Kvenlegir klækir

Vala konan hans

Nú hafið þér lært að bera kennsl á farandtittling.  Skynsamlegast væri fyrir yður að losa yður við hann. En hvað ef þér viljið halda honum?

Fyrst af öllu skuluð þér gera yður grein fyrir því að þótt þess séu dæmi að konum hafi tekist að temja farandtittlinga og gera þá sambúðarhæfa er engin trygging fyrir því að það takist. Ef þér viljið samt sem áður leggja á yður þær sálarkvalir sem það útheimtir að vera í sambandi við mann sem haldinn er skuldbindingarfælni, er yður best að læra nokkra kvenlega klæki.

Fyrst af öllu skuluð þér gera yður grein fyrir því að farandtittlingurinn á greiðan aðgang að kvenfólki og mun ekki missa áhugann á öðrum konum nema þér fáið hagstæðan samanburð. Þér skuluð því sjá til þess að hann verði var við allmargar konur sem eru lítt til þess fallnar að vekja áhuga hans. Þannig skuluð þér bera yður að:

  • Notið fésbókina sem gagnagrunn. Skráið hjá yður að minnsta kosti 200 einhleypar, ólögulegar konur hverra stöðuuppfærslur benda til innrætis, greindarvísitölu og áhugasviða sem engin hætta er á að veki áhuga mannsins.

  • Laumist inn á fésbókarsíðu farandtittlingins, til dæmis á meðan hann er í sturtu.*

  • Finnið prófíla æskilegra keppinauta og pókið þær.

Potþoli mun telja víst að maðurinn hafi hug á nánum kynnum, og sé hann fríður sýnum og greindarlegur eður smellinn í sínum stöðuuppfærslum, mun potþoli póka til baka. Mun það ugglaust verða til þess að farandtittlingurinn skoðar vegg potþola. Hafið þó ekki áhyggjur. Þegar hann er búinn að kynna sér 30-40 ófríða bjána sem hann telur að hafi sýnt sér áhuga, munuð þér verða því yndislegri í huga hans.

Notið aldrei tækifærið til þess að setja fram einhver sniðugheit í nafni farandtittlingsins í kommentum eða á veggnum hans. Það mun einungis verða til þess að hann gætir sín betur næst. Hann mun hinsvegar ekki gruna að þér viljið vekja athygli hans á öðrum konum. Ef svo ólíklega fer að hann hermi það upp á yður, setjið þá upp kvenlegan undrunarsvip og segið honum að þér hafið einmitt orðið fyrir því sjálfar að ókunnugt fólk af báðum kynjum sé að póka yður í tíma og ótíma, einnig fólk sem aðspurt  kannist ekkert við að hafa nokkurntíma séð prófílinn yðar. Þá mun hann telja víst að um sé að ræða einhverskonar vírus. Líklegast er þó að hann átti sig alls ekki á því að hann potaði í hina ólánsömu leiksoppa yðar fyrst.

* Athugið að þessi pistill er ekki hugsaður sem alvöru samskiptaráð heldur sem afþreyingarefni. Það er ekki heiðarlegt að snuðra í einkagögnum annarra og sennilega er sú hegðun sem hér er lýst refsiverð.