Í gærkvöld hélt ég erindi í Friðarhúsinu. Efnið var nýnazismi. Ég gerði smá könnun fyrir sjálfa mig í tengslum við kvöldið. Ég hafði sérstaklega samband við 20 manns á fb til að vekja athygli á fundinum, 10 konur og 10 karla sem ég var handviss um að hefðu áhuga. Í tveimur tilvikum bað ég þá sem ég sendi póst að láta maka sinn vita líka.
3 karlar og 4 konur höfðu ekki svarað mér á sunnudag og 3 karlar og 6 konur höfðu afþakkað (ekki af áhugaleysi heldur vegna anna og/eða veikinda.) Ég bauð öðrum 6 körlum og 10 konum til viðbótar. Laust eftir miðnætti aðfaranótt mánudags höfðu 5 konur til viðbótar látið vita að þær kæmu ekki og 2 karlar voru óvissir. Ég bauð 5 konum og 2 körlum í viðbót með þessum litla fyrirvara.
Ég bauð semsagt sérstaklega 26 konum (þ.a. einni í gegnum maka) og 19 körlum (þ.a. einum í gegnum maka.)
Af þeim sem ég bauð mættu 6 karlar og þrjár konur. Af þeim sem sögðust ætla að mæta en mættu ekki var 1 karl og 1 kona. Ég taldi ekki aðra gesti en mæting var mjög góð og karlar greinilega í miklum meirihluta, það virðist ekki einu sinni þurfa að bjóða körlum sérstaklega til að þeir láti sjá sig á fundum grasrótarhreyfinga.
Spurningin er, hverjum er það að kenna að svo fáar konur mættu?
Þegar þetta er skrifað eru færslur dagsins skv bloggáttinni 80 greinar eftir karla, 23 eftir konur ef vefrit sem birta fréttir af öðrum miðlum og annað efni sem ekkert nafn er við eru ekki meðtalin. Vefirnir bleikt.is og Pjattrófurnar slaga hátt í að vega á móti öllum hinum.
Á hinni jafnréttissinnuðu Smugu eru bloggpistlar á fremstu síðu 14 eftir karla 6 eftir konur. Aðsendar greinar fremsta síða; fjórar eftir karla 3 eftir konur, restin ekki á hreinu. Á forsíðu fastra penna eru 9 greinar eftir karla, 1 eftir konu.
Spurningin er hverjum er það að kenna að konur birta svo miklu færri greinar en karlar?
Hildur Lilliendahl er enn ekki farin að lesa fréttablaðið. Ég les það ekki heldur en ástæðan er nú aðallega sú að mér finnst lágt hlutfall af efni þess áhugavert.
Spurningin er þessi: Hverjum er það að kenna að konur eru svona lítið áberandi í fréttablaðinu eða ef því er að skipta fjölmiðlum almennt?
Umræður um pistilinn:
Hver sem skýringin er, þá er ástæða til að breyta þessu, allavega ef við teljum æskilegt að fulltrúar fleiri samfélagshópa en jakkafatakarla hafi áhrif á mótun samfélagsins. Fjölmiðlar þyrftu að hafa það dálítið í huga og ég leyfi mér að efast um að það séu bara nánast engar konur að gera neitt áhugavert, en ég held að þurfi meira til að breyta þessu.
Posted by: Eva | 12.10.2011 | 18:33:58
Ég var nú bara of löt til að nenna að dúða mig fyrir strætóferð niður í bæ, og afsaka mig því með veikindum.
Posted by: Tinna Gígja | 12.10.2011 | 20:07:53
Ég held að spurningin sé rangt sett fram. „Hverju eru um að kenna?“ er, að mínu viti betra orðalag. Ég leyfi mér að benda á vitnisburð Melkorku, sem er mjög fær tónlistarkona, hér: http://www.knuz.is/2011/10/urr-hu-og-fotboltafar.html
Ég vildi óska þess að gerð væri almennileg rannsókn á tilraunum kvenna til að komast í fjölmiðla, í staðinn fyrir að trúa alltaf blaðamanninum sem segir að konur neiti því að koma. Gæti það kannski verið að hann hringi endrum og sinnum í eina konu og finnist það rosalegir tilburðið til jafnréttis, en muni ekkert eftir endalausum hringinum í „strákana“?
