Ég held að það hafi verið í janúar sem einhver ahugasemd á fb varð til þess að ég fór að ræða staðalmynd feministans við vin minn. Þetta var ekkert á grófleikaskala Gillzeneggers en einhver sem fannst tiltekin kona sem kennir sig við feminisma ekki nógu skapgóð, sagði eitthvað í þá veruna að þessar mussukerlingar fengju greinilega ekki nóg heima.
Mér rann í skap. Í fyrsta lagi hef ég ekki séð feminista í mussu síðan 1978, svo sú staðalmynd er á ekki við annað að styðjast en ríflega 30 ára gamla tískubólu. Í öðru lagi hef ég aldrei séð neitt sem rennir stoðum undir þá kenningu að orsakasamband eða einu sinni fylgni sé milli feminiskra viðhorfa og kynferðislegrar ófullnægju, né heldur á milli kynhegðunar og skaplyndis.
Vini mínum fannst þetta bara vera góðlátlegt grín, óþarfi af mér að túlka þetta komment sem merki um kvenfyrirlitningu. Hann benti mér á að stundum væri nú líka talað um að geðstirðir karlar væru haldnir brundfyllisgremj og taldi þetta alveg sambærilegt. Já, á yfirborðinu eru líkindin nógu mikil til að blekkja þá sem aldrei hafa hugsað þetta dýpra. En það er aðeins yfirborðið sem er líkt, þegar nánar er að gætt er geðstirði feministinn sem hefur bara aldrei fengið alvöru tittling og karlinn með brundfyllisgremjuna, alls ekki sami brandarinn.
Til að skilja muninn á þessu tvennu er gott að skoða hvað það er sem gerir meinlegan húmor fyndinn. Ég hef reyndar sérviskulega kímnigáfu sjálf, hef t.d. takmarkaðan húmor fyrir kynþáttahyggju, slysum og ofbeldi en engu að síður skil ég oft hvað það er sem fær fólk til að hlæja. Tökum sem dæmi ósmekklegan sjúkdómahúmor:
Siggi litli: Já en mamma af hverju fæ ég engar jólagjafir eins og þið hin?
Mamman: Siggi minn þú veist að þú ert með kabbamein, Það borgar sig ekkert að vera að kaupa gjafir handa barni sem er að deyja.
Mér finnst þetta reyndar ekkert fyndið en ég skil húmorinn. Skil hann vitrænt séð þótt ég skynji hann ekki. Húmorinn felst í fáránleika þeirrar hugmyndar að taka hagkvæmnissjónarmið fram yfir foreldraást. Svona nokkuð myndi ekki gerast í siðuðu samfélagi nema þá hjá ótrúlega sjúku fólki. Tilfinningakuldi verður fyndinn þegar hann er settur í nógu fjarstæðukennt samhengi.
Nú en það þá ekki sami fáránleikinn sem naugðunarhúmorinn felur í sér? Varla heldur fólk að Gilligillhæhlæ sé í alvöru búinn að ráða einhverja vel vaxna halanegra til að hamra femnismann úr vinstri sinnuðum geðillskupúkum?
Nei, ég held ekki að þeir séu margir sem beinlínis skilja þennan nauðgunarhúmor sem hótanir en alvaran sem býr að baki þessu gamni er ekki léttvæg. Raunveruleikinn er nefnilega sá að kynferðislegt ofbeldi er í alvöru notað til að refsa konum, meiða þær, niðurlægja og þagga niður í þeim. Það er ekki bara af einn og einn geðveikur glæpamaður sem lítur á nauðganir sem stjórntæki heldur er kynferðislegt ofbeldi einnig notað kerfisbundið, bæði innan ákveðinna menningarkima (gengja) og jafnvel með samþykki yfirvalda. Nauðganir eru í alvöru notaðar t.d. í hernaði, ekki bara til að refsa konum heldur einnig til að brjóta niður sjálfsmynd karla sem horfa upp á hermenn nauðga konum sínum, dætrum, systrum og mæðrum án þess að geta verndað þær. Nauðgun er ekki fáránleg hugmynd, heldur raunverulegt ofbeldi sem á sér stað daglega. Karlmenn verða líka fyrir kynferðisofbeldi, einkum í fangelsum og slíkum aðstæðum þar sem þeir eru algerlega varnarlausir en þegar karlmanni er nauðgað er sterk hefð fyrir því að túlka það sem skilaboð um að hann standi ekki undir þeirri virðingu sem alvöru karlmenni á heimtingu á, hann er kelling eða tík og nauðgun er góð leið til að koma honum í skilning um valdleysi sitt. Kvenfyrirlitning er þannig undirrót kynferðisofbeldis, jafnvel þegar það beinist gegn körlum.
