En að fara öfuga leið og ná inn gjaldeyristekjum?

plakat

Ný lög gengin í gildi. Lög um að menn sem gauka peningum eða öðrum verðmætum að hjásvæfum sínum skuli teljast ofbeldismenn og glæponar. Lög sem sett eru til verndar konum í kynlífsþjónustu. Ekki til verndar þrælum, því áður voru í gildi lög gegn þrælahaldi og ofbeldi (hversvegna í fjandanum er þeim ekki framfylgt?), heldur til verndar konum sem stunda þessi störf sjálfviljugar og kæra sig ekkert um björgunaraðgerðir.

Ekkert samráð við þá sem á að vernda

Enginn starfandi klámmyndaleikari var hafður með í ráðum við mótun laganna eða einu sinni spurður álits. Engin nektardansmær og engin vændiskona heldur, hvað þá að leitað hafi verið álits hjá nokkrum atvinnurekanda í þessum geira. Hugmyndin er væntanlega sú að allt fólk sem vinnur slík störf sé of sjúkt til að eiga rétt á því að hafa skoðun. Ekki er þó dómgreind þessara sömu kvenna (jájá, það eu líka 2 karlar höfum þá með) dregin í efa þegar þær ráða sig í vinnu við hreingerningar eða umönnun, því merkilegt nokk þá hefur það aldrei neitt með sjálfsmynd eða sjálfsvirðingu að gera þegar konur sætta sig við óþrifastörf og erfiðisvinnu fyrir lúsarlaun. Eina fólkið sem hefur komið nálægt kynlífsþjónustu sem hefur eitthvað haft um þessi lög að segja eru fórnarlömb ofbeldis og fíkniefna. Mikið vildi ég að sömu vinnubrögð yrðu höfð uppi þegar réttmæti áliðnaðarins eru metin.

 

Tvískinnungurinn

Í umræðunni togast á goðsögnin um hamingjusömu hóruna og goðsögnin um viljalausa fórnarlambið. Andstæðingar laganna bulla um ‘elstu atvinnugrein í heimi’, rétt eins og einhver helgi hvíli yfir aldri atvinnugreina. Ætli þetta sama fólk styðji rán og þrælahald á sömu forsendu? Þeir sem eru fylgjandi því að gera kynlífsþjónustukaup að glæp, gaspra svo um að vændi sé ‘ekki atvinna heldur ofbeldi’ og skýra það með því að það sé í eðli sínu ofbeldi að greiða fyrir ‘afnot’ af líkama annarrar manneskju.  Sama fólk leggst af þó ekki gegn líkamlegri erfiðisvinnu á sömu forsendum og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hættir hlutgervingin, virðingarleysið og ástleysið að flokkast sem ofbeldi þegar engin greiðsla kemur fyrir hóriríið nema þá e.t.v. í formi áfengis.

 

Vændi er atvinnugrein

Vændi er vissulega atvinnugrein eins og hver önnur þjónusta sem fólk þiggur greiðslu fyrir. Víst er að marga svíður i dónaskapinn við þá tilhugsun að til séu konur sem stunda ástlaus kynmök úti um allar koppagrundir en sorrý Stína, lauslæti er bara þó nokkuð útbreidd hegðun. Til eru konur sem sjálfviljugar stunda kynlíf með körlum sem þær hafa engan áhuga á að eyða lífinu með og mér og fleiri ýlandi dræsum finnst að ykkur, hinum siðprúðu, heilbrigðu, pólitískt rétthugsandi og réttríðandi, komi það bara ekki rassgat við, hverjum við sængum hjá eða á hvaða forsendum.

