Í hvaða rúmi?

Í vinnunni var ég spurð í þaula um skemmtanalíf mitt á föstudagskvöldinu. Þýðingarmiklar augngotur milli kokkanna og Þokka fylgdu og ég var farin að hallast að því að einhver hefði séð þegar ég steig inn í leigubílinn með Ástþóri Magnússyni undir morgun. Í örstuttri pásu króguðu Þokki og kokkarnir mig svo af í eldhússkróknum.

Þokki: Eva, við heyrðum sögu sem við þurfum eiginlega að fá staðfestingu á.

Eva: Núnú?
Þokki: Já. Hingað kom maður í morgunkaffi.
Keikó: Ungur og ákafur …
Þokki: duflgjarn og dökkhærður …
ÓJón: grannur og geðprúður …

Keikó: hrokkinn og hávaxinn ..
Hinn Jón: villtur og velvaxinn.
Keikó: Góður og glaður …
Þokki: -aukinheldur greindur og graður.

Ójón: Fríður og frjálslyndur …
Hinn Jón: en töluvert timbraður …
Þokki: …og var svona líka þjakaður af móral.

Keikó: Hafði nefnilega vaknað við hliðina á konu …
ÓJón: -í húsi hérna í nágrenninu.

Eva: Jahérna, þetta hljómar nú bara ekkert svo ólíkt manni sem við þekkjum.
Hinn Jón (ábúðarfullur): einmitt!

Eva: En hvað í ósköpunum er svona frásagnarvert við það þótt Bruggarinn hafi verið fullur og riðlandi á föstudagskvöldi? Ég hélt að það væri nú bara fastur líður.

Þokki: Já, en það sem við vildum fá staðfest er þetta; vaknaði hann í þínu rúmi?

Eva (hugsar sig aðeins um): neei, það getur ekki verið því ég deili herbergi með syni mínum barnungum og hef því ekki tök á að bjóða mönnum gistingu.
Þokki (fljótmæltur): Jújú, hann talaði einmitt um það; sagði að strákurinn hefði farið fram í morgun og steikt handa ykkur beikon og egg.
Eva: Nei, það hefur hann nú ekki sagt.
Ójón (í yfirheyrslutón): Eva? Eru egg og beikon í ískápnum þínum?
Eva: Nei, allavega ekki beikon.

ÓJón (sigri hrósandi): En það var beikon þar í gær er það ekki?

Ég áttaði mig ekki á því fyrr en of seint að vitanlega hefði ég átt að segja að þar sem sonur minn Fatfríður sé mótvígur svínakjötsáti væri af og frá að hann hefði steikt beikon til morgunverðar. Hinsvegar hefði hann, bara upp á húmorinn, fært Bruggaranum kókópuffs í rúmið eftir að ég var farin í skúringarnar. O hvað ég vildi að ég hefði sagt það. Ég er viss um að þeir hefðu trúað því. En ég sagði það ekki, neitaði því bara staðfastlega að Bruggarinn hefði nokkurntíma gist í mínu bóli.

„Þú hefðir ekki átt að neita þessu svona eindregið“ sagði Þokki. „Bruggarinn játaði að vísu ekki en neitaði heldur ekki af meiri sannfæringarkrafti en svo að við héldum virkilega að þarna kynni að vera komin góð saga.“

Eins og ég hef alltaf sagt er góð saga ekki verri þótt hún sé login en í alvöru strákar; finnst ykkur þetta virkilega góð saga? Ég meina í alvöru, hvað er eiginlega svona lygilegt við það að Bruggarinn skríði upp í til mín? Á venjulegu föstudagskvöldi þegar ég hef verið karlmannslaus síðan um miðjan júlí og hann kvenmannslaus frá kl. 11 um morguninn, gæti margt lygilegra gerst. Þegar allt kemur til alls hef ég hormónast með ljótari mönnum en Bruggaranum og einhverntíma hefur illflekanlegri maður verið tældur í rúm eldri konu. Það eina sem er virkilega ótrúlegt er þetta með móralinn. Hversvegna ætti Bruggarinn eða nokkur annar að hafa móral yfir því að hafa eytt nóttinni með konu sem hefur fimmta sætasta rass í heimi? Reyndar gæti ég trúað Bruggaranum til að segja: 26. sætasta rass sem ég hef handfjatlað á þessu ári, og það hljómar einhvernveginn ekki nærri eins vel.

Neinei, ef ykkur langar í lygasögur, reynið þá frekar að búa til sögur sem eru pínulítið meira krassandi og nógu ótrúlegar til þess að allavega aðalpersónurnar geti hafnað þeim af sannfæringu án þess að þurfa að leggjast í upprifjun.