Þrátt fyrir almenna þekkingu á því hvernig börn verða til og gott aðgengi að getnaðarvörnum, flykkjast íslenskar konur í fóstureyðingu sem aldrei fyrr. Á Íslandi eru framdar meira en 900 fóstureyðingar árlega. Árið 2008 var 955 fósturm eytt eða 3-4 hvern virkan vikudag. Um 16% allra fóstra eru þannig fjarlægð úr móðurkviði oftast án þess að nein ástæða sé til að ætla annað en að þau séu heilbrigð og eigi góða möguleika á að lifa eðlilegu lífi. Hæst er hlutfall þeirra kvenna sem fara í slíka aðgerð á aldrinum 20-30 ára. Stöku sinnum er fóstri eytt af því að heilsu hennar er hætta búin og í örfáum tilvikum hefur konan orðið ólétt við nauðgun. Í um 97% tilvika er það þó af ‘félagslegum ástæðum’ sem verðandi mæður óska eftir því að fóstrið sé fjarlægt.
Ég hef ekki fundið neina skrá yfir hlutfall þeirra ‘félagslegu aðstæðna’ sem hrekja konur til slíkrar ákvörðunar. Ætla má að í einhverjum tilvikum merki það að foreldrarnir séu óreglufólk eða haldin sjúkdómum sem gera þau vanhæf til að annast barn. Eitthvað mun líka um að fátækt sé meginforsenda fóstureyðingar. Ég veit þess reyndar engin dæmi frá Norðurlöndum að fólk væri betur komið dautt, eingöngu sakir fátæktar en í okkar samfélagi þykja það náttúrulega hræðileg örlög að þurfa að útskýra fyrir barni að það geti ekki fengið allt sem það bendir á. Ég er nokkuð viss um að oftast merkja ‘félagslegar aðstæður’ í þessu samhengi ekki annað en það að ólétta konan sé ung og þar sem fóstureyðingar eru algengastar á þeim aldri sem konur eru hæfastar til barneigna, er ég nokkuð viss um að oft er meginástæðan sú að móðirin sér fram á að barnið verði á einhvern hátt til óþæginda. Það eru ekki ‘erfiðar félagslegar aðstæður’ að þurfa að skipta um starf eða fresta einhverjum áætlunum, svo auðvitað væri heiðarlegra að leyfa fóstureyðingar af hagkvæmnis ástæðum eða jafnvel þæginda ástæðum.
Mér finnst aftur á móti réttlætanlegt að flokka það sem slæmar félagslegar aðstæður þegar konan á fjölskyldu og vini sem líta á réttinn til að drepa fóstur sem sérlegt hagsmunamál kvenna og vilja fyrir alla muni troða þeim rétti upp á konuna með góðu eða illu. Ég þekki þess mörg dæmi að ungar konur hafi farið í fóstureyðingu beinlínis vegna þrýstings frá fjölskyldunni. Fjölskyldu sem myndi standa með sinni stelpu á allan hátt ef hún yrði fyrir slysi, ef hún ákvæði að fara í lögfræðinám, keppa á Ólympíuleikunum eða takast á við annað erfitt verkefni. Sama fjölskylda getur hinsvegar brugðist við tilurð lítils barns með því að telja stúlkunni trú um að ekkert nema erfiðleikar og áþján séu fram undan, í stað þess að bjóða fram aðstoð. Ég veit þess dæmi að faðir 17 ára stúlku keypti líf barnins hennar fyrir utanlandsferð. Ég þekki stúlku sem varð fyrir því að hennar eigin foreldrar gáfu í skyn að þau myndu úthýsa henni ef hún léti barnið lifa og aðra sem átti tengdaforeldra sem sögðu henni hreint út að hún yrði að flytja út frá þeim ef hún færi ekki í fóstureyðingu. Hún flutti út og mér finnst einhvernveginn ólíklegt að afinn og amman séu nokkuð stolt af því í dag að hafa reynt að kúga hana til að láta drepa litla barnabarnið. Ég þekki þess dæmi að 19 ára stúlka var hvött til að fara í fóstureyðingu með þeim rökum að móðurhlutverkið sé 18 ára fangelsi.
Þegar ung stúlka sem ekki getur reiknað með að faðirinn taki sinn hluta af ábyrgðinni, verður ólétt eru skilaboðin skýr: Líf þitt er ónýtt. Þú verður einstæðingur. Heilbrigðiskerfið og félagsþjónustan taka svo þátt í kúguninni með því að tala um barnið sem ‘frumukökk sem er ekki orðinn að neinu’ og tíunda erfiðleikana sem fylgja því að eiga barn. Stúlkan, sem hefur fengið rækilega fræðslu um getnaðarvarnir fer í fóstureyðingu án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hversu langt fóstrið er komið í þroska eða hvernig aðgerðin fer fram. Fræðslan sem hún fær er ein setning: ‘Legið er tæmt með sogröri’. Á mannamáli merkir þetta að fóstrið er tætt í sundur með sogkrafti, ósköp svipað og ef nýfætt barn væri slitið í búta með karfmikilli iðnaðarryksugu. Danir bjóða konunni svo upp á sálfræðiviðtöl eftir á til að hjálpa henni að réttlæta verknaðinn og losna við samviskubitið. Það er hinsvegar ekki boðið upp á sálfræðiaðstoð fyrirfram til að hjálpa henni að gefa skít í kúgunaraðgerðir samfélagsins eða átta sig á því að hún er ekki of mikill aumingi til að ala upp barn, að fjöldi kvenna hefur lokið langskólanámi, ferðast og skemmt sér þrátt fyrir barneignir og að í öllum stéttum og öllum geirum atvinnulífins eru dæmi um einstæðar mæður.
