Og sá ljósið

-Ég hef séð þig ástarsorg. Þú hefur nú áreiðanlega ekkert verið sérstaklega ástfangin af honum fyrst þú tekur þetta ekki nær þérsagði hún og ég hef heyrt þessa athugasemd nokkuð oft síðustu þrjár vikurnar.

Ég fúnkera alveg þótt ég verði fyrir áföllum. Hætti ekkert að mæta í vinnu og þrífa mig eða neitt svoleiðis. En það fer ekki hjá því að mínir nánustu upplifi gagngerar persónuleikabreytingar sem standa yfir í nokkrar vikur og af því að það gerðist ekki núna ályktar fólk -ranglega- að mér hafi hvort sem er ekki verið nein alvara með þessu sambandi. Það er ekki alveg þannig. Ástæðan fyrir því að ég er nokkurnveginn með sjálfri mér er bara sú að ég er loksins búin að læra það sem ég þurfti að læra.

Heimsendir byrjar með köfnunartilfinningu. Svo gefa hnén sig. Maður byrjar að skjálfa, engjast og kúgast. Maður skilar frá sér allri næringu og vökva sem maður hefur innbyrt þann daginn og ef maður væri í ástandi til þess, mætti vel koma blóðinu úr manni í gott verð á dópmarkaðnum. Ef svitapollar myndast í lófunum veit maður að ástandið stefnir í taugaáfall, og þá leitar maður hjálpar og hlustar enn einu sinni á klisjuna sem maður kann utan að; það er ekkert að þér, það er hann sem er bjáni, sjáðu nú bara hvernig þetta fer með þig, þú ert ekki að missa af neinu, það er eitthvað betra sem bíður þín. En maður veit að það er kjaftæði, að hann kann svosem alveg að vera bjáni og allt það en það er nú samt sem áður eitthvað að manni fyrst maður lendir alltaf í sama helvítinu. Og það verður eiginlega að vera þannig því ef er eitthvað að manni er hægt að laga það. Ef ekki, þá er maður bara ráðþrota, ofurseldur örlögum sem verða ekki flúin.

Samt vissi ég alltaf að þetta gerðist af ástæðu. Af því að ég þyrfti að læra eitthvað mikilvægt. Ég vissi bara ekki hvað. Í fyrstu skiptin hélt ég að ég þyrfti að bæta mig á einhvern hátt. Verða sambandshæf með því að verða eftirlátari eða ákveðnari, staðfastari eða blíðari, tilfinninganæmari eða rökfastari, þolinmóðari, klárari, hógværari, sætari … það var alltaf skortur á honum -ara innra með mér sem hlaut að vera skýringin á því að enginn vildi mig og þegar ég komst yfir áfallið spólaði ég í það verk að laga mig.

Svo kom að því að ég varð ofboðslega þreytt. Hversu fokking fullkomin þarf ein kona að vera til að vinna til ástar? Ég sá ekki þessar fullkomnu konur í kringum mig og vissi bara að ástæðan fyrir því að ég upplifði höfnun aftur og aftur, var ekki sú að ég væri ekki nógu góð manneskja. Auðvitað hafði ég góðar ástæður til þess að halda áfram að vinna í sjálfri mér og allt það, en ég var bara langt frá því að vera slæmur maki. Reyndar var ég afskaplega góður félagi og þótt ég hefði eiginleika sem eflaust færu í taugarnar á einhverjum var samt ekkert í fari mínu sem gerði mig þess óverðuga að vera elskuð. Og hvað var þá að? Hversvegna fékk ég sömu lexíuna í hausinn aftur og aftur? Hvað var það eiginlega sem mér tókst bara ekki að læra af reynslunni?

Ég vissi að reynslan er ákaflega þolinmóður kennari og að hún hefur rétt fyrir sér. Ég reyndi að hlusta á hana. Kannski átti ég að læra að forðast ákveðna manngerð. Kannski átti ég að læra að elska einhvern sem heillaði mig ekkert sérstaklega. Ég varaðist að brenna mig á sama grautnum tvisvar en þegar ég vaknaði upp við það að það eina sem mínir menn áttu sameiginlegt var það að hafa dömpað mér með einhverjum bjánarökum eða jafnvel horfið án skýringa varð ég afskaplega vonlaus og miður mín. Ég var farin að halda að reynslan væri að reyna að kenna mér að treysta aldrei neinum og það gengur nú bara ekki almennilega upp. Ég hafði svosem lært ýmislegt. Kunni orðið sitthvað um mannlegt eðli, var hætt að falla fyrir fávitum og það tók mig stöðugt styttri tíma að komast yfir áfallið. En ég var ennþá logandi hrædd og þótt það tæki ekki jafn langan tíma, leið mér alltaf eins og ég hefði lent í jarðskjálfta.

