Að yfirstíga höfnunarkennd

Ég held ekki að lykillinn að því að yfirstíga sjúklega höfnunarkennd eða tortryggni sé endilega sá að vita hver kveikjan var en ég held að það geti hjálpað. Ég held að það skipti mestu máli að gera sér grein fyrir því að þær aðferðir sem hrædd börn nota til að biðja um meira öryggi, þær virka ekki í samskiptum fullorðinna.

Þegar barn rígheldur í foreldri sitt og hljóðar þá veit foreldrið (ef það er ekki alger fáviti) að það má ekki hlaupa burt og skilja barnið eftir eitt. Í flestum tilvikum koma mamma og pabbi aftur eins fljótt og hægt er og því hærra sem barnið hljóðar því betur sinnir barnfóstran því. Ef þú hinsvegar sem fullorðin manneskja reynir að ríghalda í elskhuga sem vill fara þá bara fer hann samt. Í skársta falli nærðu þeim vafasama árangri að sitja uppi með jójó samband sem fer stöðugt verr með þig.

Ef hrædda barnið ullar á nýju fóstruna í leikskólanum og reynir stöðugt á þolrif hennar, þá segir hún ekki upp störfum heldur gerir sér grein fyrir að barnið er öryggislaust og vinnur traust þess hægt og rólega. Ef þú aftur á móti sýnir manni sem þú ert að byrja að kynnast tortryggni eða fjandskap, þá stendur hann ekkert í því að róa þig niður og vinna hjarta þitt í rólegheitum. Hann bara fer. Það sem virkaði hjá leikskólabarninu virkar bara ekki lengur.

Þegar einhver vill þig ekki, þá er hann beinlínis að gefa þér þau skilaboð að þú sért ekki hæf í hlutverkið. Það er ekkert flóknara. Ef hann teldi að hann væri vandamálið myndi hann takast á við það í stað þess að losa sig við þig. Ef þú ert heilbrigð, fullorðin manneskja þá upplifir þú sorg við slíkar aðstæður, en þú gengur ekki af göflunum. Þú verður ráðvillt og reið og fær ýmsar bilaðar hugmyndir en svo jafnarðu þig og leggur kalt mat á þann dóm hans að þú sért ekki nógu góð. Hugsanlega kemstu að þeirri niðurstöðu að hann hafi rétt fyrir sér og þá bætirðu væntanlega úr þessum hroðalegu göllum þínum og lendir aldrei framar í því að fá svoleiðis dóm. Þó getur allt eins verið að þér finnist líklegra að hann hafi rangt fyrir sér, að þú sért bara alveg nógu góð og þar sem er ekkert vit í því að velta röngu áliti fyrir sér mjög lengi þá bara læturðu hann um sitt ranga álit og kynnist einhverjum sem telur sig ekki of fullkominn fyrir þig.

Ef þú hinsvegar ert veik af höfnunarkennd, þá er líklegt að þú verðir ofboðslega upptekin af vanþóknun hins aðilans. Þér finnst eins og eitthvað hræðilegt muni gerast þegar hann fer og þú beitir ráðum sem virka ekki fyrir fullorðna til að halda í hann, jafnvel þótt hann sé ekki einu sinni góður við þig. Eða þá að þú gerir eins og ég, lætur hann róa en tekur þeim næsta með sömu varúð og laminn hundur og varast mjög lengi að gefa honum vald til að særa þig.

Barn er algerlega háð foreldrum sínum og jafnvel heilbrigðasta fólk er stöðugt að reyna að endurheimta öryggið sem þau gáfu okkur og sviku okkur um á víxl. Við reynum að tryggja öryggi okkar með því að taka stjórn á einn eða annan hátt. Sum okkar urðu mjög þjálfuð í stjórnunaraðferðum sem dugðu á foreldra okkar en duga bara ekki í samskiptum fullorðinna. Þú hættir að upplifa höfnun sem heimsendi, þegar þú hættir að trúa því að öryggi þitt sé jafn háð velþóknun annarra og þegar þú varst barn. Og þegar þú hættir að trúa því að einhver annar VERÐI að elska þig og EIGI að koma vel fram við þig þá áttarðu þig allt í einu á því að vel þjálfuð stjórnsemi þín gagnast afskaplega vel til að ná góðri stjórn á þínum eigin tilfinningum og viðbrögðum.

Og það virkar.