Eða vantar okkur kannski fleiri?

 Í gær hitti ég fóttamann frá Kúrdistan sem er í þeirri sérkennilegu stöðu að vilja ekkert frekar en að komast burt frá Íslandi. Hann talar litla ensku en ef ég hef skilið hann rétt er saga hans á þessa leið:

Hann fór frá Kúrdistan til að koma sér undan því að gegna herþjónustu og hefur nú verið hér í tæpa 7 mánuði. Skömmu eftir að hann kom hingað var lögum um herskyldu í Kúrdistan breytt og nú er hægt að kaupa sig frá henni. Hann er orðinn hundleiður á því að hanga atvinnulaus á Íslandi og saknar konunnar sinnar, hann vill fara heim. Málið er að hann er peningalaus en má ekki vinna til þess að geta keypt flugmiða. Auk þess er passinn hans í gíslingu lögreglunnar. Hann býr uppi á velli og þarf klukkutíma göngutúr til þess að komast í mat í hinum hluta bæjarins. Hann segist fá þau svör frá lögreglu og útlendingastofnun að ef hann geti sýnt flugmiða, þá faí hann vegabréfið sitt afhent.

Ég veit ekki hvort það er íslenska ríkið eða Rauði krossinn sem heldur þessum manni uppi en ekki skil ég þetta fyrirkomulag. Hér eru tugir manna sem vilja ólmir fá að vera hér. Maður hefði haldið að það væri mikið fagnaðarefni ef einum þeirra snýst hugur og vill fara. Það er ekki mikil skynsemi í því að kosta uppihald manns í marga mánuði en neita að splæsa á hann 35 þús króna flugmiða. Hver er tilgangurinn með því að halda honum uppi hér? Og af hverju fær hann ekki vegabréfið sitt? Er hann grunaður um glæp? Ef svo er ætti hann rétt á að fá að vita hvað hann er ákærður fyrir og hann ætti rétt á að fá lögmann og túlk.

Í alvöru talað, hverskonar eiginlega rugl er í gangi hérna?

One thought on “Eða vantar okkur kannski fleiri?

 1. ——————–

  Þessi maður er greinilega í djúpum skít, sínum eigin, sýnist mér.
  En hvert vill hann fara? Heim aftur?
  Hann á ekki fyrir flugmyda og hann á þá ekki heldur fyrir aflausnargjaldi hersins. Og enginn heima vill borga farið fyrir hann, hvað þá herskylduaflausnina. Konan er trúlega fegin að vera laus við hann.
  Heitir þetta ekki að vera „lúser?“
  Hvað finnst þér, Eva, að best sé í stöðunni fyrir manninn?
  kjh

  Posted by: kjarheid | 9.08.2008 | 16:59:12

  ——————–

  Ha já, íslenska ríkið er þá væntanlega að bjarga honum undan því að verða lúser heima hjá sér og geta ekki borgað herlausnargjaldið?

  Posted by: Kristín | 9.08.2008 | 18:28:10

  ——————–

  Kjartan, það er auðvitað erfiðleikum háð að eiga samskipti við einhvern sem talar ekki sama mál og maður sjálfur og það er margt í sögu þessa manns sem ég átta mig ekki á. Mér skilst að hann sé frá átakasvæði við landamæri Tyrklands. Hann hefur misst marga ættingja og vini í stríði og vill ekki koma nálægt slíku en hann vill fara heim aftur.

  Ég reikna með því að maðurinn hafi atvinnuleyfi heima hjá sér og geti þannig keypt sig undan herskyldu og einhverja peninga hefur hann fengið að heiman upp í flugmiða því hann segist bara vanta 35.000 kall.

  Þessar ósmekklegu getgátur þínar um að maðurinn sé lúser og konan fegin að vera laus við hann eru ekki svara verðar.

  Posted by: Eva | 9.08.2008 | 23:04:44

  ——————–

  Þá spyr ég: Hvern ask… var maðurinn að koma hingað? Hann er mállaus, tengslalaus, vegalaus, vísalaus, peningalaus, …
  Ísland er ekki endapunktur fyrir svona menn og á ekki að vera það.
  EN! Ég er sammála því að það var rangt af mér að nota orðið „lúser“ um þennan ógæfusama mann og bið konu hans afgsökunar á því.

