Ekki bara forréttindamellur sem vilja lögleiða vændi

sexwork8
Femínistum er tamt að afgreiða afhjúpun á rökleysum og rangfærslum femínista með því að ekki sé hægt að setja allan femínisma undir einn hatt því innan hans þrífist margar ólíkar stefnur. Staðreyndin er nú samt sú að þegar þeir sem skilgreina sig sem femínsta, án þess að vera sammála þeirri klámfóbíu og forræðishyggju sem einkennir meinstrímfemínisma á Vesturlöndum, taka til máls, beita handhafar sannleikans nákvæmlega sömu aðferðum og þeir segjast sjálfir sæta af hálfu feðraveldins; þar vega þyngst ýmisskonar þöggunaraðferðir.

Pro-sex femínistar hafa lítil áhrif haft á Íslandi ennþá og þegar þeir loksins fara að tjá sig skýra Knúzverjar það sem stuðning við feðraveldið. Skilaboðin eru þessi; ef þú ert ekki sammála okkur ertu ekki alvöru femínisti heldur í óvinaliðinu en auk þess hefurðu ekkert vit á þessu. Þetta er dæmigerð þöggunaraðferð.

Annað nýlegt dæmi er svargrein eins Knúzverjans við grein Þórdísar Sveinsdóttur Um verkalýðsbaráttu vændiskvenna og femínisma  en inntak hennar er réttur þess fólks sem starfar við kynlífsþjónustu til þess að fá að hafa einhver áhrif á mál sem varðar það sjálft.   Svargrein Elísabetar Ýrar Atladóttur ber heitið Forréttindavændi og femínismi og er dæmigerð þöggunargrein. Að vísu er búið að hrekja fullyrðingar um að ENGIN kona myndi velja sér starf í kynlífsiðnaði svo oft og rækilega, að það virkar ekki lengur að reyna að afneita því. Þess í stað reynir greinarhöfundur að skýra þá staðreynd að margar konur velja einmitt störf í kynlífsþjónustu með því að þær séu bara örfáar forréttindapíkur sem hafi enga samúð með vesalingunum sem hórubjörgunarhreyfingin ætlar að frelsa.

Þórdís hefur nú svarað Elísabetu. Ég gæti skrifað langa pistlaröð um kynlífsiðnaðinn í þriðja heiminum og aðstæður farandvændiskvenna en í bili ætla ég aðeins að bæta dálítilli athugasemd við svar Þórdísar.

Það er rangt sem Elísabet gefur í skyn að baráttan fyrir lögleiðingu vændis sé háð án þátttöku eða jafnvel í óþökk þess fólks sem ekki lifir glamúrlífi af störfum sínum í kynlífsiðnaði. Oftast velur fólk sér störf í kynlífsþjónustu af sömu ástæðum og fólk velur sér önnur störf; þeirri að fólk kemst ekki af án peninga. Sumar konur eiga ekki um margt annað að velja en telja þó skömminni skárra að stunda vændi og hafa lífsviðurværi en að vera upp á náð hjálparstofnana komnar.

SexWorkerOrganizingIndia

Staðreyndin er sú að allar tilraunir sem gerðar hafa verið til þess að uppræta vændi í þriðja heiminum hafa mistekist. Konum og stúlkum sem vinna við kynlífsþjónustu hefur verið boðið upp á ýmis námskeið sem eiga að bæta stöðu þeirra á vinnumarkaði og þeim hafa verið veittir styrkir til að kaupa saumavélar og önnur atvinnutæki. Það dugar þó skammt því tekjurnar sem þær hafa af þeim störfum duga fáum til framfærslu og um leið og þær eru hættar í kynlífsbransanum er skorið á allan fjárhagsstuðning. Afmellunarmeðferðin virkaði og þar með eru bjargvættirnar bara ánægðar með árangurinn. (Skoðið t.d. skýrslu sem hægt er að hlaða niður hér.)

Svipaða reynslu hafa farandvændiskonur sem félagsþjónustan og femínistar hafa hundelt og þvingað til að vitna gegn umboðsmönnum sínum (nei ég er ekki að segja að mellumömmur og hórmangarar séu endilega góðir pappírar.)  Farandvændiskonum er „bjargað“ út af súlustöðum og hóruhúsum, þótt þær kæri sig ekkert um þær björgunaraðgerðir. Oftast eru þær sendar til síns heimalands þar sem ekkert bíður þeirra nema samskonar vinna við miklu verri aðstæður og fyrir miklu lægri laun.  Stundum er þeim veitt dvalarleyfi og þeim boðin vinna á veitingastöðum eða elliheimilum. Flestar þeirra hafa farið til Vesturlanda í von um að geta sent peninga heim en með því að vinna láglaunastörf hafa þær varla nóg til að skrimta sjálfar.

sex_workers4-688x451

Það eru ekki melludólgar og nokkrar hvítar forréttindahórur sem halda uppi baráttunni fyrir lögleiðingu vændis. Hvítu forréttindahórurnar þurfa miklu síður á lögleiðingu að halda en fátæku konurnar sem auk þess að búa við margfalt verri fordæmingu samfélagsins hafa mun síður tækifæri til að velja sér vinnustaði eða umboðsmenn og hafa ekki efni á því að hafna kúnnum sem koma illa fram við þær.

Á meðan kapítalismi er til mun vændi þrífast og eina leiðin til þess að bæta aðstæður þeirra sem vinna í kynlífsbransanum er að lögleiða vændi, tryggja lagaleg réttindi þeirra sem vinna við það og vinna gegn fordómum. Nema hvítu, ófötluðu forréttindafemmurnar vilji taka að sér að uppræta kapítalisma (þegar þær eru ekki að skipuleggja smáborgaralegar ráðstefnur fyrir vel stæðar hvítar millistéttarfemmur.)  Nóg er til af heimildum um baráttu fátæklinga fyrir lögleiðingu vændis. Ég bendi í bili á samtök afrískra kynlífsþjóna, blogg mannfræðingsins Lauru Augustin og skýrslur frá samtökunum NSWP.