Morgunkaffi

Suður Jótar fara ekki út í búð, þeir fara ‘ned til köbmanden’.

Þegar ég rölti til kaupmannsins, eltir Norna mig. Hún bíður fyrir utan á meðan ég versla. Mér finnst það dálítið gaman því hún sýnir þess ekki önnur merki að vera háð mér, sækist ekki eftir gælum í viðlíka mæli og flestir aðrir kettir og kúrir sjaldan hjá mér nema hún haldi að ég sé sofandi.

Í morgun þegar við fórum út, mættum við nágrönnum okkar, manni á að giska 38-40 ára og labradorhundinum hans. Norna gerir sér það gjarnan til skemmtunar að rölta rólega fram hjá húsinu, hæfilega nálægt hundinum til þess að gera hann snarvitlausan. Þegar hundurinn er búinn að rykkja nokkrum sinnum svo harkalega í bandið sitt að maður undrast að hann skuli ekki hreinlega hengjast, sest hún niður ca 5 metrum frá honum og sleikir letilega á sér loppurnar. Ég get svarið það ég hef heyrt hana hlæja. Stundum hættir hún sér aðeins nær honum, áreiðanlega til að næra sína eigin spennufíkn, kemur svo hlaupandi heim með rófuna eins og kúst af æsingi.

Norna sá hundinn fyrst og hefur líklega áttað sig á því að hann ætti meiri möguleika á að ná í hana heldur en þegar hann er bundinn við húsið heima hjá sér. Hún setti upp kryppu og hvæsti en hundurinn rykkti í tauminn og stökk af stað geltandi. Eigandinn hélt fast í tauminn og skammaði hann, Norna var komin upp í tré og hundurinn settist sneyptur niður.

Hundamaðurinn heitir Mikel. Þar sem við vorum bæði á leið til kaupmannsins fylgdumst við að og það varð úr að hann bauð mér í morgunkaffi og rúnstykki. Hann er verkfræðingur frá Kaupmannahöfn, vinnur og býr þar en af því að hann á 2 dætur á unglingsaldri sem búa hjá mömmu sinni í Sönderborg, kemur hann mikið hingað og er þá hjá systur sinni og mági. Það eru þau sem eiga hundinn. Hann er að leita að vinnu í Sönderborg því hann vill vera nálægt stelpunum sínum en það er víst ekki um auðugan garð að gresja.

Ég hef ekki hugsað út í það fyrr en þetta er í fyrsta sinn sem ég heimsæki Dana, svona ein og á eigin vegum. Ég hef heimsótt Íslendinga sem búa hér og ég hef komið til vinafólks Hullu og Eika og ég mætti í sameiginlega morgunkaffið með öllum í götunni daginn sem við skreyttum jólatréð. Hér bjóða allir góðan dag og margir spjalla dálítið um veðrið eða gróðurinn en flestir í nágenninu eru eldri borgarar og ég hafði eiginlega ekki áttað mig á því fyrr að á þessu ári hef ég ekki hitt eina sálu sem ég á nógu margt sameiginlegt með til að sé nokkur grundvöllur fyrir vináttu.

Mér hefur ekkert leiðst oftar eða meira en á Íslandi en það getur ekki verið holt að umgangast engan utan fjölskyldunnar.