Múslímaplágan

Múslímar eru að yfirtaka heiminn. „Í alvöru, þetta fjölgar sér eins og kanínur“ Eins og fram kemur í þessu myndbandi, má reikna með að fólk, upprunnið í löndum þar sem meirihlutinn játar islam, og afkomendur þeirra, nái meirihluta á nokkrum áratugum. 

Eða ekki. Þetta er ómerkilegt áróðursmyndband. Sannleikurinn er sá að múslímakonur eignast að jafnaði 3,1 börn á heimsvísu. Í Evrópu er barnafjöldi á múslímakonu 2,2.

En gefum okkur nú bara að þeir verði í meirihluta og hvað með það? Algengustu rökin fyrir því að þessi þróun sé hættuleg eru þau að múslímar séu svo afskaplega grimmt og frumstætt fólk. Æðsta hugsjón þeirra sé að fremja sem flest hryðjuverk og sú næstæðsta að útrýma skopmyndateiknurum. Svo láta þeir líka konurnar sínar ganga í búrkum og nauðga þeim og grýta þær svo til bana. Nú eða þeir flytja til Vesturlanda og halda áfram að lemja konurnar sínar þar og konurnar neita að læra tungumálið og lemja börnin sín með inniskóm.

Fokk já. Það er margt í menningu múslíma sem er verulega ógeðfellt. Kvennakúgun er staðreynd í flestum ríkjum múslíma og það þykir ekki bara sjálfsagt heldur nauðsynlegt að berja börn. Og það mun ekkert breytast.

Eða hvað? Mun það kannski breytast? Getur kannski verið að til séu Íslendingar sem muna þá tíð þegar þótti bara í góðu lagi að flengja börn? Getur jafnvel verið að það hafi aðeins þurft dálitla upplýsingu til að fá eina kynslóð til að líta á líkamlegar hirtingar sem neyðarúrræði fremur en uppeldisaðferð og þá næstu til að líta á þær sem merki um að eitthvað væri að foreldrunum fremur en börnunum?

Englendingar bönnuðu ekki líkamlegar refsingar í ríkisskólum fyrr en 1987 og þær tíðkuðust í einkaskólum fram til 1999. Samt þekki ég engan sem er haldinn ótta við Breta vegna grimmdar þeirra.

Stjórn Bandaríkjanna er ekki alsaklaus af pyndingum á föngum. Líkamlegar refsingar í skólum eru enn í dag löglegar í 19 af ríkum Bandaríkjanna. og almenningur í Bandaríkjunum er mun umburðarlyndari gagnvart foreldrum sem beita líkamlegum refsingum en Norðurlandabúar. Samt þekki ég engan sem óttast Bandaríkjamenn. Ég þekki fólk sem óttast bandarísk stjórnvöld, vissulega, enda ástæða til að óttast heimsvaldastefnu hvort sem það eru Bandaríkjamenn, múslímar eða einhverjir aðrir sem reka hana. Ótti við bandaríska menningu eða nábýli við fólk sem þar er upprunnið er aftur á móti ekki algengur.

Múslímar eru ekkert öðruvísi innréttaðir en Bretar, Bandaríkjamenn eða Íslendingar. Umburðarlyndi gagnvart ofbeldi er meira meðal múslíma en Vesturlandabúa — ennþá, en það er ekkert sem bendir til þess að þeirra viðhorf muni þróast á annan hátt en okkar. Það er nefnilega goðsögn að ofbeldi sé að aukast í heiminum. Þvert á móti dregur stöðugt úr því.

