Nöldur

Ef ég hefði lesið jafn marga fermetra og ég hef skúrað, væri ég vitur kona í dag.

Ég lofaði sjálfri mér því fyrir löngu að eftir fertugt skyldi ég ekki vinna önnur heimilisstörf en þau sem mig beinlínis langaði til. Mér líður almennt vel í eldhúsi, vil helst sjá um þvottinn minn sjálf en hef megna óbeit á skúringum og í tilefni af því gaf ég sjálfri mér Pólínu í afmælisgjöf.

Það er út af fyrir sig ágætt að losna við gólfþvotta og afþurrkun en enn er þó nokkuð langt frá því að þessu markmiði mínu sé náð. Ég fer frá heimilinu í fullkomnu ástandi en þegar ég kem heim aftur er tannkremsfruss á speglinum á baðinu, geisladiskar og gítarnótur úti um alla stofu, hreinn þvottur á borðstofuborðinu fituklessur á eldavélinni, óhreint leirtau á eldhússborðinu og óhreinir skór í gangveginum.

Ég myndi ekki fá Pólínu hingað daglega til að ganga frá skóm sonar míns hins þvermóðskari þótt ég væri múltimilljóner, fyrir utan að það væru náttúrulega hræðilega röng skilaboð til hans. Yfirleitt endar með því að ég sé sjálf um tiltektina, sem eru nógu slæm skilaboð út af fyrir sig.

Byltingin er að vísu ennþá hroðalegra dæmi um ruslahaug en ég á auðveldara með að sætta mig við draslið í kringum hann. Ástæðan er sú að þegar ég bið hann um eitthvað, gerir hann það strax og brosandi. Hann gerir hlutina ekki nákvæmlega eins og ég hefði gert þá en mér finnst brosandi ófullkomnun fullkomnari en fýld fullkomnun og þótt Þvermóður sé ögn skárri í umgengni og geri hlutina vel þegar hann á endanum fæst til þess, er útilokað að fá hann til að fallast á að það sé sanngjörn krafa að hann gangi frá eftir sig.

Ég er þannig gerð að þegar ég hef bitið í mig að eitthvað þurfi að gera á ég mjög erfitt með að bakka með þau áform. Það hefur aldrei angrað mig neitt sérstaklega að hirða upp drasl eftir börnin mín (já ég er sek um það en mér finnst illskárra að gera það sjálf en að nöldra) en ég var búin að ákveða að hreindýrskafli tilveru minnar væri liðinn og nú reiðist ég sjálfri mér í hvert sinn sem ég tek til heima hjá mér. Ég hef beitt öllum ráðum sem mér hugkvæmast til að fá drenginn til að ganga betur um en ekkert virkar. Ég nenni þessu ekki lengur. Hreinlega.

Ég er að vísu blessunarlega lítið heima hjá mér þessi árin en dæmigert kvöld, þá sjaldan að við erum tvö heima, gengur einhvernveginn svona fyrir sig:

Mamma tekur skó upp af gólfinu og setur í skóskápinn, segir glaðlega: Sæll elskan.
Þvermóður, (svipbrigðalaust, í hlutlausum, dimmnum tón: Hrpmfhh.
Mamma: Var þetta góður dagur?
Þvermóður, í nokkuð bjartari tón: Hrpmfhh.
Mamma: Hvað varstu að gera?
Þvermóður, þungur á brún og urrar grimmdarlega: EKKERT!
Mamma: Jæja, mikið hlýtur það að hafa verið skemmtilegt. Hvað viltu borða?
Þvermóður, eilítið léttari á brún, muldrar ofan í bringuna á sér: Eitthvað gott.
Mamma: Ég efast ekki um það. Viltu gott pasta eða góðan fisk?
Þvermóður, áhugalaus: Lambalæri.
Mamma: Það er nú ekki í boði gæskur. Viltu koma með einhverjar raunhæfari óskir.
Þvermóður, í tón sem merkir ‘mér finnst allt gott en veislumatur bestur og nenni ómögulega að hafa skoðun á þessu’: Hrpmfhh.

Kvöldverðarát fer fram í kurteislegri þögn. Það er auðvelt að gefa Pysjunni að borða. Á tæpum 19 árum hefur hann aldrei sýnt vanþóknun gagnvart mat, sama hversu ómerkileg matseldin hefur verið en hvort sem við borðum cheerios eða stórsteikur er öllum tilraunum mínum til að brydda upp á samræðum svarað með misgremjulegu Hrpmfhh.

Eftir kvöldmatinn:
Mamma þvær upp, ekki bara eftir matinn heldur líka óhreint leirtau síðustu tveggja daga. Segir með uppgerðar léttleika: Ég vil að þú farir út með ruslið Darri minn. Reyndar ættirðu að gera það óbeðinn áður en er farið að flæða upp úr pokanum.
Þvermóður horfir sjokkeraður á móður sína og tekur ekki við sorppokanum þegar hún réttir honum hann.
Mamma, (komin dálítil gremja í röddina): Drífðu þig drengur.
Þvermóður, í forundran: Af hverju?
Mamma (gengur verr að dylja gremjuna): Dettur þér í hug að ég ætli að fara að útskýra fyrir fullorðnum manni hversvegna eigi að fara út með ruslið?
Þvermóður starir svipbrigðalaust og þegjandi, tekur ekki við pokanum.
Mamma hækkar róminn: Drífðu þig nú og láttu ekki svona!
Þvermóður tekur pokann, drattast niður tröppurnar, urrandi, og gerir enga tilraun til að leyna hneykslun sinni á þessari frekju. Kemur aftur upp og stillir skónum sínum upp inni á miðju gólfi. Mamman tekur skóna þegjandi og setur þá í skóskápinn.

