Keisaraynjan

Myndin er eftir Emily Balivet

Sjálfsagt hefur hún gleypt eplafræ
því varla hefur hún fórnað meydómnum
og öll vitum við
að Völsungar vaxa af fræjum.

Það hlýtur að vera ósköp leiðinlegt líf
að sitja í lótusblómadyngju við svanatjörn
og bródera allan daginn
segir Vegfarandinn,
og ekki hvarflar að honum
að hún hafi valið það sjálf,
því síður að hlutverk hennar skipti máli.

Hvort sonurinn verður frelsari,
keisari
eða grænklæddur drengur
skal ósagt látið
en að velja skal honum nafn við hæfi
og það er hreint ekki svo lítil ábyrgð.
Ef til vill er göfugra að erja jörðina
en til þess eru bændur,
hlutverk keisaraynju er að sauma kontórsting
og líða um sali hallarinnar íklædd purpura og silki.
Og velja sonum sínum nöfn, auðvitað.

Keisaraynjan brosir við vegfarendum,
á flesta þeirra er vart orðum eyðandi.
Þó hendir það stundum
að launsonur hennar sest við fætur hennar
og skemmtir henni með flautuleik um stund.
Aldrei lengi í senn því alltaf er hann á hraðferð,
sífellt á leið út í heim
að drýgja einhverja hetjudáð
eða leita sér frægðar og frama.

Safnaðu á afrekaskrána gæskur
en gleymdu því ekki
að það eina sem raunverulega skiptir máli
er að fóstra nýtt líf og hlú að því,
ungamóðir sem kemur einum unga á flug
hefur afrekað meira en herkonungur
sem leggur undir sig heilt heimsveldi.

Þetta er nú heimspeki Keisaraynjunnar
sem aldrei hefur tekist á við flóknara verkefni
en að velja barni sínu nafn.
Daglagt situr hún við silfurtæra tjörnina
og saumar hástafi í svæfilver,
því þaninn kviður hennar
fóstar eitt fíflið enn
og jafnvel keisarabörn þurfa að sofa.