Alltaf læðast að mér dálitlar efasemdir þegar fólk heldur því fram að það sé B-fólk. Ég hef reyndar kynnst alvöru B-fólki, manneskjum sem lætur best að vinna á næturnar og sofa á daginn en það fólk er sjaldgæft. Langflestir þeirra sem sækja í næturvinnu eru annarsvegar agalausir letihaugar og hinsvegar alkar. Þetta er fólk sem hefur ekki sjálfsaga til að koma sér í bælið á kvöldin og á þessvegna erfitt með að koma sér á lappir á morgnana eða kýs að vinna á vínveitingastöðum sökum hneigðar sinnar til drykkju og annars ólifnaðar.
Það er auðvelt að greina hafrana frá sauðunum í þessum efnum ef maður á annað borð þarf eða nennir að velta fyrir sér aumingjaskap annarra. Skoðaðu störfin sem hinn meinti B-maður velur sér.
Ef það eru þægileg næturvarðastörf þar sem lítið þarf að gera og hann kemst upp með að leggja sig á vaktinni, hvort finnst þér þá líklegra að hann sé letihaugur eða B-maður?
Ef um er að ræða starf þar sem viðkomandi kemst upp með að drekka í vinnunni og þá að hluta til á kostnað atvinnurekanda, hvort er hann þá aumingi eða B-maður?
Ég skal samþykkja að þeir sem sækja í næturvinnu sem krefst þess að þeir séu vakandi, edrú og skili afköstum séu frá náttúrunnar hendi B-fólk -að því gefnu að þeir haldi því mynstri að sofna seint og vakna seint í fríum. Hinir eru einfaldlega búnir að finna sér lélega afsökun fyrir því að láta börnin sín sjá um sig sjálf á laugardagsmorgnum og mæta of seint í vinnunna í miðri viku.