-Ég man sjaldan drauma en mig dreymdi mús í nótt, sagði hann. Ég fékk snöggan sting í hjartað, slíkur draumur hlaut að hafa merkingu en hún gat verið tvíræð.
-Varstu hræddur við hana? spurði ég.
-Nei, alls ekki. Hún var lítil og sæt og kúrði í hreiðri, sagði hann.
-Hann dreymdi mig. Ég er mús. Lítil og harðgerð og lifi allt af, sagði Evan í mér.
-Já ef okkur hefði dreymt hana kannski, en hann þekkir okkur ekki neitt. Ef músin táknaði okkur hefði hann orðið smeykur. svaraði Birtan.
-Kannski er hann bara óvenju hugrakkur.
-Eva, það væri beinlínis heimskulegt af manni sem þekkir okkur ekkert, en veit þó það sem hann veit, að vera ekki allavega ponkulítið smeykur. Hann heldur bara að hann sé búinn að finna litla, sæta mús með svört augu og titrandi trýni. Meðfærilega og hrædda litla mús, sem hann getur haft í vasanum.
-Ég held ekki að hann sé að leita að gufu. Ég á nú alveg mínar krúttlegu hliðar og hef ég ekki einmitt lýst sjálfri mér sem hagamús eða lítilli fjallajurt?
-Jú en hann veit það ekki. Hann er að leita að mýslupíslu með rauða slaufu í skottinu. Hann heldur að hann geti sagt mússímúsí og skemmt sér við að mata okkur á osti og þá verði allt fullkomið.
-Mér er alveg sama. Við erum hér, núna.
-Heldurðu að það merki eitthvað sérstakt, að dreyma mús? spurði hann.
-Nei, laug ég. Ekki fyrst hún fyllti þig engum óhug.