Góð leið til að styrkja menninguna

Ég býst við að mörgum komi það nokkuð á óvart en ég er almennt ekkert hrifin af því að ríkið styrki listir. Ennþá síður vil ég að auðmenn geri það. Listamenn hafa nefnilega í mörgum tilvikum pólitísku hlutverki að gegna og þessvegna má enginn sem hefur hagsmuna að gæta, hafa fjárhagslegt tangarhald á þeim.

Núna er hinsvegar komin í gang umræða um að styrkja menninguna einmitt á þann hátt sem mér finnst rétt. Það yrði allan hátt jákvætt ef tekjulágt fólk fengi frítt eða mjög ódýrt í leikhús, á tónleika, danssýningar o.fl. Það kostar sáralítið að gefa fólki kost á að nýta sæti sem annars væru ónýtt, svo ekki eykur þetta útgjöld ríkisins að ráði. Listamenn missa í raun ekkert höfundarlaun við þetta því þeir fá hvort sem er ekki blankt fólk á svona viðburði en þegar húsfyllir er kvöld eftir kvöld, þá eykur það í sjálfu sér aðsókn. Áhugi ríka fólksins hlýtur að aukast þegar sýningar og tónleikar fá mikla umfjöllun, og því fleiri sem mæta, tala og blogga, því meiri auglýsing. Auk þess er hvetjandi að spila/sýna fyrir fullum sal

Best af öllu er svo að það vinnur á móti þunglyndi og aumingjaskap að eiga kost á menningu og ég gæti trúað að aukin aðsókn atvinnulausra og lágtekjufólks, hvetji líka til pólitískar listar.

Ég vona virkilega að verði af þessu.