Nú felur góðlátleg athugasemd um að geðillska hljóti að standa í sambandi við lélegt ástalíf, ekki í sér hótun og ef jafnrétti ríkti milli kynjanna myndi ekki skipta máli hvort maður lætur slíka athugasemd falla um konu eða karl. En jafnrétti er ekki náð. Það hallar á bæði kynin. Karla á sumum sviðum, konur á öðrum og hvað kynfrelsi varðar hallar á konur, jafnvel í vestrænu samfélagi. Frá náttúrunnar hendi er sterk tenging milli árásarhneigðar og kynhvatar (hver sem hefur séð dýr para sig veit hvað ég á við) en við búum hinsvegar við menningu sem stefnir blessunarlega í átt frá því frumstæða eðli sem leyfir sumu fólki að ríkja yfir öðru í skjóli líkamlegra yfirburða. (Að vísu ríkja hinir sterku nú yfir hinum veiku í skjóli arðráns og spillingar og það er kannski ekkert skárra en ég held að við getum flest verið sammála um að fólk eigi, óháð kyni, rétt á að að stjórna sínu kynlífi sjálft.) Það tekur fleiri en 3-4 kynslóðir að losna við þessa tengingu og orðræðan um ófullnægju feminista og ráðin til að bæta úr meintri geðillsku þeirra, afhjúpar tilhneigingu okkar til að líta á kynmök sem aðferð til að treysta valdatengsl.
Þegar húmor af þessu tagi er viðhafður eru mörkin á milli þess að gera konunni gott og refsa henni óljós. Jafnvel þegar hugmyndin er orðuð af gríni fremur en grimmd, býr undir sama hugmynd og þegar við tölum um að óþekk börn þurfi ástúðlegan aga. Hugmyndin er ekki sú að ofbeldi sé beinlínis góð hugmynd heldur að það þurfi að ríða konunni til þess að setja henni mörk og sætta hana við stöðu sína sem undirsáta karlmannsins, á sama hátt og væg valdbeiting er notuð til að gera barni ljóst að það séu foreldrarnir sem ráði. Þegar strákarnir á verkstæðinu hinsvegar gantast með það að hann Gummi þurfi að losna við brundfyllisgremjuna til að verða viðræðuhæfur, þá eiga þeir ekki við að konan hans (hvað þá ókunnugur blökkumaður) eigi að aga hann í því skyni að lækna hann af óæskilegum skoðunum og sýna honum hver ræður. Hugmyndin er öllu heldur sú að hann þurfi tækifæri til að slaka á spennunni og staðfesta karlmennsku sína, einmitt með því að ‘sprengja í kerlingu’. Hugmyndin um að treysta valdatengsl kraumar undir yfirborðinu og þrátt fyrir yfirborðslíkindi spaugsins er það í báðum tilvikum sú hugmynd að karlinn eigi að ríkja yfir konunni sem er að verki.
Ég er frekar svona skotin í tjáningarfrelsinu og fráleitt að ég vilji uppræta húmor sem snýr að samskiptum kynjanna, feminisma eða ofbeldi. Feministar eru ekkert heilagari en annað fólk og það má alveg gera grín að þeim. En ég bendi ykkur á, þið ágætu karlmenn sem í gamansemi sláið því fram að viðhorf feminista standi í sambandi við dapurlegt kynlíf þeirra, hafið það í huga að jafnvel þótt þið séuð að öllu leyti andvígir ofbeldi og mynduð manna fyrstir vaða af stað með kindabyssu ef þið vissuð af nauðgara í nágrenninu, þá eruð þið að hafa í flimtingum veruleika sem flestar, ef ekki allar konur rekast einhvern tíma á. Veruleika þar sem kynlíf er notað sem aðferð til að treysta yfirráð.
——————————
Ofurkarlrembur, öfgakarlrembur, karlrembur & aðrir dónar baula stöðugt á öll jafnréttis sjónarmið í raun er Saudi Arabía þeirra draumaland
Posted by: Tryggvi | 5.07.2011 | 11:41:46
——————————
Takk fyrir þetta, Eva!
Posted by: hildigunnur | 5.07.2011 | 19:43:43