Nú er ríkisstjórnin búin að lofa því að ég muni greiða skuldir einhverra labbakúta sem tóku lán fyrir kampavíni og einkaþotum. Svo ætlar ríkisstjórnin að klóra yfir sitt eigið fjármálaklúður og Seðlabankans með því að taka fleiri lán sem ég á líka að borga. ÉG, sem á enga einkaþotu og ekki einu sinni eitt lítið dagblað, hvað þá fjölmiðlasamsteypu, á semsagt að borga rúmar 4,5 milljónir miðað við gengið í dag, vegna fjárhættuspils manna sem ég ber enga ábyrgð á. Synir mínir, sem 8 ára gamlir kunnu að spara með því að skoða kílóverð á osti og kjöti og eru búnir að tapa stórum hluta af sparifé sínu, vegna hagstjórnar Geirs Haarde, hagfræðings, eiga líka að taka á sig rúmar 4,5 milljónir hvor.
Ekki nóg með að við; foreldrar, börn, afar og ömmur, sitjum uppi með skuldir þessa spillingarliðs, heldur vorum það líka við sem stóðum straum af kostnaði við rekstur fjármálaeftirlits, seðlabanka og alþingis. Og jújú minnihlutinn ber líka ábyrgð, þetta fólk er í fullri vinnu við að sinna aðhaldi og eftirliti með gloríum ríkisstjórnarinnar.
Nú hefur þessi sama ríkisstjórn kynnt stórkostlegar björgunaraðgerðir til að koma í veg fyrir að stór hluti þjóðarinnar lendi á vergangi. Að vísu felst hjálpin að vanda í því að auka skuldasöfnun og auk þess á aðeins að hjálpa þeim sem eru ekki komnir í vandræði ennþá!
Einhverntíma um daginn las ég ósköp fallegan bloggpistil um nauðsyn þess að hjálpast að á erfiðum tímum. Ég get tekið undir það sjónarmið. Ég er hinsvegar ekki sammála höfundi um að samhjálpin eigi að felast í því að hlaupa undir bagga með þeim sem eiga ekki fyrir afborgunum af lánunum sínum. Í fyrsta lagi þá er það bjarnargreiði að lána fólki peninga sem það sér ekki fram á að geta endurgreitt og það hefur lagt margar fjölskyldur og vinasambönd í rúst. Að gefa fólki peninga er ekki hótinu skárra því sá sem þiggur ölmusu hefur alltaf á tilfinningunni að hinn aðilinn eigi eitthvað inni hjá honum. Þar fyrir utan þá eru of margir sem sjá sjálfir fram á að lenda í fjárhagsvandræðum, til að raunhæft sé að veita vinum og ættingjum vaxtalaus lán.
Það er til miklu betri leið til að standa með þeim sem eru að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna þeirrar glórulausu hagstjórnar sem hefur komið okkur í þessar ógöngur. Leið sem auk þess er öflug mótmælaaðgerð, án nokkurrar hættu á meiðslum, eignatjóni eða handtökum. Það eina sem við þurfum að gera er að sameinast um að hætta að borga.
Hættum, öll sem eitt að greiða af húsnæðislánum, námslánum og öllum öðrum skuldum við ríki og banka. Allsherjar greiðslustræk ætti að sannfæra ríkisstjórnina um að við sættum okkur ekki við að nokkrir leynimakkarar ákveði einhliða að almennir borgarar taki að sér að greiða skuldir sem þeir hafa ekki ábyrgst og hefðu fæstir samþykkt og víst er að ráðamönnum þykir mun óþægilegra að fá öngva aura en að frétta af þúsundum manna sem mæta á Austurvöll og frábiðja sér meiri spillingu af stökustu kurteisi.
Við erum ríkið og við höfum ekki samþykkt að greiða skaðann vegna Icesave og við höfum heldur ekki samþykkt að taka margra milljarða lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Rússum, Pólverjum eða neinum öðrum. Við ákváðum ekki ósiðlega há laun bankastjóra. Við höfum ekki samþykkt að bæta 4,5 milljónum við skuldahala hvers einasta mannsbarns í landinu. Við höfum ekki samþykkt hækkun stýrivaxta, verðtryggingu á öll útlán eða það að fólki sem er þegar komið í vandræði verði neitað um aðstoð. Fáir Íslendingar eiga skuldlaust húsnæði og þeir sem eiga það eru flestir með einhverjar aðrar skuldir í bönkum. Það er hægt að kúga einstaklinga, en það er ekki hægt að bera 300.000 manns út af heimilum sínum og gera meirihluta þjóðarinnar gjaldþrota.