Fram á 12. viku meðgöngu geta íslenskar konur látið tæta fóstur í sundur, nánast af eigin geðþótta. Aldur, nám, börn sem konan á fyrir, andleg vanlíðan, erfið fjölskylda, lélegur barnsfaðir; allt eru þetta gildar félagslegar ástæður. Eftir 12. viku er fóstrið orðið of stórt til að hægt sé að ryksuga það úr leginu og þá þurfa þær betri ástæðu en almenna barnfyrirlitningu samfélags sem myndi fordæma þær fyrir að gefa frá sér barn en leggur hinsvegar blessun sína yfir þetta:
(Jájá, þetta eru trúarnöttarasamtök sem hafa komið grimmilega fram við konur en staðreynd er staðreynd jafnvel af vörum hins versta skíthæls).
Í Danmörku fá ómyndugar stúlkur auðveldlega leyfi til fóstureyðingar þótt fóstrið sé orðið 16 vikna gamalt og allt fram á 20.viku ef telpa verður ólétt áður en hún nær 15 ára aldri. Hún er nefnilega ekki nógu gömul til að fæða og annast lifandi barn en það er samt talið í lagi að bjóða henni upp á að fæða látið barn. Mér skilst að á Norðurlöndunum sé fóstrið drepið áður en fæðingu er komið af stað með hormónagjöf en í Bandaríkunum er það tætt sundur í fæðingunni. Ef læknisfræðilegar ástæður bætast við er fóstureyðing lögleg allt fram á 22. viku meðgöngu í Danmörku en eftir 23 viku fæst slíkt leyfi ‘alls ekki’ segir í dönskum lögum. Það ekki er gott að segja hvað það er sem gerist á viku 23 sem gerir frumukökkinn að barni og reyndar er það einfaldlega geðþóttaákvörðun yfirvalda í hverju landi, hvenær fóstur skuli teljast nógu gamalt til að njóta mannhelgi. Í Kína er það ekki fyrr en barnið er fætt og þar nær fóstureyðingahugtakið yfir þá aðgerð að stinga prjóni inn í heila barnsins í fæðingu. Það er semsagt engin læknisfræðileg staðreynd að 11 vikna fóstur sé ‘frumukökkur’ heldur bara pólitísk ákvörðun.
Frjálsleg fóstureyðingalöggjöf er ekki kvenréttindamál heldur merki um löggjafa sem lítur á börn sem aðskotadýr en ekki eðlilega þáttakendur í mannlegu samfélagi. Helstu rökin fyrir frjálslegri fóstureyðingalöggjöf eru þau að ólöglegar fóstureyðingar séu hættulegar en það eru auðvitað sömu sjúku viðhorfin sem knýja konur til að gangast undir ólöglegar aðgerðir. Að ýta undir og viðhalda þeirri afstöðu að börn séu einhverskonar krabbamein á samfélaginu, með því að líta á fósturdráp sem eðlilega vörn gegn erfiðleikum, er ekki kvenréttindamál heldur mannfjandsamlegt stjórntæki yfirvalda sem undir öllum kringumstæðum þjóna atvinnulífinu betur en hagsmunum fjölskyldunnar.
Við getum endalaust deilt um það hvenær barn eigi að teljast einstaklingur, hvort mannslíf sé yfirhöfuð heilagt og hvort það sé einkamál kvenna hvort þær gangi með börn eður ei. Það væri hinsvegar fróðlegt að sjá niðurstöðuna ef vestrænt samfélag færi að drullast til þess að takast á við barnfyrirlitningu sína og virðingarleysi sitt gagnvart móðurhlutverkinu í stað þess að þræta um rétt kvenna og heilagleika lífins. Það yrði til mikillar blessunar ef við viðurkenndum að manneskjan hefur ekki aðeins kynhvöt, heldur líka æxlunarhvöt og að fólk mun halda áfram að geta börn þótt það búi ekki við kjöraðstæður. Það væri kvenréttindamál að kynna konum sem kvíða því að eignast börn, hvaða aðstoð velferðarkerfið býður upp á. Það væri jafnréttismál krefjast þess af karlmönnum að þeir sinni föðurhlutverki sínu í stað þess að segja þeim að þeim komi ekki við hvort börn þeirra fái yfirhöfuð að fæðast. Það væri mannúðarmál að hætta að líta niður á konur sem treysta öðrum betur en sjálfum sér til að annast barnið.
