Og vitanlega stukku einhverjir á þá túlkun að allar konur séu lygasjúkar druslur og að best sé að klappa grey nauðgurunum á bakið, leyfa þeim óáreittum að nauðga og meiða.
Sumir hengja sig í tveggja prósenta kenninguna, rétt eins og það bara sé allt í lagi að fórna tveimur saklausum til þess að ná 98 sekum.
Nokkrir hamra á því að það sé bara engin krafa uppi um öfuga sönnunarbyrði, enda þótt ég hafi einmitt nefnt dæmi um nýlegan dóm þar sem sakborningur var ekki látinn njóta vafans.
Það sem áhugafólk forðast eins og heitan eldinn er hinsvegar sú staðreynd sem við blasir, að þyngri refsingar og fleiri dómar, hafa ekki dregið úr kynferðisofbeldi.
Ég hef engan áhuga á að þræta um það hvort líkurnar á röngum sakargiftum séu 1%, 20% eða eitthvað þar á milli. Það nægir mér alveg að vita að ef 100 menn eru ákærðir fyrir nauðgun, þá gæti einn þeirra hugsanlega verið saklaus og ef aðeins einn maður er ákærður fyrir nauðgun, þá gæti hann hugsanlega verið saklaus. Möguleikinn einn er nóg til þess að ég vil að allur vafi sé metinn sakborningi í hag, í öllum málaflokkum.
Hvað á þá að gera við hugsanlega nauðgara? Hvað er hægt að gera til þess að fá fólk til að horfast í augu við tilhneigingu sína til að gera ljóta hluti sem skaða aðra og leita sér hjálpar? Hvað er hægt að gera til að fá menn til að játa kynferðisofbeldi? Það er allavega ekki hægt að draga úr ofbeldi með því að brennimerkja þá sem brjóta af sér til lífstíðar og sýna hverjum þeim sem grunaður er um það ævilangan fjandskap og fyrirlitningu. Því síður er það hægt með því að slaka á kröfum um sönnun í þessum málaflokki.
Mig langar að sjá umræðu um það hvort hægt sé að beita öðrum og raunhæfari leiðum en útskúfun og refsingum til þess að draga úr tíðni og alvarleik kynferðisofbeldis. Ég efast þó um að þeir verði margir sem leggja eitthvað til málanna. Það er svo miklu auðveldara að æða af stað með heykvíslarnar þegar fréttist af hugsanlegri nauðgun eða hugsanlegum rangfærslum, en að staldra við og spyrja; hvað gerðist í hausnum á þér?
Að nálgast þann sem hefur brotið öll mörk almenns velsæmis sem manneskju fremur en skrímsli, sú aðferð er ekki lystaukandi. Hún er beinlínis sársaukafull. Það er auðvelt að dæma. Það fyllir mann þeirri tilfinningu að maður sjálfur sé betri, merkilegri og voldugri.
Nei, það er ekki geðsleg tilhugsun að reyna að skilja ofbeldismenn og lygara, að velta því fyrir sér hvaða reynsla og viðhorf eru undirrót ofbeldis og hvort maður sjálfur hefði kannski undir einhverjum kringumstæðum hegðað sér eins. Það gæti hinsvegar hugsanlega skilað árangri.