Með dúndrandi hjartslátt í fyrsta prófinu, eftir 30 ára hlé frá námi

Sigríður Guðný Björgvinsdóttir lauk námi í landfræði 2012 og starfar nú við fornleifaskráningu hjá Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Í viðtali við Kvennablaðið segir Sigríður frá starfi sínu og þeirri ákvörðun sinni að afla sér háskólamenntunar eftir nær þriggja áratuga hlé frá námi. 

 

Þú ert landfræðingur Sigríður – hvað er það eiginlega?

Það er von að þú spyrjir því margir vita ekki muninn á landfræði og landafræði og sjá fyrir sér eitthvað svipað þeirri landafræði sem við lærðum í grunnskóla. Landfræði fjallar ekki um mörk landa og nöfn höfuðborga heldur um samspil manns og náttúru. Hún skiptist í náttúrulandfræði og mannvistarlandfræði og skarast við ýmsar aðrar greinar, t.d. er mitt starf nátengt fornleifafræði og jarðfræði.

Ég útskrifaðist út náttúrulandfræði með jarðfræði sem aukagrein 2012. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á jarðfræði og þegar ég var barn ætlaði ég að verða jarðfræðingur. Ég lét samt ekki verða af því að fara í háskólanám fyrr en 2007, eftir nærri 30 ára fjarveru frá námi.

 

Hleðsla við Þorgeirsstaðaklif í Lóni

 

Þetta er langt hlé frá námi, var þetta skyndiákvörðun eða ætlaðirðu alltaf að fara í nám?

[quote align=“left“ color=“#999999″]Í hvert sinn sem hugsunin um framhaldsnám kom upp fann ég að mig skorti sjálfstraust til þess og í raun hafði vantrú á sjálfri mér alltaf staðið mér fyrir þrifum.[/quote]
Ég var alltaf ákveðin í að fara í framhaldsnám eftir stúdentsprófið. Ég ákvað að taka eins árs námsfrí eftir menntaskólann en plönin ganga ekki alltaf upp eins og margir kannast við. Ég var farin að búa og að árinu liðnu var barn á leiðinni og sú ákvörðun var tekin að bíða með frekara nám. Árin liðu og þetta eina ár varð að 10 árum, síðan 20. Í hvert sinn sem hugsunin um framhaldsnám kom upp fann ég að mig skorti sjálfstraust til þess og í raun hafði vantrú á sjálfri mér alltaf staðið mér fyrir þrifum. Þegar ég var unglingur hafði ég mestan áhuga á jarðfræði og lyfjafræði. Ég ætlaði í lyfjafræði þegar ég hóf nám í framhaldsskóla en mér þótti eðlisfræðin og stærðfræðin erfið og beit það í mig að ég réði ekki við þessar greinar og skipti um braut. Ég útskrifaðist af uppeldisfræðibraut þótt ég hefði miklu meiri áhuga á náttúrfræði en uppeldisgreinum.

Ég hugsaði alltaf um þetta af og til og þegar þáverandi maðurinn minn fór í háskólanám eftir langt hlé og komst í gegnum það með fullri vinnu, þá fór ég að öðlast trú á því að ég gæti þetta líka. Ég var orðin 49 ára, tilbúin að breyta um starfsvettvang og engin barnabörn komin svo ég hugsaði með mér að þetta væri rétti tíminn. Ég var hikandi og óörugg þegar ég skráði mig í Háskólann og sagði engum frá því fyrr en eftir á.

Þegar ég sagði frá því kom í ljós að þótt ég væri óþreytandi við að tala sjálfa mig niður höfðu allir aðrir fulla trú á mér. Fólk talaði um þessa ákvörðun sem dugnað og hugrekki en ég fann ekki fyrir neinu hugrekki. Fyrstu vikurnar í skólanum var ég svo taugaóstyrk að ég var að því komin að hætta. Ég stóð þarna innan um tvítug ungmenni, nýútskrifað úr menntaskóla og fannst ég allt of gömul. Ég hugsaði Hvað er ég búin að koma mér út í? Reyndar var fólk á öllum aldri í náminu en ég var aldursforsetinn í bekknum og fannst ég ekki eiga heima þarna. Fyrstu þrjár vikurnar þurfti ég að telja kjark í sjálfa mig á hverjum degi til þess að halda áfram.

 

Sigríður Guðný við sýnatöku undan hleðslum við Þorgeirsstaðaklif í Lóni

 

Var það aðallega þessi félagslega aðstaða sem var erfið eða var líka erfitt að byrja að læra aftur?

Það var þessi aðstaða að vera svona fullorðin sem mér leið illa yfir. Börnin mín voru líka í háskólanámi á þessum tíma og mér fannst eitthvað skrítið við að vera í sömu aðstöðu og þau. Reyndar var öll fjölskyldan í háskólanámi á sama tíma. Ég hefði eiginlega átt að sækja um fjölskylduafslátt af skráningargjöldunum.