Það allraminnsta og ómerkilegasta sem við gætum gert væri að hætta að dæma konur til að verða einstæðingar um leið og þær verða óléttar. Við getum t.d. sagt hvernig getum við hjálpað til? í staðinn fyrir þú getur ekki lokið námi, þú getur ekki ferðast, þú verður að hætta að skemmta þér, þú færð aldrei almennilega vinnu. Það væri sannarlega til hagsbóta fyrir bæði konur og karla og þó mest í þágu barnanna að losa okkur við þá skoðun að kona sem tekur móðurhlutverkið fram yfir framapot sé ómerkilegri en stjórnendur, lögfræðingar og þingmenn. Ennþá betra væri ef við losuðum okkur við þá þráhyggju að það sé aðeins hægt að velja annað hlutverkið og færum í stað þess að velta því fyrir okkur hvernig sé hægt að bjóða börn upptekinna mæðra velkomin í heiminn en ekki hvort.
Vandamál hinnar einstæðu móður er ekki yndislega, lilta barnið hennar, heldur samfélag sem lítur á konur sem nánast óeðlilegt fyrirbæri og börn sem vandamál. Andóf gegn barnfyrirlitningu og mæðrafyrirlitningu er kvenréttindamál, fóstureyðingar eru það hinsvegar ekki.
Hér fyrir neðan er allt myndskeiðið.
Eva | 11:25 | Varanleg slóð |
TJÁSUR
Flest stríð í heiminum sl 30 ár eiga rót sína að rekja til fóstureyðinga.
Allir repúblikana forsetar USA sl 30 ár RR, GWB I, GWB II hafa verið kosnir fyrst og fremst vegna andstöðu sinnar gegn fóstureyðingum.
Forsetar USA skipa dómara í Hæstarétt. Meirihluti 9 dómara úrskurðar um fóstureyðingar. Síðast var lögum um fóstureyðingar snúið 1973 Roe v Wade. Engin ný lög voru sett – eingöngu ný lagatúlkun meirihluta hæstaréttar USA.
Við lok forsetatíðar G. W. Bush II voru hlutföllin 5/4 fósturverndar sinnum í hag. Obama hefur síðan skipað 2 dómara, sem styðja fóstureyðingar.
Fóstuverndar sinnar á forseta stóli sem tilbúnir eru til að leggja allt í sölunar fyrir ófædd börn eru herskáir karakterar. Önnur stríð en í móðurkviði fylgja gjarna þessum mönnum.
Posted by: Jóhann Gunnarsson | 1.05.2010 | 11:10:02
Þetta er nú reyndar ekki rétt hjá þér Jóhann. Flest stríð í heiminum eiga rætur að rekja til efnahagslegra hagsmuna en koma fóstureyðingum lítið við og allir forsetar Bandaríkjanna síðustu 30 ár hafa verið herskáir.
Það er svo í besta falli umdeilanlegt að afstaða til fóstureyðinga hafi ráðið mestu um kjör þessara forseta sem þú nefnir.
Posted by: Eva | 1.05.2010 | 11:39:59
Ég get alveg verið sammála þér um það að fóstureyðingar eru ógeðslegar og ætti ekki að nota í staðinn fyrir getnaðarvörn. En konur sem eru í þannig aðstöðu að þær þurfi á fóstureyðingum að halda hefur nákvæmlega ekkert við svona málflutning að gera. Það er ekki á bætandi við þá andlegu vanlíðan sem getur skapast hjá konu sem þarf að framkvæma þennan verknað.
Það er sjálfsagt að fræða konur um hvað þetta getur verið mikið mál, en frjálsleg fóstureyðingarlöggjöf er mannréttindamál, óháð mannfjandsamlegu þjóðfélagi. Það er mun skárra að láta eyða fóstri heldur en að ala upp barn í djúpu þunglyndi. Það er mannfjandsamlegt að neyða ungar stúlkur til að eyða fóstri sem þær kæra sig um, en eins er mannfjandsamlegt að neita þeim um að eyða fóstri sem þær hafa ekki burði til að sjá um.
Þær ungu stúlkur sem geta staðið upp í hárinu á samfélaginu, og neita að fara í fóstureyðingu eru vonandi þær stúlkur sem eru nógu sterkar til að geta alið upp barn þrátt fyrir unglingsaldur og lélegar aðstæður.
Posted by: Nonni | 1.05.2010 | 12:11:39
Af hverju er það þá ekki mannréttindamál að fá að drepa nýfætt barn ef það er á einhvern hátt fyrir?
Hefurðu ástæðu til að ætla að fyrir árið 1935 (þá voru fóstureyðingar lögleiddar) hafi hundruð barna alist upp í djúpu þunglyndi?