Svo, allt í einu, sá ég ljósið. Það var eiginlega svona ‘cracking the code’ augnablik, eins og þegar maður áttar sig allt í einu á stærðfræðiformúlu. Ég sá fyrir mér atvik frá því fyrr um daginn, þegar ég stóð furðu lostin og hlustaði á manninn sem ég elskaði, beina orðum sínum til mín þegar hann var í rauninni að tala við einhverja allt aðra manneskju. Hann var í raun að svara einhverju sem ég hafði alls ekki sagt og mér fannst merkingin sem hann lagði í orð mín svo fjarstæðukennd að andartak hélt ég að hann væri klikkaður. Því miður hélt ég það nógu lengi til að afgreiða málið röklega, reyna að sannfæra hann um að ég hefði ekki meint það sem hann heyrði, sem er það vitlausasta sem maður gerir við þessar kringumstæður og ég á að vita það. Og semsagt, seinna sama dag rann það upp fyrir mér að viðbrögð hans voru ekki svar við því sem ég hafði sagt, heldur hafði atvikið að öllum líkindum vakið upp gamla tilfinningu sem hann var ekki almennilega búinn að afgreiða. Fullkomlega eðlilegt, eitthvað sem allir gera á einhvern hátt, því tilgangurinn með geðtengslum fullorðinna er sá að græða gömul sár og læra árangursríkari aðferðir til að leysa vandamál og takast á við áföll og ágreining.

Ég hugsaði; fjandinn hafi það, hann var ekkert að svara því sem ég sagði, hann var að svara einhverju sem gömul kærasta sagði einhverntíma, eða kennari á unglingsárunum eða húsvörðurinn í sumarbúðunum eða mamma hans þegar hann var þriggja ára. Og þá allt í einu, rann tvennt upp fyrir mér; annarsvegar stærstu mistök sem ég hef gert í samskiptum við aðra en það er að reyna að ná stjórn á aðstæðum með því að bregðast við tilfinningum með rökum. Það virkar ágætlega þegar maður er að takast á við sínar eigin tilfinningar en er alveg vonlaust gagnvart manneskju sem er þá stundina föst í gömlu áfalli og þarf kannski bara fyrst og fremst viðurkenningu á því. Hinsvegar hraðspólaði hugur minn yfir tugi ef ekki hundruð atvika, þar sem ég hafði einmitt gert það sama sjálf, þ.e. tengt reynslu sem er í sjálfu sér ekkert stórmál við gamalt áfall. Ég hafði alla ævi yfirfært skelfingu yfir einhverju alvarlegu yfir á það að missa kærasta eða vinkonu og ég var enn að reyna að afgreiða áfallið á sama hátt og þegar ég var tveggja ára.

Allar martraðir barnæsku minnar snerust um það að vera yfirgefin í hræðilegum aðstæðum eða að einhver minna nánustu sleppti mér fram af bjargbrún eða ofan í annað hyldýpi. Þegar ég varð fullorðin tóku þessar martraðir á sig mynd stjórnleysis, ég var á bremsulausum bíl sem ók fram af hengiflugi eða ég olli ekki byrði sem ég þurfti að bera niður tröppur (aldrei upp, alltaf niður) eða brekku og datt. Seinna komst ég að því að líklega áttu þessar martraðir rætur sínar í raunverulegu áfalli sem ég varð fyrir sem smábarn en get ekki rifjað upp. Ég hef aldrei verið lofthrædd en óttinn við höfnun og óttinn um að einhver brygðist trausti mínu, hefur hvað eftir annað hrakið mig fram á ystu nöf taugaáfalls. Þegar einhver hafnaði mér varð ég tveggja ára inni í mér. Líkami minn brást við eins og ég væri í lífshættu. Fyrsta hugsunin sem mér tókst að orða var ‘aldrei treysta nokkurri manneskju framar’. Þetta ástand varði reyndar styttri og styttri tíma í senn en ég fór alltaf í gegnum það, í hvert einasta skipti. Þangað til núna.

