Hver ógnar grunngildunum?

Í orði kveðnu eru grunngildi vestræns samfélags fyrst og fremst almenn mannréttindi og lýðræði. Þegar við athugum hvernig mannréttindum og lýðræði er framfylgt kemur þó í ljós að viðhorfin eru smátt og smátt að breytast. Vald markaðsaflanna, vald fjölmiðlanna og jafnvel vald einstakra stjórnmálamanna ógnar lýðræðinu. Fyrirtæki, jafnvel stórar samsteypur hafa sömu réttarstöðu og einstaklingar samkvæmt lögum og þess eru dæmi að dómskerfið hafi tekið rétt fyrirtækja fram yfir mannréttindi einstaklinga.

Þetta er kjarninn í framsöguerindi sem Miriam Rose flutti fyrir fullu húsi hjá Reykjavíkurakademíunni í gær. Umræðurnar á eftir voru athyglisverðar. Margar góðar spurningar komu upp og ég hefði ekki viljað vera í sporum fulltrúa lögreglunnar sem hvað eftir annað þurfti að neita að svara spurningum. Blessaður maðurinn var t.d. spurður hversvegna lögreglan (sem segist ekki leggja neitt persónulegt mat á það hvaða afbrot útlendinga teljist brottrekstarsök) hafi hundsað beiðni um að stöðva komu stríðsglæpamanns til landsins (er þar átt viðítarlega og vel rökstudda kæru sem Elías Davíðsson lagði fram áður en Georg Bush eldri kom hingað í einkaerindum) en hinsvegar vísað frá Falun Gong fólkinu sem kom til að mótmæla öðrum og síst geðslegri stríðsglæpamanni. Þessu neitaði löggi að svara, á þeirri forsendu að þetta væru pólitískar spurningar.

Þetta er nú bara svona eitt dæmi og ég átti svosem ekki von á gáfulegri svörum. Það hins vegar fauk í mig þegar hann hélt því fram að lögreglan hefði aldrei farið fram á að Miriam yrði vísað úr landi. Þeir hafi bara upplýst Útlendingastofnun um málið. Þetta mál er auðvitað til skammar og kannski skiljanlegt að enginn vilji bera ábyrgð á því en nú vill svo til að ég hef bréfið frá Útlendingastofnun undir höndum og í því stendur:

„The Directorate has received a letter from the Reykjavik Area Police Commissioner […] The DIrectorate was asked to examine whether there are grounds for expelling the above mentioned foreigner from Iceland.“

Það stendur vitanlega ekki skýrum orðum að lögreglan vilji fyrir alla muni koma öllum með óæskilegar stjórnmálaskoðanir úr landi en auðvitað er tilgangurinn með þessari beiðni sá að fá brottvísunarleyfi. Með þeirri virðingu fyrir lögreglunni sem hún verðskuldar, þá er bara verið að slá ryki í augu fólks með fullyrðingum um að lögreglan hafi ekki neina skoðun á þessu. Löggan er ekki hlutlaus, hvorki í málefnum mótmælenda né neinu öðru sem pólitík viðkemur.