Posted by: Eva | 1.05.2010 | 12:23:21
Já já þetta er alveg einfalt fyrir þig að dæma aðra sem átt bara stráka og munt þessvegna aldrei sitja uppi með börnin þeirra eða ólétta dóttur.
Posted by: Anonymous | 1.05.2010 | 13:28:45
Já, mér finnst ekkert flókið að fordæma það að fólk hálfþvingi dætur sínar, systur og vinkonur í fóstureyðingu.
Það er líka rétt að ég mun aldrei sitja uppi með ólétta stúlku eða barnabörn. Tengdadætur mínar verða nefnilega jafn velkomnar á mínu heimili og ég var hjá Hönnu og Bjarna. Og ef þess gerist einhverntíma þörf að ég ali upp barnabarn, þá mun ég ekki ‘sitja uppi með það’ eins og vandamálaklafa, ekki frekar en föðuramma drengjanna minna ‘sat uppi’ með þá á meðan ég var á spítala. Í heilbrigðum fjölskyldum heitir það nefnilega að hjálpast að.
Posted by: Eva | 1.05.2010 | 14:24:08
Er það alltaf betra að börn fái að fæðast en ekki, er það það sem þú ert að segja? Skipta þær aðstæður sem barn fæðist inn í ekki máli? Ef móðirinn er í þannig aðstæðum að hún getur ekki látið sér þykja vænt um barnið eða getur ekki sinnt því, segjum vegna þunglyndis eða neyslu eða whatever, er það þá samt betra að barnið fæðist? Er það betra að einstaklingur fæðist sem verður fyrir skaða í uppvexti heldur en að hann fæðist ekki? Það væri náttúrulega aldeilis frábært ef fólk væri duglegra að hjálpast að, en mér finnst þú vera að byrja svolítið á öfugum enda. Ef fóstureyðingar yrðu bannaðar, væri hlutirnir verri en ella, ekki skárri.
Það voru kannski ekki hundruð barna sem ólust upp hjá mj. þunglyndum einstæðum mæðrum, en kannski nokkur, og mér finnst í lagi að fórna nokkrum fóstrum til að koma í veg fyrir að eitt barn fæðist í aðstæður sem er ekki neinum bjóðandi.
Mér finnst ekki mannréttindamál að drepa nýfætt börn af því ég hef mótast það mikið af þjóðfélaginu að mér þykir það ekki siðferðislega rétt. Það tíðkast/tíðkaðist samt í mörgum þjóðfélögum að henda nýfæddum börnum út á gaddinn, ef það var ekki hægt að sjá fyrir þeim.
Ástæðan fyrir því að mitt siðferði leyfir fósturdráp upp að 12. viku eða svo er að náttúran drepur sjálf 10% af fóstrum milli 2 og 12 vikna, og mér finnast inngrip þar ekkert voðaleg. Fóstur þroskast í leginu, og mér þykir það meira rangt að drepa þau eftir því sem þau ná meiri þroska, á sama hátt og mér þykir meira rangt að drepa manneskju en dýr. Svo við snúum þessum rökum þínum á hvolf, er það þá ekki mannréttindamál fyrir ógetin framtíðarbörn að banna getnaðarvarnir?
Ég held samt að ég geti verið sammála þér um það að það er fáránlegt að 20% allra fóstra er eytt af læknum. Mér þætti ekkert hræðilegt að krakkar myndu fræðast um fóstureyðingar, þannig að þær hættu að vera ekkert tiltökumál.
Posted by: Nonni | 1.05.2010 | 18:07:36
Nei ég er ekki að segja að það sé alltaf betra að barn fái að fæðast en ég held að flestir sem hafa fengið tækifæri til að lifa kunnir að meta það. Ég held að ég komist nokkuð skýrt að orði þegar ég segi að vandamálið sé samfélag sem einkennist af barnfyrirlitningu og lítur niður á móður sem ákveður að gefa frá sér barn.
Ástæðan fyrir því að þú viðurkennir fóstureyðingar stendur ekki í neinu sambandi við líkurnar á því að það deyi hvort sem er. Ef svo væri myndir þú líka samþykkja að sjúklingum, gamalmennum og fólk sem býr á stríðshrjáðum svæðum yrði lógað. Þú samþykkir fóstueyðingar vegna þess að þú ert alinn upp við löggjöf sem lítur á þær sem lækningu.
Mér finnst út í hött að bera saman getnaðarvörn og fóstureyðingu en þar sem þú hefur greinilega ekki meðtekið hvað það er sem greinin snýst um í fyrstu tilraun, endurtek ég sjálfa mig hér með:
‘Við getum endalaust deilt um það hvenær barn eigi að teljast einstaklingur, hvort mannslíf sé yfirhöfuð heilagt og hvort það sé einkamál kvenna hvort þær gangi með börn eður ei. Það væri hinsvegar fróðlegt að sjá niðurstöðuna ef vestrænt samfélag færi að drullast til þess að takast á við barnfyrirlitningu sína og virðingarleysi sitt gagnvart móðurhlutverkinu í stað þess að þræta um rétt kvenna og heilagleika lífins.’
