Gott

Fyrir einu ári ákvað ég að galdra til mín frábæran mann sem ég yrði bálskotin í. Ég hafði galdrað til mín marga áður, bæði fávita og líka mjög góða og almennilega menn en ég bara varð ekkert skotin í þeim góðu og þar sem ég á fávitafælu urðu engin sambönd úr þreifingum fávitanna.

Ég kastaði ástargaldri og bjó mér til kort af alvöru karlmanni. Setti inn á það um 20 ófrávíkjanleg skilyrði og 230 óskir til viðbótar. Að vísu voru væntingar mínar á köflum svo nálægt skýjunum að ég reiknaði beinlínis með einhverjum afföllum og sumt var ekki mikilvægt heldur meira fyrir sjálfa mig til að skýra myndina. Hann átti t.d. að hafa litlar hendur en hefði ég fundið verulega góðan og skemmtilegan mann, hefði ég auðvitað ekki sett hendur á stærð við ruslatunnulok fyrir mig.

Ég sé ekki betur en að ég sé búin að finna þann sem ég lýsti. Að vísu eru smávægileg frávik að koma í ljós en þau eru undarlegt nokk í jákvæða átt ef eitthvað er. Þegar ég skrifaði: elskar mig og sýnir það; sá ég t.d. fyrir mér að hann byði mér kannski út að borða, héldi í höndina á mér á almannafæri og hvíslaði að mér ástarorðum af og til. Það hvarflaði hins vegar ekki að mér að hann myndi byrja daginn á yfirlýsingum um hvað sé notalegt að kúra hjá mér (ég er ekkert girnilegri nývöknuð en gengur og gerist) og vaða svo út til að sópa snjóinn af bílnum mínum. Ég hélt í alvöru að slíkir menn væru bara til í ævintýrum. Satt að segja snertir það mig dýpra að fá óumbeðna þjónustu með geislandi brosi og elskulegheitum en rómantískt kvöld á veitingahúsi en ég hef svo sannarlega fengið þau líka! (Já og bara til öryggis P. taktu þessu ekki sem hinti um að þú eigir að hætta því.)

Málið er að þegar ég skrifaði kemur fram við mig eins og drottningu, vissi ég ekki almennilega hvað það þýddi. Ég veit það núna.
Hvernig segir maður violently happy á almennilegri íslensku?

 

One thought on “Gott

 1. ————————-

  Falleg lesning, til hamingju bæði.

  (Kemst ‘óumræðilega glöð’ ekki ágætlega nálægt? ‘tryllingslega’ á nýíslensku)

  Posted by: Halli | 24.01.2008 | 14:09:36

  —   —   —

  frábært – þýðir það ekki bara að vera ástfangin, allavega í þessu tilviki?

  Posted by: inga hanna | 24.01.2008 | 16:34:09

  —   —   —

  Brjálæðislega hamingjusöm og mátt líka vera það. Það er nefninlega ekkert smá frábært að hafa fundið manninn sem gerir hversdagshlutina með glöðu geði, óumbeðinn. Minn er líka svoleiðis og ég held ég elski það langmest af öllu í honum.

  Posted by: Kristín | 24.01.2008 | 18:19:49

  —   —   —

  Þetta er greinilega fínn maður og hann hlýtur að vera ánægður með þig fyrst hann er svona góður við þig.

  Posted by: RH | 24.01.2008 | 21:50:04

Lokað er á athugasemdir.