Við getum ekki borgað skuldir allra sem eru í vandræðum. Ekki frekar en að við ráðum við að borga skuldir auðmanna. En við getum sýnt samstöðu okkar með því að borga ekki og við getum líka knúið fram hverjar þær aðgerðir sem okkur bara sýnist, með því að sameinast um að borga ekki krónu fyrr en hlustað hefur verið á kröfur okkar. Kröfur um að seðlabankastjóri víki, að fjármálaeftirlitið víki, að ríkisstjórnin víki og að allt þetta fólk, auk útrásarvíkinganna sjálfra, verði látið axla ábyrgð á afglöpum sínum og spillingu.
Hættum að borga og krefjumst réttlætis. Krefjumst þess að í stað þess að grafa undan láglaunafólki með svokallaðri greiðslujöfnunarvísitölu, verði laun bankastjóra og ráðherra lækkuð verulega, þingmönnum fækkað og kjör þeirra skert, sendiráð víðast hvar lögð niður, allt bruðl-að-geðþótta-ráðherra-fé tekið af ráðuneytum og allt sem kallast risna á vegum hins opinbera afnumið.
Hvort sem við erum í fjárhagsvandræðum eða ekki, stöndum saman um að senda ráðamönnum skilaboð sem þeir skilja, með því að sjá til þess að þann 1. desember fari eins lítið fé inn í bankakerfið og ríkiskassann og mögulegt er. Hættum að borga.
————————————————-
Ég er svo hjartanlega sammála hverju orði í þessum pistli en því miður myndi ég ALDREI þora að hætta að borga. Af hverju? Af því að það mun aldrei fást nógu mikil samstaða til þess að ég kæmist upp með að borga ekki. Ef ég og þessir tíu aðrir sem eru svo hugrakkir myndu hætta að borga þá yrði okkur bara einfaldlega hent í fangelsi eða allar okkar eigur hirtar af ríkinu. Og hvar værum við þá stödd? Allavega ekki í neinum skárri sporum en við erum stödd í dag.
Auðvitað er ég bálreið og vildi svo gjarnan að þetta pakk myndi bera alla ábyrgðina á sínum gjörðum sjálft. Ég er bálreið yfir því að vera að koma með barn sem fæðist með 4,5 milljón króna skuld á bakinu – skuld sem það hefur svo sannarlega ekki komið sér í, en það er ekkert hægt að gera. Ráðamenn þjóðarinnar taka ekkert mark á mótmælunum frekar en neinu öðru. Þau hafa það of gott í hálaunuðu störfunum sínum og valsandi um í valdastörfum. Glætan að eitthvað breytist til hins betra.
Ég spái því líka að þegar það verða loksins kosningar þá mun helv … Sjálfstæðisflokkurinn sigra enn og aftur. Íslendingar eru fljótir að gleyma. Því miður.
Posted by: Jóhanna | 18.11.2008 | 16:50:01
———————————————–
Snilldarlausn, hætta bara að borga og á leysist málið ? Maður hefur nú heyrt margar sérstakar tillögur til lausnar vandanum en þessi er sennilega meðal top 5. Þetta mundi hafa alveg mögnuð áhrif því öll þjónusta ríkisins mundi leggjast af mjög fljótlega. Engin skólar, engir spítalar, ekkert atvinnulíf og þá hvað ?
Veistu ég held að byltingarandinn hafi farið aðeins of langt með þig þarna en vissulega skil ég að þú sért alveg bálreið og það eru líka allir aðrir. Þetta ástand er mjög slæmt og það á eftir að versna en það er alveg óþarfi að gera ástandið enn verra en það er. Ég er nokkuð viss um að við sjáum verulegar breytingar í stjórnmálum mjög bráðlega og loksins komist þínir menn í stjórn. Verður ekki allt betra með Steingrím Joð sem fjármálaráðherra ?
Posted by: Guðjón Viðar | 18.11.2008 | 20:00:16
———————————————–
Guðjón, hefurðu aldrei heyrt um verkföll? Hefurðu aldrei heyrt um boykött?
Ef fólk myndi sína samstöðu og hætta að borga myndi það þröngva stefnubreytingu upp á stjórnvöld. Það er pælingin á bak við þessa hugmynd Evu.