Posted by: Eva | 1.05.2010 | 21:36:17
Bara svo það sé á hreinu, þá meðtók ég megininntak greinarinnar, og er sammála því. Ég er hins vegar ósammála því að frjálsleg fóstureyðigarlöggjöf sé ekki kvenréttindamál. Hún er það bara víst og ég þræti víst um rétt kvenna óháð barnafyrirlitningu samfélagsins.
Það að kona verður þunguð fyrir slysni hefur áhrif á atvinnumöguleika, möguleika á menntun o.fl. Eitthvað sem hefur engin áhrif á karl, sem ákveður að láta það ekki hafa áhrif á sig.
Það eru ekki allar konur sem hafa áhuga á að verða mæður akkúrat þegar þær verða þungaðar. Konur eiga ekki að þurfa að setja allt á ís vegna þungunar, og meira að segja í besta samfélagi allra góðra samfélaga þá þarf að setja vissa hluti á ís vegna óléttu og svo ósjálfbjarga barns í beinu framhaldi.
Ég taldi mig gera grein fyrir því hvers vegna mér finnst ekki hræðilegt að eyða fóstri. Það að náttúran drepur svona mörg fóstur á þessum fyrst 3 mánuðum leiðir til þess að mér finnst það ásættanlegra heldur en að drepa nýfædd börn. Ég skal alveg taka undir það að ég hef litast af því samfélagi sem konur þurftu að berjast fyrir af krafti. Samfélag hefur klárlega áhrif á fólk.
Mér finnst að það þurfi að vega fósturdráp á móti manneskju sem á sér líf og hefur rétt á að taka ákvörðun um eigið líf og líkama og mér finnst líka að það þurfi að vega það á móti því að með fóstureyðingu er móðirin hugsanlega að búa betur í haginn fyrir framtíðarafkvæmi.
Svo finnst mér þú bara vera að snúa út úr og tuða..
Auðvitað eru nær allir sem hafa fengið að lifa bara nokkuð sáttir við það. Það gefur auga leið, á sama hátt og ég hef aldrei hitt neinn sem var ósáttur við það að hafa verið eytt sem fóstri. Þetta er rökleysa og þvæla. Allir sem ég þekki eru líka rosalega glaðir að þeirra sæðisfruma og þeirra egg hittust, og þeim var bara ekki hent í ruslið í einhverri latexklessu.
Og auðvitað er út í hött að bera saman fóstureyðingu og getnaðarvörn. Það er álíka mikið út í hött eins og að bera saman fóstureyðingar og dráp á nýfæddum börnum eða sjúklingum og gamalmennum.
Posted by: Nonni | 1.05.2010 | 22:16:16
Nonni skoðaðu þína eigin orðræðu. Bara það að við skulum kalla óskipulagða þungun ‘slys’ afhjúpar hið raunverulega vandamál.
Getur verið að hluti af vandamálinu sé kannski það að karlinn láti það bara ekkert hafa áhrif á sig þótt hann verði faðir? Myndi það þjóna jafnréttinu betur ef pabbinn tæki helminginn af ábyrgðinni?
Ef kona á ekki að þurfa að breyta neinum áætlunum vegna þungunar, ættu foreldrar þá eitthvað frekar að þurfa að skipta um forgangsröð ef barn sem þegar er fætt veikist? Væri þá ekki rökrétt að lóga barninu ef t.d. veikindi verða til þess að foreldrar þurfa að skipta um starf?
Í Afríku deyja rosalega mörg börn á fyrstu 2 árunum vegna sjúkdóma, hungurs og annars náttúruvals. Er þá meira í lagi að drepa afrískt barn en Norrænt, af því að líkur eru á að það deyi hvort sem er?
Það að bera saman dráp á nýfæddum börnum og á fóstum er ekki meira út í hött en svo að í Kína flokkast það fóstureyðing að stinga prjóni inn í heila barns í fæðingunni. Sérð þú mun á því og að drepa það eftir að það er fætt?
Posted by: Eva | 2.05.2010 | 7:24:24
Já og af hverju er hreinlega ekki litið á það sem valkost að gefa barn til ættleiðingar? Af því að það er erfitt er það ekki. Það er svo miklu þægilegra að drepa manneskju sem maður sér ekki en að kveðja einhvern sem hefur merkingu fyrir mann. Og lífið Á að vera auðvelt. Við höfum RÉTT til þess að vaða á allan hátt yfir þá sem eru minni máttar ef það þjónar hagsmunum OKKAR NÚNA. Er það ekki sú skoðun sem liggur að baki?
Posted by: Eva | 2.05.2010 | 7:33:20
Viltu láta banna daginn eftir pilluna?
Posted by: Halli | 2.05.2010 | 11:34:45
Nei, ég vil ekki láta banna fóstureyðingapilluna, allavega ekki fyrr en það er orðið almennt viðhorf að fóstueyðing sé algert neyðarúrræði.
