Mara

-Vantar ljós í líf þitt Eva mín?
-Nei en það vantar peninga í líf mitt.
-Peninga já? Og þú svarar þeirri þörf með því að fara að búa með hómópata og hráætu sem gefur fólki ljós. Væri ekki rökréttara að búa með vísindasinnaðri hræætu sem gefur fólki peninga?
-Ég hef búið með vísindasinnaðri hræætu en ég hafði ekki krónu upp úr því.

-Og hvað ef þetta gengur ekki upp?
-Nú þá bara gengur það ekki upp, ég er ekkert óvön því að hlutirnir gangi ekki upp.
-Ok, ég er bara að velta fyrir mér hvort þú hefðir hugsanlega getað fundið einhvern sem er ólíkari þér.
-Jú, ég fann einu sinni einn slíkan en ég er þegar búin að búa með honum.
-Jæja, það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessu.

Áhugavert já. Ég lagði tölvuna frá mér, lokaði augunum og reyndi að máta Braga Valdimar Skúlason inn í erótíska fantasíu. Það gekk ekki upp, því mér tókst ekki með nokkru móti að rifja upp hvernig hann lítur út maðurinn og hvað eftir annað þvældist úfin lopapeysa á ryðguðu reiðhjóli inn í drauminn.

Ég hlýt að hafa dottað því þótt ég væri ein, fann ég mjúku augun sveitastráksins strjúka á mér kviðinn. Hrökk upp þegar ég áttaði mig á að það voru ekki augu, heldur tvær döðlur. Sætar, mjúkar og loða við mann, eins og augnaráð ástfangins manns. En þær voru ekki augu, þær voru döðlur og auk þess voru þær frá Ísrael og töluðu við mig með rödd hráætunnar.
-Svona virkar smáskammtaerótík, sagði önnur daðlan.
-Drepur allar vitleysisfantasíur, sagði hin.
Ég potaði í döðlurnar sem hugsaði með mér að sennilega ætlaðist hráætan til þess að ég borðaði þær en einhvernveginn gat ég ekki hugsað mér það.

 

One thought on “Mara

  1. —————————–

    Indælt að hlusta á þig í útvarpinu. Leitt að heyra með framtíð Nornabúðarinnar, gaman að heyra í þér.

    Posted by: Kristín | 7.02.2009 | 8:05:34

    —————————–

    Ég missti af þessu viðtali en þetta er virkilega flottur texti í þessari færslu. Danke schön:)

    Posted by: GVV | 7.02.2009 | 21:53:04

    —————————–

    Gekk ekki að máta Braga í fantasíu? Furðulegt. Prófaðu Kalla!

    Posted by: Tinna G. Gígja | 9.02.2009 | 16:58:42

    —————————–

    Ég man ekki heldur hvernig hann lítur út 🙁

    Posted by: Eva | 9.02.2009 | 17:20:20

Lokað er á athugasemdir.