttar og bregðast við þeim af skynsemi. Manneskja í slíku ástandi álítur í fúlustu alvöru að það sé mjög góð hugmynd að svipta sig lífi og að hún sé jafnvel að gera öðrum mikinn greiða með því. Dramaköst og athyglissýki geta vissulega verið fylgifiskar en óhemjugangur er samt engin trygging fyrir því að viðkomandi sé ekki alvara. Því síður er það batamerki ef hann er rökvís, yfirvegaður og sáttur við ákvörðun sína.

Staðreyndin er sú að það eru ekki bara pilluætur og félagsmálakeis sem svipta sig lífi. Gott og umhyggjusamt fólk fyrirfer sér. Greint fólk fyrirfer sér. Fólk sem sýnir engin merki um sjálfsvorkun fyrirfer sér. Við verðum að fara að losa okkur við þá fordóma (sem enn lifa góðu lífi, líka innan heilbrigðiskerfisins) að fólki geti ekki verið alvara með sjálfsvígsáformum nema það hafi árum saman sýnt af sér aumingjahegðun.

Meðan manneskja álítur að það sé góð hugmynd að flýta dauða sínum, á ekki að hleypa henni út af geðdeild „bara í smástund“. Það tekur geðveika manneskju bara smástund að láta sig vaða.