Mér sýnist sumir níða niður félagsfræðilegar rannsóknir (sem byggja iðulega á spurningum sem beint er að rannsóknarefninu sjálfu) þegar útkoman hentar þeim ekki, en hika síðan ekki við að nota frasa eins og þetta með að „erfiðara sé að fá konur í viðtöl“ sem hlýtur eiginlega að vera útkoma úr rannsókn, líklega framkvæmd af BA-nema í fjölmiðlafræði. Eða hvað? Byggjast niðurstöður kannski eingöngu á því sem Egill Helga hefur haldið fram?
Posted by: Kristín | 13.10.2011 | 15:00:30
Ég hélt nú lengi að konur hefðu verra aðgengi að fjölmiðlum en karlar. Ég sannfærðist um að ástæðan væri einhver önnur þegar ég áttaði mig allt í einu á því einhverntíma um mitt ár 2009 að ég var alveg hætt að lesa blogg kvenna. Hlutföll bloggara voru nefnilega jafnari áður en persónulegu bloggin fluttust yfir á fb. Þegar bloggið hætti að vera persónuleg dagbók og varð fyrst og fremst vettvangur fyrir samfélagsrýni, hættu konur að blogga. Mér finnst það mjög slæmt og sé það ekki sem lausn að skamma fjölmiðla. Ég er ansi hrædd um að á meðan flestar konur hegða sér eins og þær séu „the second sex“ þá verði sá veruleiki við lýði. Þessvegna vildi ég frekar sjá umræðu um það hvað við getum gert til að hvetja konur til að láta til sín taka. Og kannski ekkert bara konur. Hversu mikið vægi fær meðalkarlinn í fjölmiðlum? Ég sé ekki betur en að fréttir snúist um pólitíkusa, bissnisskarla, skúrka og afreksmenn. Er það kannski af því að hann Jón á dekkjaverkstæðinu sé jafn óspennandi og kona?
Posted by: Eva | 13.10.2011 | 18:22:42
Einhverra hluta vegna virðast karlar virkari í umræðunni, blogga meira og oftar um pólitískari efni. Það virðist í það minnsta vera niðustaðan af ítrekuðum athugunum þínum. Það að karlar séu virkari í þess háttar málum er kannski að sama skapi að hluta skýringin á því að minnst er á þá mun oftar en konur í Fréttablaðinu.
Spurningin er hvort það hefur nokkur áhrif á það ástand að reiðast Fréttablaðinu og neita með táknrænum hætti að lesa það.
Hvort sem um einhvern eðlismun, félagslegt ástand eða bæði er að ræða er ljóst að það er hægt að ráðast í allskyns tilraunir til að skilja ástandið, en mörg svör virðast þó gjarnan fyrirfram vera tekin af borðinu því þau eru móðgandi í eyrum femínista.
Segjum t.d. að það eitt að alast upp sem líkamlega sterkara kynið (í vestrænu samfélagi) hafi þau sálfræðilegu áhrif að karlar hafi meiri dirfsku í samfélagsumræðu. Eitthvað sjálfstraust sem konur hafi ekki í sama mæli.
Þetta er bara kenning út í loftið. En ef sönn, er þá yfir einhverju að reiðast og er þá yfir höfuð vitrænt að ætlast til þess að hlutföllin séu jöfn? Þótt það hljómi vel og megi vitaskuld mjög gjarnan vera það.
Það sem ég er að ýja að, er að ef skýringin er eitthvað annað en rótgróinn áhersla karlmanna á karlmenn, er það þá eitthvað sem femínistar geta sætt sig við, eða verður skýringin alltaf látin vera þess eðlis að það má halda áfram að ergja sig á feðraveldinu og forpokuðum viðhorfum miðla?
Grein á skemmunni, sem er áhugaverð:http://skemman.is/handle/1946/2165
Posted by: Kristinn | 12.10.2011 | 5:46:06