Maður verslar ekki við glæpamenn alveg eins og maður verslar ekki við Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen.
,,Verður ekki allt betra með Steingrím Joð sem fjármálaráðherra?“
Snúum þessari spurningu við. Hvað í fjandans andskotans heiminum gæti verið verra með Steingrím sem fjármálaráðherra?
Svaraðu nú Guðjón.
Posted by: Kristinn | 18.11.2008 | 20:09:17
———————————————–
Rök GVV gegn greiðsluverkfalli eru þau sömu og áður fyrr voru notuð gegn verkföllum.
Ég er reyndar ekkert viss um að Steingrímur J. Sigfússon sé hæfur til að gegna embætti fjármálaráðherra við þessar aðstæður (og reyndar er ég ekkert viss um að það sé yfirhöfuð á nokkurn mann leggjandi) og reyndar finnst mér að fagfólk ætti að gegna embættum ráðherra. Hitt er ég viss um að ef Steingrímur hefði gegnt þeirri stöðu undanfarin ár, þá hefði þessi gegndarlausa gróðahyggja ekki viðgengist.
Posted by: Eva | 18.11.2008 | 22:28:15
———————————————–
Að fara í verkfall er eitt, að allir hætti að borga skatta, greiða af lánum eða hvað eina ,það er allt annað mál. Ríkið á núna alla bankanna sem skipta máli, ríkið er við, borgarar þessa lands svo hverjum værum við að hætta að borga. Ríkið er ekki Geir Haarde eða aðrir pólitíkusar, þeir koma og fara en gerðir þeirra er það sem lagt er í dóm kjósenda. Þeir sem núna sitja að völdum voru í brúnni þegar skipið strandaði og því bera þeir alla ábyrgð að mínum dómi. Hvort að Steingrímur sé hugsanlega ekki verri en Árni, ég hef bara ekki hugmynd. Mitt traust á pólitíkusum ,eftirlitsaðilum og Seðlabanka er nánast ekkert um þessar mundir. Ég vona bara að við komumst inn í EB sem fyrst og getum látið Brussels eftir að stjórna þessum þáttum sem okkar eigin fólk virðist vera fullkomnlega óhæft til að stjórna.
Posted by: Guðjón Viðar | 19.11.2008 | 11:33:57
———————————————–
bankar eru stíflugarðar
peningar flæða í einu stóru fljóti
hringin og kringum babilon.
en ef við bara stofnum annað ríki
og breytum fljóti peningana kringum eitthvað annað en babilon
borgum reikningana í nýjan banka í nýju ríki..
jæja.. bara svona hugmynd sem verið er að spá í og spekulera með hvítum þjóðfána.
en fyrst verður auðvitað hver höndin og eða hendin upp á móti hvor annri og allt fer í vitleysu.
þetta er allt sama vitleysan.
en vonandi leysist þetta allt saman..
Posted by: gaddi | 19.11.2008 | 11:44:22
———————————————–
Þú virðist ekki skilja hugmyndina Guðjón.
Sjáðu nú til.
Ef engir peningar koma inn, þá lendir ríkisstjórnin í vandræðum. Svo miklum vandræðum að hún getur ekki leyft sér að eyða tímanum í kjaftavaðal, heldur þarf hún að finna út hvað þarf að gera til að fá fólkið til að borga.
Ríkisstofnanir verða óstarfhæfar og það skapar ennþá meiri þrýsting á ríkisstjórnina.
Þessi ríkisstjórn skilur ekki orðin ‘við viljum’, eða ‘þið eruð valdagírugt og gjörspillt pakk sem við viljum ekki hafa við stjórn lengur’ en hún mun sennilega fara að átta sig þegar ríkissjóður á ekki lengur fyrir ráðherralaununum.
Evrópubandalagið já, það var nú alveg eftir þér að vilja endilega troða okkur þangað inn. Því miður eru þeir of margir sem eru tilbúnir til að selja sjálfstæði okkar í von um að geta haldið innistæðulausu neyslukapphlaupi áfram. Svo gæti þó farið að við yrðum ekki bara valdalaust smápeð innan Evrópusambandsins, heldur valdalaust og bláfátækt smápeð.
