#Konur Þurfa Bara Að Væla Daglega

Ég var þriggja ára, datt og meiddi mig smávegis og fékk samúð út á það. Fimm mínútum síðar var ég enn hljóðandi, ekki af því að neitt væri að, heldur af því að ég vildi meiri athygli og stærri plástur. Á endanum sagði móðir mín „hættu nú þessu væli stelpa og farðu að leika þér.“

#Konur Þurfa Bara Að Væla Daglega – til þess að komast upp með að gangast uppi í hlutverki hins eilífa fórnarlambs.

***

Ég var sjö ára og mátti ekki fá tyggjó. Vildi það samt og reyndi að sannfæra pabba um að hann væri mikið illmenni að láta það ekki eftir mér. Á endanum sagði feðraveldið á heimilnu mér að steinhætta þessu suði.

#Konur Þurfa Bara að Væla Daglega – til að fá sífellt nýjar ástæður til að gagga #þöggun.

***

Ég var 13 ára og vildi ekki mæta í íþróttatíma svo ég bara sleppti því. Það hafði engar afleiðingar aðrar en þær að ég fékk 1 í einkunn. Ég varð mjög hissa því ég hafði búist við núlli enda ekki mætt í einn einasta tíma allan veturinn. Kannski hefði ég fengið 2 ef ég hefði grenjað.

#Konur Þurfa Bara Að Væla Daglega – til að fá meira en þær eiga skilið.

***

Ég var 24 ára og fór í Íslenskunám, einstæð með tvö börn. Flestir sem ég þekkti lýstu ánægju sinni með það og sögðust vissir um að ég myndi standa mig vel. Allir voru boðnir og búnir að passa fyrir mig í próftörnum og aðstoða mig á allan hátt. Tvær konur spurðu hvort mér hefði ekki dottið í hug að fara í praktískara nám. Mér fannst heimskulegt að velja sér hagkvæmt nám nema maður hafi áhuga á því og hvæsti á þessar tvær sem töldu sig hafa vit á því hvernig ég ætti að verja tíma mínum. Það voru mikil mistök því þær nefndu það ekkert aftur svo ég fékk ekki tækifæri til að velta mér almennilega upp úr því.

#Konur Þurfa Bara Að Væla Daglega – til þess að fólk gefi þeim sífellt fleiri ástæður til að væla.

***

Ég var 43ja ára og langaði í mann. Ástarsambönd mín höfðu ekki gengið upp af því að feðraveldið er svo vont við konur. Ég var búin að væla yfir makaleysinu meira og minna í 20 ár en það hafði ekki skilað viðunandi árangri. Líklega hefði það virkað ef ég vælt á hverjum degi en ekki bara 8 daga af hverjum 10.

#Konur Þurfa Bara Að Væla Daglega – til að koma öllum heiminum í skilning um að það sé körlum að kenna ef konur eru óhamingjusamar.

***

Ég er fimmtug og ennþá hendir það ég „triggerast“ vegna þess að einhver er ósanngjarn eða algjör hálfviti. Það er óþarfi að taka fram hvort það er smávægilegur pirringur eða alvarlegur geðsjúkdómur á borð við PTSD sem „triggerast“ enda jafn lítill munur á þessu tvennu og óvelkomnum athugasemdum og grófri nauðgun. Þetta eru auðvitað skelfileg örlög og þörf á að grípa til aðgerða strax. T.d. að væla yfir því.

#Konur Þurfa Bara Að Væla Daglega – til þess að fólk dáist almennilega að því hvað þær taka fórnarlambshlutverkið alvarlega.

***

Það er hreint dásamlega valdeflandi að gangast upp í hlutverki fórnarlambsins en það kostar auðvitað fórnir. Sem er óþolandi. En þannig er það. #Konur Þurfa Bara Að Væla Daglega – til þess að allir skilji hverskonar skelfingar áþján það er að vera kona.