Trúarbrögð múslíma eru full af misrétti og ofbeldi. Rétt eins og trúarbrögð kristinna manna. En sem betur fer eru flestir kristnir menn ákaflega illa kristnir og nota trúna fremur sem haldreipi í sálarangist og umgjörð utan um hátíðir en sem siðferðilegan leiðarvísi. Það sama á við um múslíma. Þeir múslímar sem ég þekki sniðganga svínakjöt og halda hátíðir samkvæmt Kóraninum en þegar kemur að siðferðilegum efnum, mótast skoðanir þeirra af heilbrigðri skynsemi, uppeldi og menningu. Neinei, auðvitað myndu þeir ekki viðurkenna að þeir séu illa trúaðir, ekki fremur en kristnir menn en svona er það nú samt. Ég þekki líbýska konu sem býr í Bretlandi. Hún prentar út greinar af netinu, fjölritar feminísk skilaboð og laumar þeim inn á staði þar sem múslímakonur koma saman. Hún staðhæfir að hún sé að gera það sem Gvuð ætlist til af henni, leiðrétta viðhorf sem séu of forneskjuleg og heimskuleg til að geta mögulega verið frá Gvuði komin. Hún fullyrðir að hún sé sannur múslími, rétt eins og þau þúsund karla og kvenna sem í nafni islam berjast gegn grýtingum og öðrum ódæðisverkum yfirvalda. Múslímar tileinka sér nefnilega siðferðisskoðanir eins og annað fólk; með hugsun sinni, út frá nýjum upplýsingum og út frá þeim viðhorfum sem ríkja í kringum þá. Ekki út frá mörg hundruð ára gömlum ritningargreinum, nema þar sem ritskoðun og önnur kúgun er yfirþyrmandi.

Það er tilgangslaust að reyna að berjast gegn fjölmenningu. Múslímar munu halda áfram að fjölga sér eins og kanínur á meðan þeir sjálfir sjá tilgang með því og ef þeir sjá tilgang í því að berjast gegn vestrænni menningu þá munu þeir gera það. Besta vörnin gegn ‘múslímaplágunni’ er því sú að hætta að líta á innflytjendur sem óvini. Bjóða innflytjendum til umræðunnar, hlusta á þeirra rök og útskýra okkar, í stað þess að reyna að stjórna klæðaburði þeirra. Halda áfram að reka áróður gegn hvers kyns kúgun. Hafna ofbeldi. Styrkja mannréttindi og ganga harðar fram í því að framfylgja þeim, hvar sem er í veröldinni. Framfylgja lögum gegn ofbeldi en láta fólk að öðru leyti í friði með sínar menningartiktúrur.

Við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því að menning okkar deyi út þótt múslímum fjölgi. Hún mun breytast hvort sem múslímum fjölgar eður ei. Ekki í þá veru að í stað heróínfíkla í netasokkum (þannig sá margir múslímar vestrænar konur fyrir sér), muni götur stórborganna skarta búrkuklæddum konum, lemjandi börn með inniskóm. Ekki heldur í þá veru að enska verði upprætt, svínakjöt bannað og ærumorð lögleidd. Þótt elsta kynslóð múslímakvenna læri kannski aldrei málið í nýja landinu, munu dætur þeirra læra það og margar þeirra munu aldrei klæðast búrku, nema til að mótmæla trúarbragða- og menningarofsóknum. Sumar munu ekki einu sinni bera höfuðslæðu.

Það sem við þurfum að óttast er ofríki yfirvalda, hvar sem er og hvort sem þau skilgreina sig til hægri eða vinstri. Við skulum óttast tilraunir þeirra til að banna búrkuna í stað þess að vantreysta getu búrkukvenna til að tileinka sér kvenfrelsissjónarmið. Við skulum óttast yfirvöld sem handtaka fólk sem segir ‘stríð er glæpur’ en ekki vantreysta arabiskum unglingum til að tileinka sér hugmyndir um tjáningarfrelsi, jafnvel þótt feður þeirra skeggræði sjálfsmorðsárás á Jyllandposten í kaffihlénu. Þróunin er í rétta átt. Umburðarlyndi gagnvart ofbeldi minnkar stöðugt og við færumst æ nær því að ná jafnrétti kynjanna. Okkur finnst ganga hægt á meðan við stöndum í baráttunni og horfum á fólk sem okkur er annt um verða fyrir kúgun og óréttlæti. Þegar við hinsvegar horfum nokkra áratugi aftur í tímann sjáum við að viðhorfsbreytingar eiga sér stað, ekki bara hjá einstaklingum heldur samfélaginu öllu, ekki hægt og bítandi heldur hratt og örugglega. Best gæti ég trúað því að fjölmenning flýti fyrir því ferli.

One thought on “Múslímaplágan

  1.  ———————-
    Ummæli
    Þessi grein er með þeim betri sem ég hef lesið lengi.

    Posted by: Ása | 15.02.2011 | 19:41:30

     ———————-

    Þessi pistill var síðar endurbirtur hér og spunnust umræður í framhaldinu http://blog.pressan.is/evahauks/2013/01/22/muslimaplagan/

Lokað er á athugasemdir.