Ástæðan er sú að mér finnst þó mannúðlegra að drepa fóstrið með eitri áður en það er komið með sársaukaskyn en að tæta það í sundur lifandi 10 vikna. Af sömu ástæðu finnst mér kínverska aðferðin dálítið geðslegri.
Posted by: Eva | 2.05.2010 | 13:21:32
Ég sé að ég er mjög fastur í þessu viðhorfi sem þú ert að blammera. Ég þarf samt aðeins að útskýra:
Mér finnst að börn eigi rétt á því fyrstu árin að það sé fulltime vinna og vel rúmlega það að sjá um þau. Þau eiga að geta fengið brjóst þegar þau vilja og fulla athygli. Í mörgum frumstæðari samfélögum fer konan að vinna með barnið bundið á sig og gefur því athygli og brjóst þegar það þarf á að halda.
Í okkar samfélagi er þetta ekki möguleiki, og það er mikill miður. Ég sé ekki fyrir mér að móðir taki barnið með sér í skólastofuna eða skrifstofuna. Það myndi „trufla“ og þætti bara í hæsta máta óeðlilegt.
Til þess að móðirinn geti sinnt barninu þarf hún að sleppa því að gera það sem hún hafði ákveðið að gera, og það getur skaðað afkomumöguleika hennar um ókomna framtíð.
Þess vegna finnst mér, að í þessu samfélagi, sé það kvenréttindamál að fóstureyðingar séu aðgengilegar. Það hjálpar mjög mikið að faðirinn sé til staðar, en það eru samt líffræðilegar ástæður fyrir því að faðirinn getur ekki komið að fullu leyti í staðinn fyrir móður.
Mér finnst samt sem áður að fjöldi fóstureyðinga sé út úr öllu korti, sérstaklega þegar það eru til getnaðarvarnir og morgunpilla (geðslegri fóstureyðing).
Það virðist vera samdómur vísindamanna að börn finni ekki til sársauka fyrr en eftir 26. viku. Þar fyrir utan þá eru notuð deyfiefni til öryggis eftir 12. viku. Allt tal um að börn geti mögulega fundið til fyrir 12. viku er bara bull, komið frá þeim sem vilja helst að konur séu undirgefnar mönnum sínum í einu og öllu.
Posted by: Nonni | 2.05.2010 | 15:51:23
Þetta er nú reyndar mjög umdeilt. Sumir vísindamenn segja að fóstur hafi ekki sársaukaskyn fyrr en á 28. viku aðrir tala um 20. viku og hversvegna í ósköpunum er gefið deyfiefni ’til öryggis’ ef menn eru svona vissir um þetta? Á Íslandi eru dæmi um fyrirbura sem hafa fæðst á 24. viku. Spurðu foreldra þeirra hvort frumukekkirnir þeirra hafi haft sársaukaskyn.
Á myndbandinu sést 12 vikna fóstur beinlínis berjast fyrir lífi sínu, svo ég á frekar bágt með að trúa því að það finni ekki fyrir neinu. Ég, fyrir mitt leyti vil láta barnið/frumukökkinn njóta vafans. Það er ekki af því að ég vilji að konur séu körlum undirgefnar.
Posted by: Eva | 2.05.2010 | 17:06:49
„Það virðist vera samdómur vísindamanna að börn finni ekki til sársauka fyrr en eftir 26. viku. Þar fyrir utan þá eru notuð deyfiefni til öryggis eftir 12. viku. Allt tal um að börn geti mögulega fundið til fyrir 12. viku er bara bull, komið frá þeim sem vilja helst að konur séu undirgefnar mönnum sínum í einu og öllu.“Mitt svar:
Eftir 21 dag slær hjartað – eftir 10 vikur eru t.d. hendur og fætur fullsköpuð. Tímasetning sársaukaskyns hefur ekki verið staðfest.
Sónarmyndir af fóstureyðingum fyrir 12. viku sýna fóstur reyna víkja sér undan hnífnum… sem sker þau í sundur áður en þau eru soguð út.
Fóstureyðing er valkostur. Ekki eru allir sammála. Hér er myndband af áttburamóðurinni.
http://www.oprah.com/oprahshow/Experience-a-Day-in-the-Life-of-Nadya-Suleman-Video_1
http://www.pressan.is/Barnapressan/Lesa_Barnapressuna/attburamamman-hja-opruh–video
Posted by: Jóhann Gunnarsson | 3.05.2010 | 10:37:01
Það var nú reyndar ekki ég sem sagði það heldur Nonni.
Posted by: Eva | 3.05.2010 | 13:54:12
Þetta er nú reyndar ekki rétt hjá þér Jóhann. Flest stríð í heiminum eiga rætur að rekja til efnahagslegra hagsmuna en koma fóstureyðingum lítið við og allir forsetar Bandaríkjanna síðustu 30 ár hafa verið herskáir.Það er svo í besta falli umdeilanlegt að afstaða til fóstureyðinga hafi ráðið mestu um kjör þessara forseta sem þú nefnir.
