Frí

Í dag var ég í fríi. Þ.e.a.s. ég var ekki í vinnunni. Ég mokaði út úr herbergi Ygglibrúnarinnar og úr geymslunni. Báðar þessar vistarverur voru svo stútfullar af drasli að ég varð að ryðja mér leið inn. Byrjaði kl 9 í morgun, tók mér samtals tveggja tíma hlé með matartíma og var að setjast viður rétt í þessu.

Tvö bílhlöss af drasli farin út og meira eftir. Prinsinn kemur heim á morgun, mun að vísu stoppa stutt en ég reikna fastlega með geðbólgu og taugadrullu yfir aðkomunni. Hann verður alltaf svo öryggislaus þegar hann sér herbergisgólfið sitt þessi elska.

Á morgun verð ég líka í fríi. Þá ætla ég að klára tiltektina og taka svo bókhaldið í gegn. Hæfileikar mínir til að njóta frístunda hljóta að vera í sérflokki.