Hrímland eftir Alexander Dan Vilhjálmsson er undarleg saga; hápólitísk fantasía sem gerist á óræðum tíma í Reykjavík í aðdraganda uppreisnar. Nafn sögunnar er vísun í Crymogæu eftir Arngrím Jónsson lærða. Því riti var ætlað að leiðrétta hugmyndir útlendinga um Ísland en saga Alexanders er til þess fallin að leiðrétta hugmyndir Íslendinga um eigið samfélag.
Aðalpersónur sögunnar eru Garún; pólitískur listamaður sem alla sína ævi hefur liðið fyrir kynþáttaandúð samfélagsins, og Sæmundur óði; upprennandi fræðimaður sem á litla samleið með því staðnaða og fordómafulla háskólasamfélagi sem hann lifir í. Sagan segir frá baráttu þeirra gegn Samveldinu, sem með seiðmagnsvirkjun sinni í Öskjuhlíðinni, vopnavaldi og stöðugu eftirliti með almennum borgurum, stefnir að því að svipta íbúa Hrímlands allri sjálfstæðri hugsun. Bæði notfæra þau sér galdur til þess að ná markmiðum sínum, bæði persónulegum og pólitískum, hvort á sinn hátt. Bæði standa þau frammi fyrir því að þær aðferðir, sem þau geta nýtt sér til að halda sjálfstæði sínu gagnvart kúgandi yfirvaldi, geta hæglega snúist í höndum þeirra.
Höfundur notar sögulega atburði til að varpa ljósi á pólitísk deilumál nútímans, fléttar saman þjóðsagnaminni og jaðarmenningu okkar tíma og leikur sér að samspili trúar og vísinda, galdurs og listar.
Sagan er snörp ádeila á heimsvaldastefnu, eftirlitssamfélag, yfirvaldshyggju, auðlindarán, kynþáttafordóma, trúarkreddur, og vísindasamfélag sem er fullkomlega laust við sjálfsgagnrýni. Frumleg samfélagsádeila og kærkomin nýbreytni fyrir aðdáendur fantasíubókmennta og ævintýra.
Hér er sýnishorn úr bókinni: Mikill fjöldi hafði safnast saman á Austurvelli og þrýstist upp að varnarveggnum sem lögreglan myndaði umhverfis Lögréttu. Garún fékk í magann þegar henni sýndist sem hermenn Krúnunnar væru þar í hóp, en þegar hún kom nær sá hún að þetta voru venjulegir borgarar með hermannahjálma á höfði og armbindi í einkennislitum konunglega samveldisins. Stöku sinnum var einhver sem þótti of æstur dreginn í gegn og látinn hverfa. Aftan við línuna stóðu lögreglumenn, viðbúnir með skorbyssur. Garún fann adrenalínið streyma þegar þau blönduðust saman við mótmælendaskarann. Það var alsæla í loftinu, bjartsýni og vissa um nýja og betri tíma. Krúnan burt! Krúnan burt! Garún missti fljótt sjónar á félögum sínum. Flest höfðu þau rutt sér leið áfram, með skilti í hönd eða eitthvað sem hægt var að grýta. Hróp þeirra skóku allan Austurvöll, hnefar þeirra krepptir á loft í takt við öskrin. Garún kallaði, öskraði, fagnaði, og þegar hún leit til baka nokkru síðar sá hún að mótmælendurnir fylltu allan Austurvöllinn. Skilti höfðu sprottið fram eins og rauð útbrot. Lögréttuhúsið starði mót skrílnum, óhagganlegt í grárri þögn sinni. Langt fyrir ofan Austurvöll sveimuðu tvíþekjur. Grjóti, mold, fúleggjum og málningarblöðrum var látið rigna yfir Lögréttuhúsið og lögregluna. Rúður brotnuðu og húsið litaðist skærlitri málningu og drullu. Uppi á þakbrúnum umhverfis Austurvöll sátu náskárar og krunkuðu með mótmælendum á sínu eigin tungumáli. Þeir ýfðu fjaðrir sínar að hópi lögreglumanna niðri á götunni sem beindu vopnum sínum upp að náskárunum, tilbúnir að hleypa af. Hrímland úr Kalmar, Krúnan burt! Hrímland úr Kalmar, Krúnan burt! Hún vissi ekki hversu lengi hún hafði staðið þarna, rödd hennar rám af baráttuópum, þegar hún sló Sæmund næstum því í andlitið með steyttum hnefanum. „Sæmundur! Fyrirgefðu, ég sá þig ekki!“ „Ég er svo feginn að ég fann þig!“ kallaði hann yfir lætin. „Fyrirgefðu hvað ég var ömurlegur í morgun.“ Garún fann hvernig henni hitnaði í framan. Hún tyllti sér á tær og dró andlit Sæmundar til sín. Þau kysstust, hægt og innilega, og hún fann eitthvað á milli þeirra á ný. Fólksfjöldinn ýtti við þeim og reyndi að stía þeim í sundur. Köllin voru æstari, grófari, reiðari. Átökin voru orðin harðskeyttari við víglínuna. Frjálst Hrímland! Frjálst Hrímland! Krúnan burt! Krúnan burt! Hrímland úr Kalmar, Krúnan burt! Þau gripu um hvort annað, hrædd um að týnast í mannhafinu. Kylfurnar risu og féllu. Grjóti rigndi yfir lögregluna og sprenging kom frá vesturenda Austurvallar. Reykur steig upp. Í kjölfarið dundi yfir skothrina frá skorbyssunum. Nokkrir náskárar féllu niður af þökum. Hinir flugu samstundis burt. Hún sá fólk ryðjast fram að Lögréttuhúsinu með hnífa og barefli á lofti. Lágt suð sem hafði varla heyrst áður hækkaði og hækkaði. Úr austri kom vaxandi skuggi á himni. Reykháfar blésu þykkum gufustrókum í kjölfar ferlíkisins. Sólin glampaði á svera járnveggi. Fallbyssur stóðu óreglulega út frá virkinu, sumar svo stórar að þær virtust geta rúmað bifreið. Þyrlar og hreyflar í tugatali snerust og stýrðu leið virkisins. Tvíþekjur sveimuðu um virkið. Loftkastalinn. Feit og silaleg ófreskja úr járni og reyk. Loftkastalinn færðist nær og nær þar til hann sveif beint yfir Austurvelli. Drunurnar í hreyflunum yfirgnæfðu allt. Málmkennd rödd barst frá hátölurum og gjallarhornum: „Þetta eru ólögleg mótmæli! Yfirgefið völlinn samstundis!“