[quote align=“right“ color=“#999999″]Ég sat þarna með dúndrandi hjartslátt og fyrstu 5 mínúturnar fóru í það að róa mig niður og tala sjálfa mig til, bara til þess að geta byrjað.[/quote]
Mér fannst námið hinsvegar alveg ofboðslega skemmtilegt og þegar ég var enn á lífi eftir þrjár vikur ákvað ég að taka prófin og sjá svo til. Ég gerði mér samt ekki grein fyrir því hvar ég stæði og ég var svo taugaóstyrk í fyrsta prófinu að ég gat ekki einu sinni flett prófbókinni. Ég sat þarna með dúndrandi hjartslátt og fyrstu 5 mínúturnar fóru í það að róa mig niður og tala sjálfa mig til, bara til þess að geta byrjað. Þegar ég jafnaði mig þá gekk þetta bara vonum framar en ég var samt svo óörugg að þegar fyrsta einkunnin kom þorði ég ekki að skoða hana og bað dóttur mína að kanna málið. Það reyndust samt alveg óþarfa áhyggjur því ég fékk fínar einkunnir og þegar ég sá það svart á hvítu að ég átti fullt erindi í þetta nám þá varð ekkert aftur snúið.

Sjálfstraustið kom smám saman og þegar það versta var afstaðið var ég hreinlega eins og svampur, drakk í mig allt það námsefni sem ég komst yfir. Það hefur líka aukið sjálfstraust mitt á öðrum sviðum að hafa látið þennan draum rætast.

 

Var það bara af áhuga sem þú fórst í nám eða varstu með eitthvert ákveðið starf í huga?

Maður fer í nám á aðeins öðrum forsendum svona fullorðinn en þegar maður er um tvítugt. Ég hugsaði þetta fyrst og fremst fyrir mig til að vera sátt við sjálfa mig og læra það sem ég hafði áhuga á. Ég var ekkert sérstaklega að hugsa um vinnu og það var reyndar ekki fyrr en 2015 þegar ég flutti austur á Höfn i Hornafirði sem ég byrjaði að vinna sem landfræðingur.

 

Og hvernig gengur venjulegur vinnudagur fyrir sig hjá landfræðingi, ertu að grafa sundur tún til að leita að gömlum beinagrindum eða er þetta skrifstofuvinna?

Ég myndi kalla til fornleifafræðinga ef ég fyndi bein, það er ekkert útilokað að það gerist en ég hef ekki rekist á neitt slíkt ennþá. Mitt verksvið er að skrá og kortleggja minjastaði í sveitarfélaginu. Það er dálítið misjafnt eftir árstíðum og veðurfari hvað ég er að fást við hverju sinni. Vinnan er þríþætt, fyrst er heimildavinna – þar sem þarf að afla upplýsinga um þann stað sem á að skrá, venjulega jörð eða jarðarhluta. Ýmsar ritaðar heimildir geta varpað ljósi á mannvistarleifar, t.d. byggðasaga, jarðatöl, örnefnaskrá o.fl. Túnakort sem voru gerð um 1920 eru til að mynda dýrmætar heimildir í dag þótt þau séu ekki endilega nákvæm. Mikilvægustu heimildarnar eru þó munnlegar upplýsingar, sérstaklega frá eldra fólki á svæðinu. Maður sér t.d. tóftir sem eru orðnar svo vallargrónar að það er erfitt að greina lögunina og þess vegna illmögulegt að sjá hvaða hlutverki þær hafa gegnt en þá geta heimamenn oft upplýst mann að þar hafi verið fjárétt eða einhver önnur mannvirki.

Næsta stig er vettvangskönnun og öflun gagna. Þá fer maður á staðinn og leitar að þekktum minjum á jörð. Stundum koma einnig í ljós minjar sem ekki var vitað um áður. Ég mæli tóftirnar upp nákvæmlega með gps tækjum og þótt til séu heimildir fyrir því að hér hafi verið mannvirki eða annað áhugavert, sem er ekki sýnilegt, er GPS-punktur tekinn. Þannig er hægt að skrá nokkurnveginn staðsetningu minja svo hún sé kunn. Þetta er svo fært yfir á loftmynd í landupplýsingakerfi. Ég tek líka mikið af ljósmyndum af öllum minjastöðum sem skráðir eru.

Þriðja stigið er svo úrvinnsla, skýrslugerð og afhending gagna til sveitarfélagsins og Minjastofnunar.

 

 

Hvað er það áhugaverðasta við starfið?

