Einfalt

Það er ekkert víst að ég nenni að reka þess búð til eilífðar en þrátt fyrir tímann, kostnaðinn, dauðu dagana, stressið, þrátt fyrir allt er samt eitt á hreinu, ég mun aldrei aftur vinna hjá öðrum, sagði ég.

Systir mín horfði skeptísk á mig.
-En ef þú neyðist til þess? sagði hún. Ef kæmu upp þannig aðstæður að þú gætir ekki verið sjálstæð?
-Það er alltaf til einhver leið til að vera sjálfstæður, sagði ég, af því að mér verður sjaldan svarafátt en ég varð eiginlega dálítið hissa á spurningunni. Og svo varð ég nógu hissa á því að ég skildi vera hissa, til þess að máta hugmyndina.

Jú, þær aðstæður geta komið upp. Rétt eins og það getur hent alla að missa heilsuna og þurfa kannski þar með að endurskoða ýmsar hugmyndir. Kannski ætlaði maður aldrei að búa í þéttbýli, aldrei að þiggja bætur, aldrei að ganga í ljótum skóm eða éta verkjalyf og kannski hætta þessir hlutir að vera jafn mikilvægir ef líf manns umturnast á einu augnabliki. En hugmyndin um að ég þurfi að reiða mig á fyrirtæki eða verkalýðsfélag til að komast af er orðin mér jafn fjarlæg og hugmyndin um að verða öryrki. Hvort það er gott eða slæmt veit ég ekki.

Ef ég á að vera alveg heiðarleg þá var svarið við spurningu systur minnar ekki rétt. Það geta komið upp þannig aðstæður að ég neyðist til að vinna hjá öðrum. Og ekkert er útilokað, það getur jafnvel komið til þess að ég kjósi það, t.d. ef sú flippaða aðstaða kæmi upp að einhver vildi ráða mig í hálaunastaf við að gera það sem mér sýnist. Það geta hinsvegar aldrei komið upp þannig aðstæður að ég neyðist til að halda í skoðun sem gerir líf mitt erfiðara en mér líkar. Eitt af því sem er svo frábært við skoðanir er að þær eru ókeypis, og ef koma fram upplýsingar sem breyta myndinni eða ef skoðunin hentar manni ekki lengur þá bara fær maður sér nýja. Þannig að rétta svarið er auðvitað; nú ef þær aðstæður koma upp, þá skipti ég bara um skoðun.

One thought on “Einfalt

 1. —————————————————-
  ……
  Oh, she takes care of herself
  She can wait if she wants
  She’s ahead of her time
  Oh, and she never gives out
  And she never gives in
  She just changes her mind
  Billy Joel
  Always a woman

  Posted by: lindablinda | 11.06.2008 | 19:37:06

Lokað er á athugasemdir.