Þvermóður, með ódulinni reiði: Af hverju ertu að taka skóna mína?
Mamma, með kuldalegri stillingu: Þú veist vel að ég vil ekki hafa þá úti á miðju gólfi og mér líkar þetta virðingarleysi stórilla.
Þvermóður: Ég vil hafa þá þarna.
Mamma: Ég vil það ekki og við erum ekki að fara að rökræða það hvort ég eigi rétt á því að hafa heimilið þannig að mér líði vel hér. Ef þér líður betur með að hafa allt í drasli er einfaldast fyrir þig að fara bara inn í herbergið þitt. Gakktu svo frá þvottinum þínum elskan. Ég bað þig reyndar um það áður en ég fór út á miðvikudaginn.
Þvermóður situr sem fastast, með augun límd á hrukkukremsauglýsingarnar í sjónvarpinu, piltur sem aldrei hefur notað aðrar snyrtivörur en tannkrem, sjampó og handsápu.
Mamma: Það flokkast nú sem sjálfsögð kurteisi að svara.
Þvermóður: …
Mamma: Mér gremst þessi framkoma, viltu taka þvotinn þinn. Já og reyndar vil ég líka að þú fjarlægir þetta dót af stofuborðinu.
Þvermóður: …
Mamma: (í örvæntingarfullum tón) Get ég fengið skýringar á þessari framkomu? Ég veit nefnilega ekki til þess að ég hafi gert þér neitt.
Þvermóður: …

Mamma: Ég þoli þetta ekki. Okkur líður ekkert vel saman og ég hef ekki hugmynd um hvað ég get hugsanlega hafa gert til að verðskulda þessa framkomu. Ef við eigum að búa saman mikið lengur þá verðum við að gera eitthvað til að brjóta upp þessa óheilbrigða samskiptamynstur. Værirðu til í að koma með mér til ráðgjafa?
Þvermóður: …
Mamma (leið): Kannski væri betra ef við byggjum ekki saman.
Þvermóður: …
Mamma: Darri, ég er að tala í alvöru. Mig langar ekki að búa með þér nema eitthvað breytist.
Þvermóður: …
Mamma: Ég er ekkert að afneita þér en ég held að það væri betra fyrir okkur bæði. Auðvitað gætirðu komið oft í mat og við getum haldið áfram að fara saman í bíó og leikhús og ég mun auðvitað styðja þig fjárhagslega þegar þú ferð aftur í skóla.
Þvermóður: …
Mamma: Ég sé bara ekki að það þjóni neinum tilgangi fyrir okkur að búa saman. Ekki er að sjá að þú hafir ánægju af að umgangast mig og mér finnst ekki skemmtilegt að búa með einhverjum sem gengur um eins og þú gerir og yrðir varla á mig nema til að hreyta í mig ónotum.
Þvermóður: …
Mamma: Þér finnst sjálfsagt rosalega sniðugur leikur að svara mér ekki en þú hlýtur að vera farinn að þekkja mig nógu vel til að vita að ég læt ekkert hundsa mig. Ef þú vilt ekki tala við mig þá kemur að því að ég gríp til örþrifaráða.
Þvermóður: …

Eftir 40 mínútur í algerri þögn.
Mamma: Ég hef nú svosem nefnt þetta áður en þú ert búinn að vera óhamingjusamur mjög lengi og það er ekkert að skána. Ég er ennþá að velta fyrir mér hvort þú sért haldinn þunglyndi eða einhverju svoleiðis.
Þvermóður, urrandi: Ég er fullkomlega hamingjusamur.
Mamma: Gott og vel, þú ert fullkomlega hamingjusamur en hegðar þér samt eins og þú sért mjög óhamingjusamur. Ég nenni ekki að búa við það. Er einhver séns að fá þig annaðhvort til að gera eitthvað í því af sjálfsdáðum eða þá að viðurkenna að þú þurfir aðstoð?
Þvermóður: …
Mamma: Stundum finnst mér eins og væri jafnvel skárra að þú værir í rugli. Maður hefði þá allavega einhverja skýringu.
Þvermóður: …

Mamma, þurrlega: Ég nenni þessu ekki. Ég ætla inn í rúm. Góða nótt.
Þvermóður, í ögn hlýrri tón en hann hefur notað það kvöldið: Hrpmfhha nótt.
Mamma: Ertu kannski tilbúinn til að tala við mig?
Þvermóður: …

Og næst þegar við hittumst hefur ekkert breyst.

 

One thought on “Nöldur

  1. ————————————————–

    Bróðir minn er nákvæmlega eins. Þið mamma ættuð kannski að stofna sjálfshjálparhóp, al anon fyrir þunga unga menn…

    Posted by: Kristín | 19.01.2008 | 13:30:54

Lokað er á athugasemdir.