  Posted by: kjarheid | 9.08.2008 | 23:20:03

  ——————–

  Það má vel vera að það hafi verið afspyrnu heimskuleg hugmynd hjá honum að koma hingað. Hans skýring er nokkurnveginn svona:

  „I thought; Iceland democracy, free country, no umemployment, no army. I thought Iceland good country. But no! They take my fingerprint and take my passport. Why? No lawyer, no translator. Is my right, eh? If I’m bad person, why not take me to court? Why not give me lawyer? They don’t let me work and they don’t help me leave. I’m a prisoner but no court. Is this democracy?“

  Annars sé ég ekki hvað við græðum á vangaveltum um það hversu bjánaleg hugmynd það var af honum að koma hingað. Hann er hér og það eru aðeins tvær leiðir til að komast hjá því að halda honum uppi til langframa, að koma honum í vinnu eða borga far undir hann heim. Það er allvega lítið vit í að gera ekkert.

  Posted by: Eva | 10.08.2008 | 0:19:34

  ——————–

  Rétt hjá þér.
  Hann ER hér og það er illa komið fram við hann með því að leysa ekki úr flækjunni. Þetta tekur allt, allt of langan tíma.
  Hér eiga ekki að vera neinar flóttamannabúðir. Tökum við fólki eða sendum það burt án tafa.
  kjh

  Posted by: kjarheid | 10.08.2008 | 0:42:35

  ——————–

  Ég vildi að það væri svo einfalt að við gætum tekið við fólki eða sent það burt án tafa en þótt ég sé ósátt við útlendingarstofnun, þá skil ég samt að það geti þurft meira en einn dag til að taka afstöðu. Stundum kemur fólk skilríkjalaust og biður um hæli eða þá að það leikur grunir á að skilríki séu fölsuð.

  Mín afstaða er sú að ef fólki segist vera í hættu þá eigi það að njóta vafans. Ef maðurinn í næsta húsi kemur til þín í uppnámi og segir að vírisenglar hafi kveikt í húsinu hans og séu að elta sig með haglabyssu, þá er hugsanlegt að hann sé bara á sýru. Samt byrjar þú væntanlega á að hleypa honum inn til að tryggja öryggi hans og ferð svo í það að athuga hvað er hæft í þessu.

  Aðgerðaröðin á að vera þessi:
  1 -bjarga
  2 -rannsaka
  3 -taka ákvörðun

  Stig 2 á hinsvegar ekki að taka mörg ár og það á ekki að sleppa því og senda fólk til baka bara af því að það er hægt.

  Posted by: Eva | 10.08.2008 | 10:53:48

  ——————–

  Tjásur af moggablogginu

  Mikið sammála þessu mati þínu, það er svo fjári margt vitlaust og gersamlega glórulaust í okkar dóms & réttarkerfi. Maður nær varla orðið uppí þetta réttarRUGL.

  Eiríkur Harðarson, 9.8.2008 kl. 15:56

  ——————–

  Eva, þetta er nú eiginlega fyndið, grundvöllurinn fyrir hælisleitinni hruninn og aldrei að vita hvort konan heima finnur sér ekki eitthvað til dundurs í einmanaleikanum!

  Ég held þó að hérlendis sé farið að alþjóðareglum SÞ um hælisleitendur og trúi því að þegar röðin kemur að karlinum  að honum verði snarlega snúið til síns heima á þeim forsendum að hans forsendur séu engar.

  Hann hefði átt að taka kelluna með…

  Kolbrún Hilmars, 10.8.2008 kl. 23:01

  ——————–

  Þú hefur eitthvað misskilið þetta Kolbrún. Hér er um að ræða mann sem hefur dregið umsókn sína til baka og vill ekkert frekar en að verða snúið til sæins heima snarlega, en er samt sem áður kyrrsettur hér þar sem Íslendingar vilja frekar taka að sér að halda honum uppi en að henda í hann smápening fyrir flugfari heim.

  Eva Hauksdóttir, 15.8.2008 kl. 10:12

  ——————–

  hmmm, já þetta er ótrúlegt…

  alva (IP-tala skráð) 20.8.2008 kl. 23:56

Lokað er á athugasemdir.