Posted by: Eva | 19.11.2008 | 13:09:18
———————————————–
smápeðin… þeim á auðvitað að fórna, það er alltaf gert í skák, þegar allt er orðið patt og gambít. og við einstaklingarnir, einyrkjanir og litlu ehf.inn.. erum smápeðin.
en er ekki eitthvað peð komið það langt á leið að geta breytt sér í drottnigu?
það er verið að bloggast um byltingar og reka ríkisstjórnina og auðvaldsliðið út í viðey. þar sem þeir geta setið í viðeyjarstofu í einni stórrrarrri skuldasúpu. en við hin í nýju skuldlausu ríki..
En þetta eru líklega bara draumórar.
Posted by: gaddi | 19.11.2008 | 14:31:45
———————————————–
Ég er sammála fyrstu tjásu. Það mun enginn þora. Það er of mikið í húfi til að fólk þori að hætta að borga.
Ég held að það verði að fara af stað grasrótarhreyfing í hverju hverfi fyrir sig, áður en þetta verður einu sinn fjarlægur möguleiki.
Posted by: Jón Thoroddsen | 19.11.2008 | 14:34:38
———————————————–
það er freistandi að hætta að vera íslenskur borgari.
Posted by: baun | 19.11.2008 | 19:33:26
———————————————–
það þarf ekkert að hætta að vera íslenskur ríkisborgari..
það er til tveggja og þriggja og fjögurra ríkisborgara réttur.
Posted by: gaddi | 19.11.2008 | 23:51:33
———————————————–
Ég hef ekki ennþá gerst veðurfarslegur flóttamaður og það eru engar líkur á að ég flýji undan kreppunni. Ég mun hinsvegar íhuga það alvarlega að fara héðan ef landar mínir ætla að láta hjá líða að nota þetta gullna tækifæri til að losna undan stjórnkerfi þar sem of fáir menn hafa allt of mikið vald, komast endalaust upp með að halda mikilvægum upplýsingum leyndum og þurfa aldrei að axla ábyrgð á verkum sínum. Hvað ætli þurfi að ganga á til að þjóðin sé tilbúin til að gera eitthvað róttækara en að blogga?
Posted by: Eva | 20.11.2008 | 10:14:57
———————————————–
þegar auðnuleysingjunum eða atvinnuleysingjum fjölgar og þegar hungrið sverfur að þá gerir fólk eitthvað af öðrum forsendum en af hégóma og eiginhagsmuna reiði þar sem hver hendin er á móti annarri.. en ef magin kallar þá verður samstaða í því að fá magafylli.
þú varst nú úti í palestínu þar sem síonistar komu á fót ríki og síonistar eru líklegir til þess að nota fjármagn til þess eins að láta forna spádóma rætast og eða koma sínum hugsjónum í framkvæmd eins og t.d. fækka mannkyni í 500miljónir. það er talið að þeir hafi verið tilbúnir til þess að fórna 6 milljónum af eigin þjóðflokki í heimstyrjöldinni til þess eins að stofna ísraelsríki á ný.
já.. þeir dreifðu peningum um alla heimsbyggð. og allir fóru á fyllery en svo stoppuðu þeir peningafljótið til þess að ná framm markmiðum sínum.. síðan stjórna þeir ríkisstjórnum eins og strengjabrúðum með því að opna fyrir fljót peninga til vinstri eða hægri til þess að ná framm markmiðum sínum.
ég verð veðurfarslegur flóttamaður í januar febrúar. túristi í austurlöndum fjær.
Dreki á ári uxans í löndum drekans. núna fer ári músarinnar að ljúk á því ári á maður að vera kænn og gæta að sér í fjármálum.. en einmitt .. músin stelur gulli og peningum.. akkurat það sem gerðis. á ári uxans. er vinnusemi góð.
mér finnst samt best að horfa á þessa vitleysu úr fjarlægð bíða í vari eftir að stormin lægir. en stundum þurfa skip sem eru í vari að halda út til bjargar. en það þarf alltaf að huga að eigin öryggi fyrst og fremst áður en maður bjargar öðrum. það er kennt í björgunarskólanum.
1.ávallt skal huga að eigin öryggi
2. tryggja öryggi annara í nánasta umhverfi.
3. síðan skal huga að björgunaraðgerðum.
þannig er best að hugsa.
ég held að stjórnmálamennirnir sem nú stjórna hugsi einmitt svo..alveg sama hvaða blindi maður sé við stýrið
jæja. of langt mál komið hérna.
en gaman er að dansa á lyklaborðinu.. og láta fingurgóma um takka geysa.