Frjálslyndið hér á landi er reyndar svo áberandi að fyrir nokkrum árum markaðsetti tiltekið fyrirtæki okkur íslenskar konur sem fríhórur undir slagorðinu ‘dirty weekend’. Vakti það að vonum litla hrifningu en bara það að einhver skuli hafa leyft sér þetta, segir kannski eilítið um afstöðu þjóðarsálarinnar til skyndikynna. Þetta hefði varla gerst í landi þar sem konur ganga almennt í síðum kjólum hnepptum upp í háls og missa meydóminn á brúðkaupsnóttina. Það verður að teljast hæpið, m.a.s. afar hæpið að þorri íslenskra kvenna setji samasammerki milli ástlauss kynlífs og ofbeldis.

 

Vannýtt auðlind

Vinkona mín ein gengur svo langt að fullyrða að lauslæti íslenskra kvenna sé ‘vannýtt náttúruauðlind’. Samkvæmt þeirri undarlegu hugmyndafræði að allar náttúruauðlindir beri að nýta, má því hugleiða hvort við ættum ekki frekar að fara algerlega öfuga leið við Svía. Skilgreina allt ástlaust kynlíf sem framið er með upplýstu samþykki allra aðila sem þjónustu, og sekta hvern þann karlmann sem fer heim með konu án þess að borga fyrir sig. Það má svo ná inn skatttekjum með því einfaldlega að endurgreiða kúnnanum vaskinn en það ætti að letja til nótulausra viðskipta. Nú ef einhver kýs frekar að starfa sem fríhóra, þá er svosem ekkert sem bannar það en því ekki að nota þessa ágætu leið til að létta á atvinnuleysistryggingasjóði þegar nokkuð hátt hlutfall okkar er síríðandi hvort sem er?

Ég held að þessi leið ætti að gleðja mjög marga. Með þessari aðferð yrði ‘allt upp á borðinu’ en gegnsæi er eitt af vinsælustu orðum kosningabaráttunnar. Það væri bara á hreinu að hver sú kona sem stundar ástlaust kynlíf er hóra (fríhóra, okurhóra eða eitthvað þar á milli) og hver sá karlmaður sem það gerir hórþegi. Þeir sem kæra sig kollótta um slíka stimpla geta því verið hamingjusamir í sínum hórdómi. Sé kona hinsvegar ekki til í þann stimpil þarf hún bara vessgú að krossleggja fætur og standa föst á því að hún sé ‘engin hóra’. Á sama hátt þarf karl sem ekki vill teljast hórþegi að hemja fýsn sína þar til ást, virðing og ævarandi tryggð hefur verið staðfest.

Sér einhver eitthvað sérstakt sem mælir á móti því að reyna þetta?

mbl.is Fagna vændislögum

One thought on “En að fara öfuga leið og ná inn gjaldeyristekjum?

 1. —————————–

  Ég leyfi mér að vitna í Björn Bjarnason, sem kannski er ekki sérlega vinsæll af sumum en hefur hér lög að mæla:“Ég var einn af þremur þingmönnum, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpi Atla. Í Morgunblaðinu 20. apríl segir Jón Þór Ólason, kennari í refsirétti í Háskóla Íslands, að þetta frumvarp Atla sé illa unnið og ígrundað. Ég er sammála því, enda virðist hér fyrst og fremst um pólitískt sjónarspil að ræða. Ragnheiður Bragadóttir, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands, hefur réttilega bent á, að ekki sé unnt að uppræta félagslegt vandamál með refsiákvæðum, en þetta nýja lagaákvæði endurspeglar einmitt félagslega uppgjöf gagnvart því, sem ætlunin er að gera refsivert, þrátt fyrir rökstutt andmæli þeirra, sem gæta laga og réttar.“

  Sigurður Þór Guðjónsson, 21.4.2009 kl. 11:29

  identicon

  Já, merkileg ræða hjá þér.

  Veit ekki hvort þú ert að djóka, eða þú ert meðfylgjandi vændi. Á eiginlega erfitt að ákveða hvað ég ætti að byrja.. svo sérkennileg skrif.

  Sammála þér með eitt..afhverju var lögum um þrælahald ekki fylgt. Mjög skrítið, kannski vegna þess að það er erfitt að sanna þrælahald.

