Eitt kvöldið knýr hann svo dyra einu sinni enn. Í þetta sinn opna ég því það er óhætt.
-Hvernig líður þér í hjartanu? spyr ég.
-Hjartað í mér dó í barnæsku, segir hann eins fráleitt og það nú er og kannski trúir hann því sjálfur.
-Og hvernig líður þér sjálfri í hjartanu? heldur hann áfram.
-Eins og kókoshnetu, segi ég. Honum finnst líkingin fyndin en reynir ekki að skilja hana. Enda hefur hann sjálfsagt mætt til leiks með fyrirframgefnar hugmyndir um það hvernig mér líði í hjartanu.
-Ég hef aldrei hætt að elska þig, segir hann.
-Jæja, segi ég áhugalaus.
-Þú meiddir mig, segir hann en ég svara því ekki.
-Þú reyndir að ýta mér frá þér. Þú reyndir að loka á mig.
-Ég ýtti þér frá mér og lokaði á þig og það án mikillar fyrirhafnar, hugsa ég en segi það ekki upphátt. Það er óþarfi að snúa hnífnum í sárinu.
-En ég hætti samt aldrei að elska þig.
Ó menn! Ég veit að þú hættir ekki að elska mig. Það er ekki einu sinni val. Það er jaðarmanni nauðsynlegt að elska konu sem sér í gegnum hann og skilur það sem hún sér og það vill til að ég er sú kona. Og ekki halda að ég beri kala til þín þótt ég hleypi þér aldrei framar inn í hjarta mitt. Ég met ást þína mikils, í alvöru ég virkilega met hana mikils því hún hefur haldið í mér lífinu á köflum. Og þegar allt kemur til alls ertu laus við þá andstyggilegu tegund góðmennsku sem í orði skilur og samþykkir en stingur mann svo í bakið, ég met það líka mikils.
En yndið mitt, ég veit líka að þig mun alltaf vanta þessa tvo sentimetra upp á að elska mig nóg.