Það sem mér finnst áhugaverðast við starfið er bæði það að kynnast sögunni og að miðla henni til komandi kynslóða þannig að bæði heimildavinnan og úrvinnslan gera þetta starf  áhugavert. Vettvangsrannsóknin er svo aftur það sem mér finnst vera skemmtilegasti þátturinn. Ég reyni að nota góðvirðrisdaga sem mest til vettvangsathugana, þetta er ekki líkamleg erfiðisvinna en maður þarf að ganga mikið og það hentar mér ágætlega að reyna aðeins á mig. Ég hef mikla ánægju af útivist og náttúruskoðun og mér finnst frábært að geta sameinað vinnu og áhugamál.

Annar kostur við þetta starf er hvað maður kynnist mörgu fólki. Ég hef komið á mörg bæjarhlöð sem ég hefði annars ekki átt neitt erindi á og er málkunnug fjölda manns þótt ég hafi ekki búið hér nema þrjú ár.

Svo er Hornafjörðurinn mjög áhugavert svæði fyrir þá sem hafa áhuga á jarðfræði. Við erum komin út úr þessu virka gosbelti og í rofnasta hluta landsins svo hér er hægt að skoða jarðfræðileg fyrirbæri sem ekki eru sýnileg annarsstaðar. Hér eru berglög sem eru allt að 6 milljón ára gömul. Undanfarin ár hefur mikil umræða farið fram um loftlagsbreytingar, hér erum við í nágrenni við jökla sem eru eins og lifandi námsefni fyrir fólk sem vill fræðast um áhrif loftlagsbreytinga. Mér þykir það mikil forréttindi að geta unnið á jafn stórkostlegu svæði og í Hornafirði og nágrenni.

 

 

Er eitthvað sérstaklega leiðinlegt við þetta starf?

Ekki leiðinlegt í þeirri merkingu að maður nenni því ekki en ég finn oft til með landeigendum þegar verða hagsmunaárekstrar milli eignarréttarins og þeirrar stefnu að samkvæmt lögum um menningarminjar verður fornleifaskráning að eiga sér stað í tengslum við skipulagsvinnu. Þessi togstreita getur verið óþægileg.

[quote align=“left“ color=“#999999″]Þótt flestir sýni því skilning að það þurfi að taka út landsvæði með tilliti til fornminja áður en framkvæmdaleyfi er gefið út eru þeir skiljanlega ósáttir við að sitja uppi með kostnað af framkvæmdum sem þeir hafa ekkert um að segja.[/quote]
Allar minjar sem eru orðnar 100 ára eru friðaðar svo það má ekki hrófla við þeim nema með leyfi Minjastofnunar. Þetta takmarkar heimildir landeigenda til framkvæmda og fólk er misánægt með það. Heimamenn þurfa að sætta sig við óhagræði, tafir og umferð ókunnugra um land sitt vegna minja sem er ekkert víst að þeir hafi neinn áhuga á sjálfir. Ef eitthvað finnst, eftir að framkvæmdir hefjast, á að láta Minjastofnun vita og ef ítarleg rannsókn þarf að eiga sér stað verður landeigandinn sjálfur að bera þann kostnað. Þótt flestir sýni því skilning að það þurfi að taka út landsvæði með tilliti til fornminja áður en framkvæmdaleyfi er gefið út eru þeir skiljanlega ósáttir við að sitja uppi með kostnað af framkvæmdum sem þeir hafa ekkert um að segja.

 

Ertu farin að hugsa um hvað þú gerir þegar búið er að skrá allar minjar í Hornafirði?

Nei, stefnan er að ljúka því fyrir 2030 svo ég reikna ekki með neinum afgerandi breytingum á næstunni en ég stefni á að koma á betra skipulagi. Síðustu árin hafa margir landeigendur verið að bíða eftir framkvæmdaleyfum og þau verkefni verða að hafa forgang svo vinnan hefur markast af því og ég hef stundum þurft að sinna skrifstofuvinnnu þegar hefði verið kjörið að fara út. Ég vonast til þess að geta bráðlega komið á þannig rútínu að ég geti notað haust og vetur til þess að sinna heimildavinnu og skýrslugerð og einbeitt mér að vettvangskönnunum á sumrin. Það er erfitt og stundum ómögulegt að gera vettvangsrannsókn á veturna þegar er snjór yfir öllu og síðsumars er gróðurþekjan sumsstaðar svo mikil að hún gerir aðstæður erfiðari.

 

Heldurðu að þú eigir eftir að fara í framhaldsnám?

Það er ekkert óhugsandi. Ég er reyndar búin með stóran hluta framhaldsnáms í jarðfræði en ég er mjög ánægð í vinnunni eins og er svo það er allavega ekki á dagskrá alveg á næstunni.

 

Tóft við  Ystasel í Laxárdal í Nesjum, Hornafirði

 

Myndirnar eru úr einkasafni Sigríðar Guðnýjar og Snævars Guðmundssonar