Han irriterede mig

4000prison1
Þann 13. september 2008 varð 15 ára stúlka fyrir hópnauðgun á almenningsklósetti á járnbrautarstöð í Danmörku. Eða það sögðu blöðin allavega. Og hún sjálf. Þrír piltar, 15, 16 og 17 ára voru dæmdir fyrir nauðgun, á tveimur dómstigum. Þeir neituðu sök og engin sönnunargögn lágu fyrir önnur en frásögn telpunnar, sem dómnum þótti einkar trúverðug.

Piltarnir voru búnir að sitja fjórtán mánuði í fangelsi þegar bróðir Sharifs Saloni, eins drengjanna, lagði fram myndbandsupptöku þar sem stúlkan viðurkenndi að hafa logið. Hún hafði haft samfarir við Sharif að eigin vali, í skiptum fyrir 17 króna strætómiða. Hversvegna bar hún hópnauðgun á piltana? Jú skýringin sem hún gaf bróður eins þeirra og sjá má á myndbandinu er þessi; „Han irriterede mig, han den høje der“ en þar vísar hún til eins þeirra sem hún bar sökum, það var þó ekki sá sem hún hafði samfarir við sem hún var ósátt við.

Stúlkan var kærð fyrir rangar sakargiftir. Hún var svo fundin sek um að hafa logið til um aðkomu tveggja piltanna og dæmd til geðlæknismeðferðar. Henni var ekki gerð refsing. Dómurinn treysti sér heldur ekki til að sakfella hana fyrir rangar sakargiftir gegn þeim sem hún hafði haft samfarir við. Að vísu var pilturinn álitinn nógu saklaus til þess að honum voru dæmdar háar skaðabætur en stúlkan var samt ekki dæmd fyrir að ásaka hann. Það var nefnilega hugsanlegt að hún hefði upplifað atvikið eins og nauðgun, og því ekki hægt að sanna hún hefði vísvitandi lagt fram falska kæru. Samt sem áður var það ekki Sharif Saloni, sá sem hafði haft samfarir við hana sem hún var reið við, heldur vinur hans sem stríddi henni með því að þykjast hafa tekið myndir af henni.

Þetta er ekkert eina dæmið af þessu tagi sem upp hefur komið í Danmörku á síðustu árum. Hér er eitt sláandi líkt. Í þessu dæmi játaði konan líka á upptöku að hafa sagt ósatt en saksóknari vísaði kæru fyrir falskar sakargiftir frá. Ég hef ekki fundið upplýsingar um það hvort ríkissaksóknari gerði það líka.

Enn skrifar Anna Bentína um karllægni réttarkerfisins. Anna Bentína vill lög sem ná yfir nauðgara og ég held að flestir geti nú alveg verið henni sammála um það sé verulega slæmt að sekir menn sleppi. En aðferðin sem Anna Bentína boðar, að dæma menn á grundvelli frásagnar kærandans, hefur í för með sér aukna hættu á því að menn sem hafa kannski sýnt af sér slæma framkomu eins og einn piltanna virðist hafa gert, eða bara menn sem voru staddir á röngum stað á röngum tíma eins Sharif Saloni og hinn drengurinn sem voru dæmdir með honum,  verði sakfelldir fyrir nauðgun. Mig langar að sjá svör Önnu Bentínu um það hvernig eigi að koma í veg fyrir það. Reynsla hinna Norðurlandaþjóðanna af öfugri sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum (þótt það heiti ekki öfug sönnunarbyrði í lögunum er það nákvæmlega það sem gerðist t.d. í þessu máli) er nefnilega sú að menn eru raunverulega dæmdir fyrir glæpi sem þeir frömdu ekki, sviptir frelsi sínu og mannorði auk annarra hörmunga sem slíkur dómur hefur í för með sér. Við vitum ekkert hversu margir þeir eru sem sitja saklausir í fangelsum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, dæmdir fyrir kynferðisbrot. Hvernig í ósköpunum eiga menn að sanna sakleysi sitt þegar það eina sem þarf til að fá þá dæmda er grátandi kona sem segir „já en ég vildi það ekki“? (Nú eða bara hlæjandi kona sem segir „hann var ekkert smá pirrandi“) Og jafnvel þótt fyrir liggi játningar kvenna sem hafa ranglega ásakað menn um nauðgun, reynist hreint enginn hægðarleikur  að fá þær dæmdar.