Ekkert svo djúpt grafið

Mér fannst það þversagnakennt. Hálfgerð ráðgáta. Ekki var hann bældur og inní sig, svo mikið var víst, enda missti ég áhugann á því að verða sálfræðingur fyrir margt löngu og held að ég þyrfti verulega stórt áfall til að nenna að eiga bældan kærasta.

Ég kom því ekki alveg heim og saman að maður sem átti ekki í neinum vandræðum með að halda uppi hrókasamræðum við ókunnugt fólk, var greinilega nógu sjálfsöruggur til að sýna viðkvæmar tilfinningar af fyrra bragði og án sérstakar hvatningar og hafði til að bera hugrekki til að ræða helstu veikleika sína afdráttarlaust, segði samt nánast aldrei neitt um sjálfan sig óspurður.

Kannski var það fortíðardraugur. Kannski hafði hann orðið fyrir hroðalegu áfalli í æsku, einhverju sem rifjaðist upp og nísti hjarta hans í hvert sinn sem hann notaði orðið ‘ég’. Kannski hafði hann eitthvað að fela og var hræddur um að koma upp um sig ef hann kæmist á flug í ævisögunni. Mér fannst að vísu ótrúlegt að hann væri með niðurgrafið lík í garðinum en það gat svosem verið eitthvað…

Sá sem talar ekki um sjálfan sig hlýtur að eiga við einhver vandamál að stríða. Ekki er hann á túr svo það hlýtur að vera eitthvað alvarlegt, hugsaði ég. Ég gerði nokkar varfærnislegar tilraunir til að veiða leyndarmálið upp úr honum en hvernig sem ég plottaði og pældi var ég engu nær. Ég hef velt þessu fyrir mér fram og til baka og var satt að segja lögst í internetleit að fyrirbærinu „menn sem virðast tilfinningalega opnir og öruggir en tala samt ekkert um sjálfa sig“ með engum árangri. Undarlegt nokk datt mér samt ekki í hug að spyrja viðfang pælinga minna. Um að gera að leita langt yfir skammt. Svarið við ráðgátunni um dularfulla, sterka manninn kom svo til mín eins og af tilviljun fyrir nokkrum dögum:
-Ég er alveg til í að segja þér það sem þú spyrð um en ég hef kannski ekki mikið frumkvæði að því að ræða sjálfan mig. Ég hef bara ekkert það gaman af því sem eru engar nýjar upplýsingar fyrir mig, sagði hann og vottaði ekki fyrir neinum leifum af djúpstæðum sársauka úr frumbernsku, hvorki í rödd hans né augum.

Jamm. Og þar hafið þið það. Sumt fólk fær mest út úr því að skoða eitthvað nýtt og nennir t.d. ekki að sjá sömu bíómyndina tvisvar. Ég aftur á móti hef yndi af því að sjá nýja fleti á gömlum hlutum. Ég er ekki búin að sjá kvikmynd fyrr en ég hef horft á hana þrisvar sinnum og rætt hana við fimm manns með misjafnar skoðanir á henni. Það var semsagt ekkert annað en þessi ólíka sýn á skemmtanagildi sjálfsævisagna sem ruglaði mig í ríminu en ég hafði fallið kylliflöt fyrir kvenlegri tilhneigingu minni til að álykta að djúpar sálfræðilegar flækjur liggi á bak við allt sem kemur mér á óvart.

Semsagt, geðbólgufrítt eintak. Það hlýtur að vera mikill fengur. Ég get þá líklega sleppt því að verða mér úti un skóflu og stinga upp bakgarðinn hjá honum.

 

One thought on “Ekkert svo djúpt grafið

  1. —————————————

    Ég myndi samt stinga upp garðinn til öryggis. Og ef hann segir satt þá hlýtur hann að vera gæslumaður hins heilaga Graals og slíkt djásn er nú ekki ónýtt að grafa upp.

    Posted by: Unnur María | 22.01.2008 | 22:44:36

Lokað er á athugasemdir.