Mín skoðun:
Carter var ekki herskár… reyndi að frelsa 100 gísla í USA sendiráði í Teheran… algjört flopp.
Clinton var ekki herskár… reyndi að aðstoða í Sómalíu… algjört flopp.
Eingöngu herskáir forsetar kunna til verka í stríðum… hikandi og ráðalausir forsetar eru til vandræða í styrjöldum.
Öll stríð sem USA hefur tekið þátt í sl 30 ár eru olíu-tengd.
Ef þú kynnir þér hvaða mál er forgangsmál hjá repúblikönum sl 30 ár… þá mun koma í ljós að fóstureyðingar eru í 1. sæti.
Posted by: Jóhann Gunnarsson | 3.05.2010 | 21:30:12
„er það þá ekki mannréttindamál að fá að drepa nýfætt barn ef það er á einhvern hátt fyrir?Hefurðu ástæðu til að ætla að fyrir árið 1935 (þá voru fóstureyðingar lögleiddar) hafi hundruð barna alist upp í djúpu þunglyndi?“
Mín skoðun.
Útburður kom í stað fóstureyðingar áður fyrr.
Útburður og blót voru helstu átakamál við kristnitöku árið 1000… blót og útburður voru umborin til 1022… eftir það voru þau bönnuð… oog eingöngu framkvæmd á laun.
Það er hugmynd kirkjunnar að líf sé heilagt… ekki heiðingja.
Úburður – mannát – fóstureyðingar er runnið af sömu rótum… þ.e. lífið er ekki heilagt.
Bann við fóstureyðingum var hert 1935 eða 6… m.a. voru undantekningar að deyða mátti ófætt barn ef ætla mátti að það hefði glæpahneigð til að bera vegna ætternis ofl undantekningar.
Posted by: Jóhann Gunnarsson | 3.05.2010 | 21:45:46
Kæra Eva,
ég er sammála ýmsu sem þú segir, öðru ekki, en ég vil bara koma einu atriði að:
Hreyfingar fóstursins á myndbandinu eru ósjálfráður reflex. Það að fóstrið geti hreyft sig og brugðist við áreiti merkir ekki að það finni fyrir sársauka. Og það merkir alls ekki að fóstrið hafi vott af meðvitund um það sem er að gerast í kringum það eða í líkama þess. Amöbur hafa reflexa. Það að við skulum sjá hreyfingarnar á myndbandinu sker ekki úr um neitt.
Svo hvet ég þig til þess að kynna þér tilurð þessa myndbands (ef þú hefur ekki þegar gert það) og viðbrögð vísindamanna við því.
Kveðja,
Þórdís
Posted by: Þórdís | 3.05.2010 | 23:14:34
Jóhann. Útburður hefur alltaf tíðkast í einhverju mæli. Það gerist enn í dag að börn finnist í ruslatunnum eða að mæðurnar deyði þau í fæðingu. Fóstureyðingar koma ekki í veg fyrir slíkt. Ætla má að frjálsleg fóstureyðingalöggjöf dragi úr ungbarnadrápum en bætt heilsugæsla, bættar félagslegar aðstæður og breytt viðhorf til einstæðra mæðra og lausaleiksbarna eiga örugglega meiri þátt í því að fáar konur líta á útburð sem valkost.
Það er ekki hugmynd kirkjunnar að lífið sé heilagt. Hugmyndir um mannhelgi tíðkast í öllum mannlegum samfélögum og um leið sú hugmynd að sum líf séu helgari en önnur. Það má drepa fólk af óvinaættbálki en ekki sínum eigin. Það má drepa þá sem brjóta svo illa gegn reglum samfélagsins að það vill ekki fyrirgefa. Það er alltaf einhver sem má svipta lífi. Kristilegar kirkjur eru sannarlega engin undantekning frá þessu og nægir að nefna krossferðir og galdraofsóknir.
Posted by: Eva | 4.05.2010 | 7:12:13
Þórdís, takk fyrir þitt innlegg. Getur þú bent mér á einhverja gagnrýni eftir vísindamann sem ekki er tengdur fóstureyðingaiðnaðinum eða hefur aðra hagsmuni af frjálslegri fóstueyðingalöggjöf?
Ég skal alveg gefa því séns að það sé eitthvað annað en sársauki sem veldur því að fóstrið víkur sér undan. Hinsvegar vil ég láta það njóta vafans því sannleikurinn er nú bara sá að vísindamenn hafa ekki hugmynd um það hvort fóstur á þessum aldri hefur sársaukaskyn eða ekki. Fyrir 30 árum var talið að sársaukaskyn þróaðist á viku 26-28. Fyrirburafæðingar hafa afsannað það og í dag er talið að fóstur hafi sársaukaskyn 20 vikna gamalt. Fyrr eða síðar mun 18 vikna fóstur lifa af og ef þau hafa ekki snertiskyn skal ég anda rólega.