  Vændi er ólöglegt, og sú umræða að vændi sé einn af kostum sem konur hafa til að afla sér fjár er döpur. Er það virkilega málið? Þegar þú sendir dóttur þína í nám, kennir henni að undirbúa sig fyrir framtíðina. Viltu þá virkilega að vændi sé á listanum? Eða hugsarðu á þennan klassíska hátt „gerist bara fyrir aðra“.

  Að gera kaupandan ábyrgan er málið, hann er gerandi. Ég er viss um að hin hamingjusama hóra sé til einvherstaðar.. hef reyndar ekki lesið um hana, séð mynd af henni né heyrt af henni. Hún er goðsögn enn. Þar að leiðandi þarf að vekja gerandan til umhugsunar.

  Þetta er eitt lítið tækifæri til að fá gerandan til að hugsa, þessi lög fá vonandi tækifæri til að sýna framá það.

  Sjálfstæðismenn hafa talað um að þessi lög reki aðeins vændi neðanjarðar, það finnst mér merkileg rök. Vændi er neðanjarðar og það er fullt af því hér á landi, út um allt. Enn með nýjum lögum, þá má gerandin fara passa sig, og hugsa sinn gang. Hann stelst ekki lengur í bakhús þar sem vændi er selt, með því hugarfari að þetta sé í lagi vegna þess að hann lendir ekki í vandræðum.

  Þórir Karl Celin (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 11:41

  Smámynd: Brjánn Guðjónsson

  á dauða mínum átti ég von, en ekki að ég yrði einhverntíma sammála Birni Bjarnasyni. svo bregðast krosstré…

  góður pistill hjá þér.

  Brjánn Guðjónsson, 21.4.2009 kl. 12:07

  Smámynd: Jón Valur Jensson

  Þetta er nú algerlega rangt hjá þér, Sigurður, „að ekki sé unnt að uppræta félagslegt vandamál með refsiákvæðum,“ a.m.k. er hægt að komast verulega langt í árangri á því sviði, og mætti nefna mörg dæmi þar um.

  Vændi á að sjálfsögðu að banna, bæði sölu þess og kaup, eins og ég hef skrifað um í mörgum greinum á vefsetri mínu (smellið!). Og það er ekki rétt að blanda því hugtaki saman við annað kynlífsbakstur, það er að útvatna hugtakið og til þess eins að blekkja almenning og gera hann bláeygan gagnvart þessari nýju og miður geðfelldu útrásarstarfsemi.

  Jón Valur Jensson, 21.4.2009 kl. 13:09

  Smámynd: Salvör Kristjana Gissurardóttir

  Hæ Eva, ég hélt að þú berðist fyrir mannréttindum. En kannski eru það ekki mannréttindi allra sem þú ert að berjast fyrir, kannski eru það mannréttindi hluta fólks til að mergsjúga annan hluta fólks og notfæra sér neyð þess.

  Vændi er alls staðar fyrirlitið starf og því miður er það svo að það er þessi nautn i mannfyrirlitningu sem eru hluti af því sem fólk í vændi selur. Vændi snýst að hluta um vald og valdbeitingu – sem er réttlætt með fé sem skiptir um hendur. Það er á mörgum sviðum þar sem ofbeldi og yfirgangur er réttlættur með peningakerfi og það er einn liður í hve illa við sjáum í gegnum það.

  Ég veit ekki hversu mikið þú hefur ferðast um borgir þar sem götuvændi er stundað. En það er ekkert spurning um neina goðsögn um viljalaus fórnarlömb. Það sem þú sérð ef þú berð það við að taka eftir því sem fer fram er örvæntingarfullt fólk sem er í viðjum fíkniefnaneyslu eða örbirgðar sem er að aðhafast eitthvað sem það fyrirlítur sjálfan sig fyrir. Fólk sem hefur ekki stjórn á lífi sínu. Sumir sem selja eiturlyf eru reyndar líka þannig á sig komnir. Þeir eru sjúklingar og fíklar sjálfir. Því miður eru fangelsi full af sjúklingum.

  Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.4.2009 kl. 13:26

  Smámynd: Jón Valur Jensson

  Salvör, þetta er að mörgu leyti gott hjá þér, en þú getur ekki alhæft svona um allt vændisfólk. Sumt af því stundar ekki götuvændi, heldur lætur ná í sig í gegnum síma eða á veitingastöðum.

  Það er slappt siðferði að afneita því, að fólk geti af hreinni ágóðahvöt farið út í að stunda vændi. Lágt sjálfsmat? Já, eflaust í sumum tilvikum, en það hafa líka mjög margir aðrir, því miður.

  Þetta er óæskileg starfsemi, skattsvik þrífast í kringum þetta og fleira slæmt. „Frjálst“ einkavændi, sem stundað er þó þannig á laun, að „kaupandinn“ geti komizt hjá því að láta grípa sig eða sanna á sig sök, getur auðveldlega boðið heim erlendum mafíósum sem koma hér fyrir konum sem liggja undir margvíslegum hótunum, eins og ég hef lýst, og ábyrgðin er þeirra þigmanna (nánast allra), sem vilja ekki banna sölu vændis.

  Þar að auki er þetta fordæmt í kristnum siðargeglum, en flestir alþingismenn kæra sig kollótta! Tími var til kominn, að grisjað yrði í því liði.

  Jón Valur Jensson, 21.4.2009 kl. 15:05

  Smámynd: Eva Hauksdóttir

  Ég berst fyrir mannréttindum já og yfirhöfuð rétti alls fólks til að gera það sem því sýnist svo framarlega sem ekki er brotið gegn rétti annarra. Hvað varðar rétt hórmangara til að mergsjúga aðra þá skrifaði ég dálítið um það hér.

  Vændi er fyrirlitið af sömu ástæðum og samkynhneigð var til skamms tíma fyrirlitin allsstaðar, og er víða enn; þ.e. vegna almennra hugmynda um það hverskonar kynhegðun skuli teljast æskileg. Þessar hugmyndir eru sprottnar úr trúarbrögðunum. Þær snúast um rétt fárra til að kúga fjöldann og stjórna m.a. því hverjir megi para sig með hverjum.

  Vændi snýst um að selja ákveðna þjónustu. Sumir nýta sér neyð annarra til að kúga þá og kvelja en vændi snýst ekki um það, ekki frekar en framleiðsla á íþróttafatnaði snýst um barnaþrælkun. Samfélögin sem fordæma allan klám og kynlífsiðnað á þeirri forsendu að konur í þessum geira séu upp til hópa viljalaus verkfæri, taka samt sem áður vel á móti fyrirtækjum á borð við Coca cola, Nike og Alcoa og myndu síst láta að sér hvarfla að draga viðskiptavini þeirra til ábyrgðar. Þetta snýst nefnilega þegar upp er staðið ekkert um mannréttindi heldur annarsvegar um kristilega blygðunarsemi og hinsvegar viðleitni smáborgarafeminista til að fórnarlambsvæða konuna og dímonisera karlmanninn.

  Jón Valur:hér er smá pistill sem ætti að halda þér á innsoginu, enda forpokun þín á of alvarlegu stigi til að þú munir nokkurntíma ræða þessi mál með rökum.

  Eva Hauksdóttir, 21.4.2009 kl. 15:43

  identicon

  Það er einmitt í þessum málum sem kristilega heittrúaðir og feministar ná saman, en eiga að öðru leyti enga samleið í skoðunum. Jón Valur er óánægður með þessi lög vegna þess að hann vill refsa hórunni líka.

  Vændi getur verið fylgifiskur eymdar og fátæktar en er ekki orsök hennar.