Posted by: gaddi | 20.11.2008 | 10:42:06
———————————————–
ég meinti í þeim skilningi að hætta að borga
sá sem borgar er borgari
Posted by: baun | 20.11.2008 | 11:22:01
———————————————–
það þarf skotfæri í stríði.
það þarf að skipuleggja stríð vel.
skotfæri og varnarbúnaður í verkfallsstríði er margsskonar t.d. verkfallsjóður, þegar hann er orðin tómur þá koma aðrir erlendir og innlendir verkfallssjóðir inní málið og styrkja.
í verkfalli þá er notuð samstaða og einni höfn eða fleirum lokað.
ákveðnum verzlunum lokað.
hætt að þrífa sérstökum húsum.
ef það á að fara úti það að hætta eða stöðva það að borga. þá þarf að hafa vaðið fyrir neðan sig og eiga fyrir skuldunum annars tapar maður öllu. þessvegna þarf eitthvað svipað og verkfallssjóð.
annars er ég sammála Jóni hér í ofanverðri tjásu um það að það þarf að vera grasrótarhreyfing í hverju hverfi um að borga ekki.
það er öllu erfiðara fyrir stjórnvöld að eiga við heilt hverfi, heila blokk. eina götu sem ekki borgar. það er samstaða. en sundurleytur hópur ýmissa einstaklinga á víð og dreif um landið áorkar engu og það færi bara í þetta heilmikil orkusóun.
en annars ágætis hugmynd ef hún er framkvæmd rétt.
t.d. stór hópur ákveður að borga ekkert í nein opinbergjöld frá og með 1.des – 30 des.
ekki bara hætta að borga til eilífðar.
borga síðan eftir 1.januar. og eiga þá inní þessar ósóttu kröfur frá desember. en borga aldrei dráttarvexti.
það yrði að halda sér bókhald yfir þennan des og næstu mánuði. og reikna sjálfur hvað mað á að borga eftir 30.des. því þegar þa´er byrjað að borga þá rennur það ávallt uppí eldri kröfur nema maður fái það stimplað á greiðsluseðilin.
síðan er bara að bíða eftir að verða sóttur fyrir dóm.
og þá getur maður fengið að tja´sig við þriðja valdið í íslensku stjórnkerfi sem er dómsvaldið.
íslandi er skipt í þrjú valdsvið. forsetavald sem getur rofið þing og boðað til kosninga.
alþingi sem býr til lög. og er löggjafar þing.
dómsvald sem úrskurðar samkvæmt alþjóðlegum og íslenskum lögum þeir dæma oft stjórnvöldum í óhag.
síðan er oft talað um fjórða falda stjórn valdið sem er fjölmiðlavaldið.
til þess að vinna óvin, drepa dreka eða ófreskju þá þarf að þekkja óvin sinn vel.
ég mæli ekki með því að hætta að borga í fljótið strax. en það má fara að huga að því að borga í aðra átt, en þá þarf að byggja undir það peningafljót og skipuleggja vel.
góðir hlutir gerast hægt.
og ein lítil hneta verður að stóru tré.
það væri vel hægt að stofna banka, ehf. banka með smálánastarfsemi til að byrja með. svona neyðarlánum. eins og t.d. símalánin erlendis. sem komu sem betur fer ekki hingað með ofurvöxtum.
þeir sem skráðir væru í þann banka hefðu aðgang að öllum hreifingum. á netinu. já opin gegnsær einfaldur banki.
Ég hef oft hugsað um það að það sé einmitt ætlunin hjá þeim sem raunverulega stjórna heiminum að setja hér allt í kalda kol. en hvað þeir vilja veit ég ekki. en mig grunar. nokkrar ásæður.
ég tel að best væri að stofna nýtt ríki inní íslandi. og byggja þar upp lýðræði alveg frá grunni. sækja síðan þaðan.
annars getur engin stjórnað neinu hér á jörð af neinu viti nema einn. sem kemur í himnum, hugans jafnvægi. þar sem þrír eru. og já .. eða eins og SHiva. þriðja augað opnast. og það er ok og ef maður roteitar ok counter clockwise þá er þetta fornt kínverkst tákn sem þíðir hinn æðsti og í þessu forna tákni þá er þar hægt að lesa um að hann hinn æðsti stendur í jafnvægi ofan tveim.
ég mæli með bloggi jóns.
á mbl. prakkari.