Það er ekki það að mér sé bara sama. Ég upplifði alveg sorg, afneitun, reiði, sársauka, sektarkennd, meiri sorg og svo aftur. En lexían klikkaði inn. Ég upplifði ekki lífsháska. Ég fann ekki fyrir þessari botnlausu angist smábarns sem heldur að fullorðna fólkið ætli að henda því í sjóinn eða skilja það eftir í óbyggðum. Ég skildi loksins að ég hafði fram að því tekist á við höfnun eins og smábarn sem býr við öryggisleysi. Með því að verða þóknanlegri, með því að tala af rökfestu, með því reyna að ná undirtökunum, með því að biðja mér vægðar, spila inn á sektarkennd eða jafnvel beita hótunum, loforðum og öðrum beinum stjórnunaraðgerðum. Mér tókst snilldarlega að blekkja sjálfa mig, því yfirleitt beitti ég þessum aðferðum ekki gagnvart þeim sem hafnaði mér heldur reyndi ég að fyrirbyggja að það sama endurtæki sig þegar ég eignaðist nýjan félaga. Eftir á að hyggja hlýtur það stundum að hafa hljómað beinlínis fáránlega. Síðast þegar ég varð ástfangin, tilkynnti ég manninum t.d. formlega að ég myndi ekki undir neinum kringumstæðum sætta mig við líkamlegt ofbeldi. Hlýtur að hafa komið illa við hann því hafði hann aldrei gefið mér minnsta tilefni til að halda að hann væri líklegur til þess en fáránlegast er þó að ég hef aldrei lent í ofbeldismanni sjálf. Ég gerði mér m.a.s. grein fyrir því þarna á þessari stund að athugasemdin kom frá tveggja ára barninu inni í mér en ég hafði meiri áhyggjur af því að ég yrði særð en að honum þætti ég skrýtin, svo ég gerði ekki tilraun til að afsaka þennan kjánaskap.

Semsagt, það er ekkert það að mér sé sama. Ástarsorg er alltaf helvítis ótukt en þegar maður er búinn að læra muninn á lífsháska og höfnun, þá er lífið nú samt sem áður harla gott. Og þessvegna líður mér bara ágætlega núna. Ég veit nefnilega að ég á aldrei aftur eftir að upplifa sambandsslit sem eitthvað hræðilegt. Höfnun er hundsbit já, en ekki þríhöfða skrímsli. Nett spark í kviðinn en ekki bakstunga ofan í hyldýpi.

Það er þessvegna sem ég hef lent í ástarsorg svona oft. Ég þurfti að sjá í gegnum mín eigin kontrólissjú og að læra að takast á við höfnun eins og fullorðin manneskja í stað þess að reyna að forðast hana með aðferðum barns. Það tókst og það merkir að ég er loksins tilbúin í samband sem byggir á trausti en snýst ekki um endalausar tilraunir til að dulbúa varnaraðgerðir mínar gegn hugsanlegum svikum.

Með sérdeilis jákvæðu hugarfari gæti ég jafnvel haldið því fram að mennirnir sem særðu mig hafi verið sannkölluð himnasending. Andlegir kennarar sem voru útvaldir til að hafna mér af því að ég þurfti á því að halda svo ég yrði fær um að byggja upp heilbrigt samband án þessa lamandi ótta við að vera yfirgefin. Ef ég væri trúuð myndi ég líklega reyna að telja sjálfri mér trú um það en svo þroskuð er ég nú ekki. Þeir voru fávitar, hver á sinn hátt og sumir þeirra sýndu af sér framkomu sem verður ekki réttlætt. En niðurstaðan er nú samt sú að fávitaháttur þeirra kenndi mér að komast í gegnum ástarsorg á sama hátt og venjulegt fólk. Það er gott og þessvegna lýsi ég hér með yfir þakklæti mínu í garð hvers þess fávita sem lagði sitt af mörkum til þess að ég endurupplifði skelfinguna. Þessa sálarangist sem svo oft hefur kallað fram í mér tortryggni og stjórnsemi í þeim mæli að þessir eiginleikar hafa valdið mér skaða í stað þess að vernda mig. Ég hefði ekki komist yfir hana nema af því að ég upplifði hana nógu oft til að átta mig á því að þetta var vandamál. Ég er ekki beinlínis sátt við neinn þeirra sem hefur leyft sér að vanvirða þrábeiðni mína um heiðarleg samskipti, það hefur enginn rétt til að segja eitt og meina annað eða hundsa þörf mína fyrir að hafa hlutina á hreinu. En héðan af skiptir meira máli að ég er komin yfir stærsta vandamál tilveru minnar og fyrir það er ég í fullri einlægni þakklát.