Lögreglan þarf að færa rök fyrir því hversvegna þessir vítisenglar sem voru boðnir í partý á Íslandi en meinað að mæta eru taldir „ógn við þjóðaröryggi og grundvallarreglu“. Eru þessir menn eftirlýstir? Hefur lögreglan rökstuddan grun um að þeir hafi í hyggju að stunda glæpastarfsemi hér á landi? Hvaðan kemur sú hugmynd að fólk sem kemur hingað á vegum samtaka til að taka þátt í skemmtun sé þar með að reyna að festa rætur hér?
Heyrst hefur margt ljótt um vítisengla. Ég efast ekkert um að meðlimir úr þessum samtökum hafa ofbeldisverk og önnur afbrot á samviskunni. Ég efast þó einnig um að nokkurntíma hafi verið gefin út opinber yfirlýsing um einbeittan brotavilja (án þess að ég vilji fullyrða það). Fram hefur komið að vítisenglar eru ekki á skrá yfir glæpasamtök og reglan „saklaus uns sekt er sönnuð“ á að sjálfsögðu að gilda um þessa menn sem aðra. Lögreglumenn eru ekki fulltrúar Gvuðs á jörðinni. Þeim ber að fara að lögum, hvort sem þeir hafa góða eða vonda tilfinningu fyrir fólki. Ég sé ekki betur en að þarna hafi verið framið mannréttindabrot.