Ég hef haldið því fram að þrátt fyrir að nokkuð hátt hlutfall kvenna hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi, merki það ekki að nauðganir séu viðurkennd hegðun meðal venjulegra karla. Ég hef neitað því staðfastlega að nauðgarar séu ósköp venjulegir menn og horft til þess hversu algengt það virðist að nauðgarar séu stórtækir. Ég hélt að það væri sjaldgæft að menn prófuðu nauðgun svona einu sinni upp á grínið og kæmust að því að það höfðaði bara ekki til þeirra. Hef því verið sannfærð um að hlutfall nauðgara sé mjög lágt.
Það lítur út fyrir að ég hafi haft rangt fyrir mér. Um daginn var mér bent á rannsóknir Davids Lizak, prófessors sem segir að menn, sem í nafnlausri könnun játi á sig hegðun sem flokkast samkvæmt laganna skilningi sem kynferðisofbeldi, séu tæplega 6,4 af hundraði. Semsagt einn af hverjum sextán. Mér finnst þetta allt of há tala og mín fyrstu viðbrögð voru þau að líklega væri þessi fræðimaður álíka marktækur og Melissa Farley sem kallar skáldsögður sínar rannsóknir enda þótt engar vísindalegar aðferðir hafi verið viðhafðar. Ég hef ekki skoðað rannsóknir D. Lisak ofan í kjölinn en í fljótu bragði sýnist mér að hann standi undir sínum doktorstitli. Það er því best að horfast bara í augu við það að líklega eru nauðgarar í vinahópnum, fjölskyldunni og meðal vinnufélaganna. Við getum reiknað með að tveir til þrír nauðgarar sitji á þingi og að meðal öðlinganna sem skrifuðu pistla á þorranum sé einn og þó sennilega fekar tveir nauðgarar.
Ég hef þó ekki einungis haft óhóflegt álit á karlkyninu heldur trúði ég því líka að konur væru almennt sæmilega vel innrættar. Ég hef t.d. trúað því gagnrýnislaust að hlutfall falskra sakargifta í kynferðisbrotamálum væri eins og í öðrum málaflokkum á bilinu 1-2% líklega frekar í lægri kantinum.
Mér yfirsást það augljósa. Í flestum málaflokkum eru falskar sakargiftir sjaldgæfar, bæði vegna þess að til þess að bera einhvern sökum þarf glæpur hafi verið framinn en einnig vegna þess að mótív þeirra sem koma sök á mann, er oftast það að hlífa sjálfum sér eða einhverjum öðrum. Falskar sakargiftir í morðmálum þjóna t.d. oftast þeim tilgangi að koma sök af þeim sem er raunverulega sekur. Það mun hinsvegar fátítt að menn séu ásakaðir um morð þar sem ekkert morð hefur verið framið. Sviðsett innbrot og þjófnaðir þjóna oft þeim tilgangi að ná peningum út úr tryggingafélögum eða bótum frá hinu opinbera og í slíkum málum er sjaldan til bóta að einhver ákveðinn maður sé borinn sökum. Það er auðveldara að saka mann ranglega um kynferðisofbeldi en flesta aðra glæpi. Það er ekki auðvelt að fá hann dæmdan en það er auðvelt að eyðileggja mannorð hans. Og jú ég hef heyrt þetta allt saman áður en ég trúði því ekki. Ég trúði því ekki að það væri algengt að konur bæru menn röngum sökum, enda þótt þær væru í aðstöðu til þess. Ég hélt að aðeins mjög sjúkar konur hegðuðu sér á þennan hátt.
Ég hafði rangt fyrir mér. Allavega kemst sami vísindamaður, David Lisak að því að í kynferðisbrotamálum séu 5,9% ákæra falskar. Semsagt ein af hverjum sautján. Hversvegna í fjandanum finnst sumum konum í lagi að leggja fram falska kæru? Hvað er það í samfélagsgerð okkar sem býður upp á það?
Ég hélt að hvortveggja væri sjaldgæft, karlar sem nauðga og konur sem ljúga upp nauðgunum en þessi vandamál virðast algengari en ég hélt. Nú eru í gangi ýmsar aðgerðir til að taka á öðru þessara vandamála. Dómar í kynferðisbrotamálun hafa þyngst. Massivur áróður í tengslum við útihátíðir. Karlar skrá sig í kynjafræði og setja ofan í við vini sína þegar þeir segja nauðgunarbrandara eða sýna aðra karlrembuhegðun. Það er gott mál, verulega gott mál. Mér finnst þetta tiltæki aftur á móti frekar vafasamt. Held að mörgum af þessum ríflega 93 körlum af hverjum hundrað sem ekki nauðga konum finnist frekar svona ergilegt að talað sé niður til þeirra á þennan hátt og gæti líka trúað því að þessir 6-7 sem þurfa á skilaboðunum að halda hafni þeim þegar þau eru sett fram á þennan hátt. En semsagt, það er verið að taka á öðru vandamálinu og við getum þakkað feministum það.
Spurningin er hvernig við ætlum að taka á hinu vandamálinu, konum sem ljúga?
Vonandi ekki með því að dreifa jólaóskum um að konur hætti að ljúga upp nauðgunum.
Vonandi ekki með minnismiðum með áletunum á borð við: ,,Þegar karlmaður slítur sambandi við þig -ekki saka hann um nauðgun“ eða „Þegar karlmaður vill njóta eðlilegrar umgengni við börnin sín -ekki saka hann um nauðgun.“
Vonandi ekki með því að hamra á því að „venjulegar“ konur beri ofbeldisglæpi á menn að ósekju, flestar okkar gera það nefnilega ekki og sjá það ekki sem eðlilega hegðun þótt sé áreiðanlega jafn erfitt að þekkja lygarana úr eins og nauðgarana úr hópi venjulegra karla.
Vonandi ekki með því að taka upp öfuga sönnunarbyrði gagnvart röngum sakargiftum, þannig að hægt verði að dæma konu sem kærir nauðgun fyrir ljúgvitni nema hún geti sannað sitt mál.
Baráttan gegn kynferðisofbeldi hefur gert alla karla tortryggilega en óstaðfest er að hún hafi dregið úr tíðni nauðgana. Kannski væri hægt að snúa þessu við, draga úr tíðni ofbeldis en ganga líka út frá því að karlmenn kunni að hegða sér. Ég veit ekki hvernig en allar hugmyndir eru vel þegnar. Vonandi er líka hægt að taka á röngum sakargiftum án þess að gera konum það ennþá erfiðara fyrir að segja frá kynferðisofbeldi. Við vitum allavega að ofuráhersla á frávikin, útskúfun þeirra úr mannlegu samfélagi og stöðug tortryggni gagnvart helmingi mannkynsins er ekki líkleg til að uppræta hatursfulla hegðun.
Uppfært: Þegar allt kemur til alls er rannsókn Lisaks ekki eins áreiðanleg og ég hélt.