Allt í lagi

Í fyrradag reiknaði ég fastlega með að vera orðin geðdeildarmatur um helgina. Í dag er allt í lagi. Samt er ég ekkert „hætt þessari vitleysu“ og búin að finna mér fallegan fávita til að sódómast með. Það er alveg með ólíkindum hvað manni gengur miklu betur að glíma við geðbólgur ef maður á kærasta sem hegðar sér ekki eins og fáviti.

-Ég skil alveg hversvegna margar aðrar konur myndu falla fyrir honum en hvað í ósköpunum sérð ÞÚ eiginlega við hann? spyr unglingurinn forviða.

Hvað sé ég eiginlega við hann? Hmmm… hvar á ég að byrja?
Hann hefur samband við mig áður en ég er farin að bíða eftir því.
Hann hringir þótt hann eigi ekkert erindi annað en að heyra í mér röddina.
Hann heldur ekki að ég sé í fýlu þótt ég geti ekki haldið uppi löngum samræðum í síma.
Hann er ekki afbrýðisamur út í vinnuna mína eða bloggið mitt.
Hann lítur ekki á pólitískar skoðanir mínar sem vandamál.
Þegar ég hef frumkvæði að því að hittast verður hann glaður en heldur ekki að það merki að ég sé haldin krónískum aðskilnaðarkvíða.
Hann notar ástúðlegt orðfar af einlægni sem á ekkert skylt við fagurgala.
Hann kyssir eins og hann meini eitthvað með því.
Hann faðmar mig þegar við hittumst.
Hann vaknar á morgnana þótt hann sé í fríi.
Þar sem ég kæri mig ekki um keppinauta ætla ég ekki að fara út neinar smáatriðalýsingar á því sem fer fram á skeiðvellinum en allt er í heiminum táknrænt og það er engin tilviljun að hann er flugmaður.

Já ég veit það. Ég þarf að læra fallhlífarstökk.

 

One thought on “Allt í lagi

  1. ————————————————

    get nú ekki annað en samglaðst…skítt með geðbógur annað veifið ef maður hefur aðgang að svona fínum partner.

    Posted by: baun | 26.10.2007 | 15:00:53

    ————————————————

    geðbólgur átti þetta að vera.

    Posted by: baun | 26.10.2007 | 15:02:07

    ————————————————

    Halda í þetta eintak. Jámm.

    Posted by: hildigunnur | 26.10.2007 | 16:24:48

    ————————————————

    Hljómar vel! Greinilega alvöru maður.

    Posted by: Sigga | 26.10.2007 | 18:41:05

    ————————————————

    Til hamingju með þennan.

    Posted by: Kristín | 28.10.2007 | 12:14:26

    ————————————————

    Þetta hljómar vel. Berðu þá bara saman við pabba þinn og þá mun þér vel farnast.
    Kær kveðja frá pabbakonu.

    Posted by: Ragna | 29.10.2007 | 11:06:58

    ————————————————

    Hmmm… það hljómar kannski perverskt en þeir eiga reyndar ýmislegt gott sameiginlegt.

    Posted by: Eva | 29.10.2007 | 12:44:33

    ————————————————

    “Hann vaknar á morgnana þótt hann sé í fríi.”

    Ég sé ekki hvað er svona gott við það, en allt annað hljómar vel. Til hamingju elsku Eva mín! Innilega til hamingju!!

    Posted by: Þorkell | 30.10.2007 | 6:25:38

    ————————————————

    Hmmm… Viðkvæmra sálna vegna ætla ég ekki að lýsa því í smáatriðum hvernig ég vil helst eyða frímorgnum en það er alveg á hreinu að til þess að þær óskir rætist þarf karlmaður að vera til staðar og hann þarf að vera vakandi.

    Posted by: Eva | 30.10.2007 | 9:16:15

Lokað er á athugasemdir.