  ábs (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 17:00

  Smámynd: Benedikt Halldórsson

  Á Stígamótum fögnum við því ákaflega að tíu ára pólitískri baráttu lauk með sigri! Loksins endurspegla íslensk lög tengslin á milli vændis og ofbeldis. Loksins er ábyrgðin á vændi sett þangað sem hún á heima á kaupendur. Á síðustu mínútum þingsins náði þetta langþráða mál í gegn eftir stöðuga og óþrjótandi baráttu Stígamóta, kvennahreyfingarinnar, Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri aðila. Sigurinn hefur vakið heimsathygli femínista og heillaóskir streyma til okkar frá öllum heimsálfum……

  Stígamót er skriðdreki femínista. Hver kaus Stígamót til að setja landinu lög?

  Benedikt Halldórsson, 21.4.2009 kl. 19:55

  Smámynd: Benedikt Halldórsson

  Stígamót byggja á umdeildri pólitískri hugmyndafræði en sinna jafnframt konum í neyð. Þegar trúfélög eða pólitísk samtök vinna á „akrinum“ styður „reynslan“ ávallt pólitíkina en ekki öfugt.

  …okkur hefur lærst í gegnum árin að vændi og hvers konar önnur verslun með líkama er ein birtingarmynd kynferðisofbeldis. Fyrst og fremst höfum við lært af þeim konum sem til okkar hafa leitað.

  Benedikt Halldórsson, 21.4.2009 kl. 20:17

  Smámynd: Jón Valur Jensson

  Ég geri ráð fyrir, að Eva hafi horft á þáttinn hennar Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur í Sjónvarpinu í kvöld, sem var að miklu leyti helgaður ungum vændiskonum, nei, frekar: vændisstúlkum, í Kambódíu, og ég vona að Eva hafi „forpokazt“ sem allra mest á að horfa á þá mynd, ef það er eina leiðin til þess að hún sansist á að sjá sannleikann. Vændi er viðbjóðslegt, og hættið að markaðsvæða eða fegra það.

  Jón Valur Jensson, 21.4.2009 kl. 22:37

  Smámynd: Eva Hauksdóttir

  Benedikt, starf Stígamóta er lofsvert enda gengur það út á að hjálpa fórnarlömbum ofbeldis. Og já það er alveg rétt að það eru tengsl milli vændis og ofbeldis, sömu tengslin og eru á milli vefnaðarvinnu og ofbeldis. Það dettur þó engum í hug að banna fólki að kaupa íslenskar lopapeysur þótt þrælahald sé stundað í stórum stíl meðal framleiðenda á fatnaði og annarri vefnaðarvöru, t.d. í Mið-Austurlöndum á Indlandi og í Kína.

  Eva Hauksdóttir, 21.4.2009 kl. 22:39

  Smámynd: Eva Hauksdóttir

  Haukur, ég hef svosem alveg fengið á mig skítkast fyrir skoðanir mínar á klám- og kynlífsþjónustu (eða öllu heldur skoðanir mínar á ranghugmyndunum og hræsninni í umfjölluninni.) Það gerist þó ekki eins oft og ætla mætti, því þar sem ég er kona hljóta þessi viðhorf mín fyrst og fremst að benda til þess að ég sé mjög sjúk.

  Eva Hauksdóttir, 21.4.2009 kl. 22:43

  Smámynd: Eva Hauksdóttir

  Jón Valur, já ég sá myndina. Hún er mjög góð. Þar kemur t.d. fram að í Kambódíu er fullt af foreldrum sem selur börnin sín í ánauð. Við ættum þá líklega að banna Íslendingum að eignast börn.

  Eva Hauksdóttir, 21.4.2009 kl. 22:45

  Smámynd: Jón Valur Jensson

  Engan veginn, Eva. Hún gengur ekki upp þessi ályktun þín. Pure logic.

  Jón Valur Jensson, 21.4.2009 kl. 22:47

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.