Ég hef frekar ákveðnar skoðanir á ýmsum samfélagsmálum en ég hef aldrei gefið mig út fyrir að hafa allsherjar lausnir á þeim. Ég hef áhuga á mannréttindamálum og umhverfismálum og langar oft að hafa áhrif á þeim sviðum. Hinsvegar kæri ég mig ekki um völd. Á þessu tvennu er stór munur og ég vildi sjá samfélag okkar þróast í þá átt að fleiri hafi áhrif en án þess þó að sækjast eftir völdum. En af hverju langar mig ekki í völd, þótt ég telji mig hafa heilmikið að segja og vilji gjarnan að aðrir hlusti á mig? Ég er ekki viss en mér hefur dottið í hug að hluti skýringarinnar sé ósköp einfaldlega sá að ég er kona.
Í framboði til stjórnlagaþings eru 364 karlar en aðeins 159 konur. Nú er lægra hlutfall kvenna á þingi og ýmsum valdaembættum og stjórnunarstöðum oft skýrt með því að konum sé mismunað og að feðraveldið haldi þeim niðri. Þetta lága hlutfalli kvenna í framboði til stjórnlaga þings vekur hinsvegar grunsemdir um að skýringin kunni að vera einhver allt önnur því enn hefur allavega ekkert komið fram sem bendir til að konum hafi á einhvern hátt verið gert erfiðara að bjóða sig fram.
Mun færri konur en karlar skrifa pólitískar greinar. Oft hef ég heyrt þá skýringu að karlar stjórni fjölmiðlum og konur hafi minna aðgengi að þeim. Ég trúi því ekki og það er allavega alveg á hreinu að það eru engir karlar sem hindra konur í því að tjá sig á netinu og samt sem áður skrifa konur minna um pólitík en karlar.
Ég hef oft heyrt þá skýringu á dræmri þáttöku kvenna í pólitík að þær séu svo bældar og óframfærnar. Það þyki ekki dömulegt að trana sér fram og konum finnist athyglin óþægileg. Ef konur eru svona feimnar, hversvegna eru þá ekki sömu kynjahlutföll meðal Hollýwoodleikara og í öðrum störfum þar sem einkalíf fólks lendir gjarnan í sviðsljósinu? Það þykir ekki sérlega dömulegt að glenna klofið á sér framan í alheiminn en engu að síður eru konur í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem hafa atvinnu af því og nei, þær eru ekki allar þrælar. Eru yfirhöfuð til einhverjar sannanir fyrir því að konur séu að upplagi óframfærnari en karlar eða á það bara við um ákveðin svið?
Getur verið að skýringin á minni stjórnmálaþátttöku kvenna en karla sé einhver önnur en gengdarlaus kúgun, bæling og þöggun? Getur verið að konur séu frá náttúrunnar hendi minna valdsæknar en karlar? Getur verið að konur taki minni þátt í pólitík og skrifi minna um samfélagsmál af því að við erum svo vön því að leggja löngun til áhrifa og valdsækni að jöfnu? Vilja konur síður tjá sig vegna þær að þær hafa ekki áhuga á að fylgja sannfæringu sinni eftir með valdabaráttu?
Ef svo er, ef konur hafa alveg jafn sterkar skoðanir og karlar en bara síður áhuga á því að stjórna stórfyrirtækjum, braska með mikið fé og setja öðru fólki reglur, getur þá hugsast að það þurfi að breyta kerfinu sjálfu, fremur en að þrýsta á konur um að hegða sér eins og karlar?
Getur verið að við yrðum betur sett með samfélag þar sem fólk fær tækifæri til að hafa áhrif á umhverfi sitt og örlög, án þess að vera á stöðugu testesteróntrippi? Viljum við sjá samfélag þar sem ekki bara konur og karlar hafa jöfn áhrif, heldur fái eldri borgarar, börn, öryrkjar, nýbúar… allir sem byggja samfélagið að hafa eitthvað um það að segja hvernig það er gert? Getur verið að það sé til önnur leið en sú að setja reglur um það hversu margir örykjar skuli sitja í stjórn lífeyrissjóðs eða hversu mörg börn skuli hafa vald til að setja lög?
Getur verið að sjálf hugmyndin um yfirvald sé úr sér gengin og ónothæf til þess að byggja upp réttlátt samfélag? Að hún stríð gegn hagsmunum minnihlutahópa, gegn hagsmunum kvenna, jafnvel gegn hagsmunum hvers þess karls sem hefur (eins og 98% karla) þrátt fyrir hærra hlutfall testesterons, andskotans engin völd og eins og meirihluti kvenna og margir kynbræður hans, ekki nokkurn áhuga á þeim heldur?
—————————-
Kannski er þetta rétt tilgáta en ég skil samt ekki hversvegna þú ert á móti kynjakvótum. Má ekki allavega prófa þá og sjá hvað gerist?
Posted by: Halla | 16.11.2010 | 11:11:45
Það eru tvær meginástæður fyrir því að ég er ekki hrifin af hugmyndinni um kynjakvóta.
Í fyrsta lagi þá held ég að þær konur sem sækjast eftir völdum séu fremur fulltrúar ríkjandi valdakerfis en þorra kvenna og því hæpið að það þjóni hagsmunum meðalkonunnar þótt einstaka kvenskörungur fái völd til að sölsa undir sig peninga og mylja undir vini og vandamenn. Karlar eru ekki skárri þótt þeir skarti píku.
Í öðru lagi fela kynjakvótar í sér mismunun og mismunun er í eðli sínu neikvæð. Hugmyndin er sú að með þeim sé verið að leiðrétta aðra mismunun sem hefur viðgengist lengi. Að berjast gegn mismunun með mismunun er svona álíka geðslegt og að berjast gegn ofbeldi með ofbeldi. Það kann að vera nauðsynlegt í neyðartilvikum en sem almenn regla er það einfaldlega sjúkt og rangt.
Posted by: Eva | 16.11.2010 | 12:19:28
„… getur þá hugsast að það þurfi að breyta kerfinu sjálfu, fremur en að þrýsta á konur um að hegða sér eins og karlar?“
Þarna hittir þú naglann á höfuðið Eva. Verst að það eru ekki miklar líkur á því að kerfið breytist nema því aðeins að það hrynji fyrst endanlega til grunna
Posted by: Sliban | 16.11.2010 | 17:00:58
Þar er ég þér sammála.
Posted by: Eva | 16.11.2010 | 20:06:10