Annars finnst mér mikilvægari spurning hvers vegna svo mörg börn eru óvelkomin í samfélagi sem hefur alla burði til að búa vel að þeim. Mér finnst mikilvægara að draga úr eftirspurninni eftir fóstureyðingum en framboðinu.
Posted by: Eva | 4.05.2010 | 7:34:39
Þú tekur ákvörðun fyrir þinn líkama.
Ég fyrir minn.
Case closed.
Posted by: Bella | 4.05.2010 | 11:38:43
Þannig eru lögin Bella og ef þú vilt láta fjarlægja fóstur eftir 12. viku eða eftir 16. viku þá er hægt að gera það ólöglega. Læknar frömdu ólöglegar fóstureyðingar fyrir 1975 og ég sé ekki hversvegna það ætti að hafa breyst.
Þeir sem líta á fóstrið sem hluta af líkama móðurinnar og þeir sem líta á það sem sérstakan einstakling geta ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um réttmæti fóstureyðinga, eins og ég kem inn á í pistli sem ég birti á eftir þessum. Að því leyti er ‘case closed’ alveg rétt niðurstaða hjá þér. Þú ferð þínu fram hvað sem öðrum sýnist.
Hinsvegar er hugsanlegt að við séum sammála um að minni eftirspurn eftir fóstueyðingum væri æskileg og það er sú umræða sem ég vil sjá.
Svo þessvegna spyr ég þig Bella og aðra með þína afsöðu, hversvegna eru svo mörg börn óvelkomin og finnst þér að þurfi að breyta því?
Posted by: Eva | 4.05.2010 | 12:03:01
sorglegt. Þetta er orðið svo algengt.
‘Eg á 3 börn á tæpum 3 árum og það var svo sem ekki óska staða… en aldrei kom fóstureiðing til greina, þótt margir sögðu mér að fara.
Sá enga ástæðu til. Þótt ég ætti ekki mikla peninga á ég nóg af ást og kærleika og það er mun mikilvægara en nokkuð sem þú getur keypt.
Posted by: Margrét | 4.05.2010 | 12:22:54
sorglegt. Þetta er orðið svo algengt.
‘Eg á 3 börn á tæpum 3 árum og það var svo sem ekki óska staða… en aldrei kom fóstureiðing til greina, þótt margir sögðu mér að fara.
Sá enga ástæðu til. Þótt ég ætti ekki mikla peninga á ég nóg af ást og kærleika og það er mun mikilvægara en nokkuð sem þú getur keypt.
Posted by: Margrét | 4.05.2010 | 12:23:05
Áhugaverð og vel skrifuð grein. Hér má finna mín sjónarmið, ef þú hefur áhuga:http://skodun.is/2006/03/09/nokkur-rok-fyrir-frjalslyndum-logum-um-fostureydingar/
Posted by: Sigurður Hólm Gunnarsson | 4.05.2010 | 16:45:54
Takk fyrir athugasemd þína. Sendi inn stutt svar.
Posted by: Sigurður Hólm Gunnarsson | 4.05.2010 | 20:47:20
Hvernig væri nú að hafa staðreyndir á hreinu um fóstureyðingar.
Fóstur eru ekki „tætt“ í sundur eins og þú heldur fram hérna. Heldur er faglega staðið að þessu. Þannig að konunni verði ekki meint af.
Konur hafa margar ástæður fyrir því að fara í fóstureyðingu. Það er hinsvegar þeirra réttur. Það sem mætti þó gjaran bæta inn í ferlið varðandi ólögráða einstaklinga væri sálfræðinugur til viðtals áður en endanleg ákvörðun er tekin.
Upplýsingar um fóstureyðingar.
http://www.nlm.nih.gov/medlineplus/abortion.html
Posted by: Jón Frímann | 7.09.2010 | 17:22:19
Já það er rétt að konur eiga lagalegan rétt á að láta drepa fóstur. Það er hinsvegar ekkert lögmál að hið löglega og siðlega fari saman.
Og já, konur hafa margar ástæður til að vilja losa sig við fóstur. Sú algengasta er að það er óhentugt að eiga börn í samfélagi sem elur á barnfyrirlitningu. Fólk hefur líka margar ástæður til að vilja gefa einhverjum á kjaftinn en það er nú samt ekki löglegt.
Og jú, fóstur eru víst tætt í sundur, líka samkvæmt heimildum þeirra sem leggja blessun sína yfir þessar viðbjóðslegu aðgerðir:
‘This first trimester abortion involves three main steps: (1) an injection to numb the cervix, (2) insertion of a soft flexible tube through the cervix into the uterus, (3) suction created by an aspirating machine or a hand-held mechanism to remove the pregnancy from the uterus.’
http://www.fwhc.org/abortion/ab-procedures.htm
Posted by: Eva | 7.09.2010 | 17:51:22