Umfjöllun Kristrúnar um yfirlýsinguna frá mínútu 22
Í Silfrinu nú um helgina þar sem ræddar voru árásirnar á Sýrland og viðbrögð Natóríkja við þeim, hélt Kristrún Heimisdóttir því fram að Ísland hefði sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst væri skilningi á þessum aðgerðum en ekki sérstökum stuðningi. Kristrún sagðist hafa tekið eftir því hvernig yfirlýsing Íslands var orðuð, lagði áherslu á að orðalag hennar skipti máli og að slíkar yfirlýsingar væru ekki léttvægar því þær væru lesnar upp í sendiráðum og utanríkisráðuneytum um allan heim (frá og með 22. mínútu).
Enga slíka yfirlýsingu er að finna á vef Utanríkisráðuneytisins og ekki veit ég til þess að vitnað hafi verið beint í hana i fjölmiðlum. Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, gerði enga athugasemd við umfjöllun Kristrúnar um yfirlýsinguna og því varla um misskilning að ræða. Yfirlýsingin hlýtur því að vera til og hefur væntanlega verið send út.
Ég er sammála Kristrúnu um að orðalag yfirlýsingar af þessu tagi getur skipt máli og þessvegna langar mig að lesa hana. Hún hlýtur að hafa birst einhversstaðar fyrst Kristrún tók eftir því hvernig hún er orðuð. En hvar? Ég er búin að senda fyrirspurn um það bæði á Borgar Þór og á Lísu Kristjánsdóttur aðstoðarmann forsætisráðherra. Vonandi svara þau fljótlega. Mig langar líka að vita hver samdi þessa yfirlýsingu. Kristrún setur yfirlýsinguna og orðalag hennar sérstaklega í samband við Katrínu Jakobsdóttur og segist hreint út álíta að orðalag hennar sé annað en það hefði verið ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur væru ein í ríkisstjórn (mín 28:26-28:57). Var Utanríkisráðherra ósáttur við yfirlýsinguna? Er það þessvegna sem hún er ekki birt á vef Utanríkisráðuneytisins?
Ég er furðu lostin yfir því að Ríkisútvarpið skuli enn ekki hafa birt þessa yfirlýsingu.