Gyðjan

Ég endurheimti gyðjuna mína í gær. Konan sem fékk hana að gjöf frá manninum sem bað mig að giftast sér kom til mín og skilaði henni. Það fannst mér huggulegt af henni.

Amma var óskaplega hrifin af gyðjunni. Pabbi gaf henni hana í afmælisgjöf þegar hún varð fimmtug en þá var hún búin að dást að henni lengi. Ég man að hún fór hvað eftir annað með mig í búðina þar sem hún fékkst, bara til að horfa á hana. Hún hefði samt aldrei sagt nokkrum manni að sig langaði að eiga hana, til þess var hún allt of dýr og amma bað aldrei um neitt handa sjálfri sér. Svo þegar við komum með hana til hennar, hundskammaði hún pabba fyrir að kaupa svona dýra gjöf.

Amma var vön að skipta því sem við gáfum henni fyrir eitthvað annað. Ýmist af því að hana vantaði það ekki eða af því að það var of dýrt og hægt að fá eitthvað tvennt eða þrennt í staðinn fyrir það. En hún skilaði ekki gyðjunni. Skammaði bara pabba í hvert sinn sem hann kom í heimsókn næsta árið.

Gyðjan hefur alltaf minnt mig á gildi þess að kunna að þiggja og á gildi þess að hlusta á óskir sem ekki eru settar fram sem óskir. En mér finnst einhver annar blær yfir henni núna.

 

 

One thought on “Gyðjan

  1. —————————————————-

    Gyðjan tengist þér, gyðjunni í þér, þess vegna kemur hún aftur. Ætli þú eigir ekki eftir að eignast stelpu, gyðju. 🙂 Vonandi.

    Posted by: G | 24.02.2007 | 2:55:32

    —————————————————-

    Það vona ég sannarlega ekki. Þar sem ég hef nákvæmlega enga löngun til að eignast fleiri börn og er auk þess búin að gangast undir ófjósemisaðgerð til að tryggja mig gegn frekari þátttöku í fjölgun mannkynsins, tek ég það aukinheldur afar ólíklegt. Annars veit maður aldrei. Heilagur andi hefur líklega þörf fyrir tilbreytingu eins og þeir sem gerðir eru eftir hans mynd og ég hugsa að við María séum frekar ólíkar.

    Posted by: Eva | 24.02.2007 | 9:11:10

    —————————————————-

    Gott að hún er komin til þín. Passaðu hana vel og ekki láta einhverja drulludela passa hana.
    Love u

    Posted by: Hullan | 24.02.2007 | 14:39:49

Lokað er á athugasemdir.