ég ætla að vera bæði borgari og óborganlegur , skuldlaus sveitamaður og í þriðja lagi eitthvað sem ég hef bara ekki fest fótin í ennþá.
Posted by: gaddi | 21.11.2008 | 8:40:59
———————————————–
Það er auðvitað fínt ef grasrótarhreyfing myndast á hverjum stað en það er alls ekki nauðsynlegt. Það er mun betra að 100.000 manns á víð og dreif um landið taki sig saman um að borga ekki en að 10.000 manns í einu hverfi geri það sama.
Það þarf heldur enga sjóði til að standa undir þessu. Verkfallssjóðir voru stofnaðir vegna þess að fólk í verkfalli fær ekki útborgað á meðan á verkfalli stendur. Fólk í greiðsluverkfalli hefur hinsvegar meiri peninga milli handanna og að sjálfsögðu yrðu það skilyrði þess að byrja að borga aftur að dráttarvextir og vanskilagjöld á þeim tíma sem aðgerðin stendur verði felld niður og vitanlega að enginn verði lögsóttur.
Það eina sem er því til fyrirstöðu að gera þetta Garðar minn er hugleysið í fólki eins og þér sem alltaf finnur sér góða afsökun fyrir að taka ekki þátt í því að losa okkur undan valdníðslu og spillingu.
Posted by: Eva | 21.11.2008 | 11:02:22
———————————————–
hér er Ein spurning til þín EVA.
hugleysi vs hugrekki.
það eru til margar dæmisögur þar sem hugleysinu hefur verið snúið í hugrekki og öfugt.
að hafa vaðið fyrir neðan sig
vs.
að ana útí óvissuna.
góður skákmaður hugsar marga leiki framm í tíman.
mér datt nú aldrei í hug að ég væri huglaus vegna þess að ég reyni ávallt að hugsa framm á við til framtíðar.
mér hefur ekki reynst það happadrjúgt að ana útí óvissuna.
annars hef ég fréttir að færa.
drekarnir eru farnir að óttast verðhjöðnun eftir eða innan við tvö ár og jafnvel fyrr.
ég vil nú bara veg þinn sem bestan og vona að þú verðir ekki í fámennri sveit sem ætlar ekki að borga. ég tek ekki þátt í þrasi og þrætum. en ég er tilbúin til að rökræða hlutina. það eru meira en tvö ár síðan kreppan byrjaði hjá mér og ég gerði mér grein fyrir því að hér færi allt í kalda kol.
það var alltaf heimska að mínu viti taka myntkörfulán þegar dollar fór niður í 70kr og niður fyrir sextíu krónur þegar vitað var að dollar kostaði 115 krónur nokkru áður. og þessi evra.. sem er auðvitað bara þýskt mark. auðvitað var vitað að hún myndi lækka með aðkomu portugals spánar ofl. en núna er markið sennilega á réttum stað.
Ég veitað ég er huglaus að því leyti að ég hef aldrei getað staðið í rökræðum eða umgengist félagsfanta sem rasa um ráð framm að eigin hégóma. þessvegna hef ég tamið mér það að vera einfari í minni hugsun og farið dullt með skoðanir mínar.
Ég er ekki huglaus, en ég hef ákveðna félagsfælni sem ég get fullkomlega skilgreint þannig að ég kannski fylgi með í fjöldamótmælum en ég hef engan áhuga á því að trana mér framm fyrir fjöldan af hégómlegum hvötum. hins vegar ber mér skylda samkvæmt menntun og visku minni að gera eitthvað ef um allt þrítur.
Ég var á svo mikilli hraðferð síðast í gegnum vesturgötun að ég gleymdi að borga fyrir þessa tvo tebolla.
Hvað kostar tebollinn hjá þér?
Posted by: gaddi | 21.11.2008 | 13:32:33
———————————————–
Teið hjá mér kostar 200-250 kr, þ.e. þegar um er að ræða seyði af hágæða jurtum sem ég borga fyrir. Ég rukka ekki fyrir hvern bolla, þú færð ábót eins og þú vilt á meðan eitthvað er til enda þarftu að standa alllengi á þambinu til að ná upp í 200 kallinn.
Þegar ég aftur á móti er með te sem ég hef fengið að gjöf, eins og það sem þú fékkst hjá mér um daginn, þá kostar það ekkert.
Posted by: Eva | 21.11.2008 | 15:02:22