Nánar um ógnina

Mér var bent á það í dag að það væri kannski full langt gengið að líkja flugi við heimilisofbeldi. Það var auðvitað ekki hugsunin hjá mér. Samgöngur eru nauðsynlegar, bjarga mannslífum og allt það. Mér finnst hinsvegar ástæða til að gagnrýna það viðhorf að umhverfissjónarmið séu ógnvaldur.

Ég legg ekki til að flug verði aflagt en það er bara staðreynd að við sem jörðina byggjum, ekki síst Íslendingar, notum miklu meiri olíu en við þurfum nauðsynlega á að halda. Og það er bara einn þáttur í þeirri gengdarlausu neysluhyggju sem ógnar náttúrunni og framtíð jarðarinnar.

Það er ekki umhverfisvernd sem er vandamálið, heldur ofneyslan. Það hlýtur að koma að því að við þurfum að finna leið til að vera glöð án þess að sukka endalaust í munaði. Okkur er engin vorkunn þótt við leggjum á okkur að fara með dagblöð og gosumbúðir í endurvinnslu. Við eigum ekkert bágt þótt við komumst ekki til útlanda tvisvar á ári. Við eigum ekki einu sinni bágt þótt komi að því að við munum nokkurnveginn hvað er í ísskápnum og þurfum jafnvel að láta okkur hafa það að nýta það áður en það skemmist.

Ógnin sem steðjar að okkur er hófleysið. Ekki umhverfisverndin.