Mótmælin við Landspítalann

Jafnvel þótt Landspítalinn hefði vald til þess að banna bænahald á lóðinni er þetta arfavond hugmynd. Á að banna allt bænahald eða á stjórn Landspítalans að taka geðþóttaákvörðun um það hvaða óskir til almættisins menn megi bera fram á lóð og í húsakynnum spítalans?

Ég efast um að Landspítalinn hafi nokkurt vald til þess að banna þetta en skulum bara ganga út frá því að þeir geti það og að tekin verði upp reglan „bannað er að biðja fyrir sálum látinna fóstra á yfirráðasvæði Landspítalans“. Sú regla nær þá einnig til fyrirbæna fyrir þeim fóstrum sem konur missa án þess að kæra sig um það – og syrgja mjög. Annað væri brot gegn jafnræðisreglu. Kannski við eigum eftir að sjá málaferli fólks sem er meinað að biðja fyrir látnu barni sínu.

Sumir halda því fram að það sé rangt að tala um bænahald sem mótmæli. Ég er því ósammála. Það er ekkert fáránlegra að kalla bænahald í mótmælaskyni bænahald en að kalla ljóðalestur í mótmælaskyni ljóðalestur. En við skulum átta okkur á því að ef bænahald gegn fóstureyðingum verður bannað á lóð Lansans, þá er rökrétt að banna allt bænahald í nágrenni spítalans. Það er engin leið að ætla að mismuna fólki eftir bænarefni á meðan það er ekki á nokkurn hátt truflandi.

https://www.facebook.com/eva.hauksdottir.norn.is/posts/10152597271167963:0