Kenning mín um skorpufólk

hard-workMér finnst athyglisvert hversu algengt er að fólk haldi því fram að það vinni í skorpum eða vinni vel undir álagi, þótt allir sem fylgjast með  vinnubrögðum þess sjái að það er hið mesta bull. Mér til skemmtunar tók ég saman dálitla lýsingu á því hvernig mismunandi týpur vinna. 

A Yfirvegaða týpan

Þessi týpa er ekki kúl. Hún vinnur jafnt og þétt, hefur þokkalegt skipulag, tekur sjaldan langar pásur en setur heldur ekki í neinn sérstakan hraðagír nema þá helst á örvandi efnum. Þetta er fólk sem sýnir venjulega ágætis afköst og sér enga sérstaka ástæðu til að halda því á lofti.

Yfirvegaða týpan á það til að fara í vörn þegar hún er beðin að flýta sér og þolir tímapressu illa, kýs frekar að sjúga bara í sig hálfan krabbameinnstöngul í einu en að taka svo langa pásu að hún lendi í tímahraki. Þetta fólk segir samt stundum sjálft að það vinni best undir álagi. Líklega af því að það er það er heilaþvegið af þeirri firru að það sé eitthvað kúlla en að vinna hægt og örugglega. Illa innréttaðir einstaklingar af þessari gerð álíta að hollusta við vinnuveitandann felist í því að unna sér aldrei hvíldar og eru stöðugt að taka tímann á pásum annarra.

B Skorpumaðurinn

Hér er um að ræða fólk sem vinnur hægt og hratt til skiptis eða jafnvel mjög hratt og ekkert til skiptis. Skorpumaðurinn tekur margar pásur eða langar og setur svo allt á fullt. Hann skilar þegar upp er staðið svipuðum afköstum og sá yfirvegaði. Þetta fólk þjáist oft af samviskubiti yfir því að vera ekki að gera neitt og þarf því stöðugt að réttlæta pásurnar með því að tala rosalega mikið um það hvernig sé að vera skorpumanneskja og hvað það hafi í raun afkastað miklu. Illa gerður skorpumaður heldur sjálfur að hann sé miklu betri starfskraftur en hann raunverulega er því hann ber afsköst sín saman við afköst annarra án þess að reikna með öllum pásunum. Ég vona að fæstir skurðlæknar séu illa gerðir skorpumenn. Sé fyrir mér skurðlækni sem er rosalega upptekinn af því að komast yfir fleiri skurði en kollegi hans fyrir hádegi og þarf svo að taka sér reykpásu í miðju verki. Hljómar ekki vel.

C Frekjudallurinn

Frekjudallurinn fer mikinn með hamagangi og hávaða, virðist vera allsstaðar í einu og hefur gjarnan sterkar skoðanir á því hvað aðrir eigi að vera að gera og hvernig. Hann er ekki beinlínis latur, það er miklu frekar að hann fái páerkikk út úr því að láta aðra sjá um erfiðið fyrir sig. Hann kemur sér enda oft í yfirmannsstöðu án þess að hafa sérstaka samskiptahæfileika.

Frekjudallurinn er haldinn meirimáttarkennd og heldur því statt og stöðugt fram að hann sé skorpumaður og finnst það fínt. Reyndar á frekjudallurinn ýmislegt sameiginlegt með skorpumanninum og væri sjálfsagt gott efni í slíkan ef hann væri ekki gjörsamlega að kafna úr stjórnsemi. Það er til mjög einföld leið til að sjá hvort starfsmaður er raunverulega skorpumaður eða bara fífl á páerflippi. (Ef maður á annað borð nennir að velta sér upp úr því). Skoðaðu afköstin. Ef hann segist vera skorpumaður en afkastar í raun ekki öðru en því að taka samstarfsfólk sitt á taugum, hvað er hann þá?

D Letihaugurinn

Letihaugurinn tekur jafn langar og margar pásur og skorpumaðurinn, vinnur jafn hægt og yfirvegaða týpan og er álíka skipulagslaus og frekjudallurinn. Hann reykir að öllum líkindum. Ef hann hefur ekki gert það frá unglingsaldri þá tekur hann upp á því þótt hann sé kominn til vits og ára af því að hann heldur að þá taki enginn eftir því þótt hann sé alltaf í pásu (reykingafólk virðist telja sig hafa náttúrulegan rétt til að taka sér fleiri og lengri pásur en aðrir).

Eins og skilja má afkastar letihaugurinn afskaplega litlu en það er erfitt að setja ofan í við hann því hann hefur oftast lag á að vera stöðugt að gaufa við eitthvað. Klár letihaugur hefur lag á því að gera aldrei neitt nema hafa áhorfendur. Þótt þessi týpa eigi nákvæmlega ekkert sameiginlegt með skorpumanninum heldur hún því fram að hún vinni vel undir álagi.

Mín kenning er sú að raunverulegt skorpufólk sé sjaldgæft. Ástæðan fyrir því að letihaugar segjast vinna best undir álagi er yfirleitt sú að þetta pakk hefur ekki fokkings sjálfsaga til að koma sér að verki fyrr en það er komið með allt niður um sig. Auðvitað vinnur fólk betur þegar það loksins kemur sér í gang heldur en á meðan það er að þamba koffínseyði og sjúga í sig krabbameinsstöngla. Sennilega er þetta bull um að það vinni best undir pressu bara til að réttlæta léleg afköst og gefa í skyn að allt jafnist nú út á endanum.

Sumsé, raunverulegan skorpumann má þekkja á tvennu:
1. Hann skilar eðlilegum afköstum þrátt fyrir langar pásur.
2. Sem betur fer eru flestir vinnustaðir búnir að taka fyrir reykingar innan dyra en skorpumaðurinn getur ef svo ber undir, bæði sogið í sig krabbamein og sinnt vinnunni í einu. Nema atvinna hans felist í því að leika á blásturshljóðfæri.