Máninn

Myndin er eftir Emily Balivet

Undir fullu tungli
dansa örlaganornir við Urðarbrunn.
Á daginn vinna þær vaðmál úr skýjum;
Urður spinnur bláa þræði og rauða.
Verðandi tvinnar þá saman.
Skuld slær vefinn og hlær.

Vinna á daginn
dansa á kvöldin,
slíkt er hlutskipti norna.

Engum veita þær aðgang að brunninum
nema kristöllum klingi
en fyrir ofan hann tindrar stjarnan
sem þú hefur fylgt frá ómunatíð.

Þú horfir á trylltan dans nornanna í tunglsljósinu.
Í gær stráði frostþokan hélusalti yfir skóginn
og eflaust er brunnurinn botnfrosinn hvort sem er
en stjarnan stendur í stað
svo líklega áttu erindi hingað.

Kastalinn stendur ennþá á hæðinni.
Ljós í efsta turnglugga
og úlfar varna óboðnum aðkomu.
Bláhrafn á sveimi.

Gerði þyrnirósa umkringir höllina
en á vetrarnótt blómgast engir runnar,
nema af blóði þínu
sem roðar hrímhvíta kvisti
þegar þú ryðst í gegnum rósavirkið.

Á fullu tungli eru úlfar fjarhuga.
Ýlfra mót mána
og hirða lítt um að gæta dyngju drottningar sinnar.
Í nótt eigra þeir um skógana.
Engu að síður er langt frá því að þú sért óhultur
því lyktin af blóði þínu ærir þá.
Þú sérð þá nálgast
hvítar vígtennur í tunglsljósi,
ekki til að varna þér inngöngu
heldur er ætlun þeirra að rífa þig á hol.

Myrkvast þá máni
blóðrauðri dulu er hann dreginn
utan fíngerð sigð.
Merki Sláttumannsins á himni.
Og úlfarnir ærast og hlaupa til skógar
froðan vellur hvít úr kjöftum þeirra.

Þú hraðar þér að höllinni
og eitt andartak heldurðu að þú hafir sigrast á öllum hindrunum
en sverð þitt bítur ekki á þéttofið net fyrir gluggum.
Aðaldyrnar standa opnar
en í forsalnum taka hundar á móti þér.
Með eldglampa í augum
og ógnandi urri
hrekja þeir þig niður í dyflissu kastalans.

Þú heyrir járngrindur skella að baki þér
framundan mjór gangur
engar lugtir á bláköldum veggjum hans.
Við enda hans er meyjardyngja,
hér sefur hún eflaust;
hvít
bak við svarblá sparlökin.
Þú bregður sverði þínu
og ristir á tjöldin,
þau eru ofin úr bláþráðum og rifna hljóðlaust.

Hún vaknar við koss á hönd,
stígur brosandi á fætur,
ægifögur
með tinnusvart hár sem liðast yfir bláhvít brjóstin.
Allt sem þú vilt geturðu fengið en borgaðu fyrst,
segir hún.
Hún leggur þig á frostkalda sængina
og flauelsþykkt hár hennar leggst yfir vit þín.

Þegar hún sveipar hulunni frá augum þér
og þú nærð andanum aftur,
krýpur hún klofvega yfir þér,
köld, hvít og nakin.
Í skauti hennar vex lítil, rauð kjötætuplanta
sem titrandi vörum
nartar í hörund þitt.

Þegar járngrindin rís að morgni
og þú yfirgefur dyngju hennar
kemstu ekki sömu leið til baka.
Þú reikar ganga og sali
og að lokum finnurðu aðra leið út.
Nú er dagbjart.
Engin stjarna lengur sjáanleg
og engar nornir dansa hjá Urðarbrunni.

Þú gengur að brunninum
en í honum leynist engin viska
aðeins fjöldi höggorma.
Frá brunninum rennur jökulfljót
og enn reika úlfar um skóga.
Við fljótið finnur þú hrörlegan árabát,
handan árinnar er auðnarland
en hér getur þú ekki dvalist lengur
svo þú ýtir frá landi
og gefur þig fljótinu á vald.