Keisarinn

Sjaldan á unghafur erindi í keisarahöll
segir máltækið
en engu að síður stendur hann hér nú
smávaxinn, grænklæddur, skegglaus
og beiðist inngöngu.

Keisarinn situr í hástæti sínu
með tvo hrúta hringhyrnda sér við fætur
munu þeir vera ráðgjafar hans? spyr drengurinn
sem aldrei hefur áður kynnst höfðingum
æðri Tuma litla í Fagradal.
Hann er kominn til að sækja um stöðu hirðfífls.

Þó mun honum annað hlutskipti ætlað
því fullmannað er af fíflum við hirðina
og nóg er um hrúta,
en sendisvein vantar vissulega.

Og keisarinn fær honum staf í hönd
og vegkort til leiðsagnar.
Sækja skal hann keisara sínum arnaregg
og ekki efast um réttmæti þess
eða tilgang.