Ef

5 Missed calls, 3 sms.

Samviskubitið grípur mig. Ekki gagnvart þér, heldur gagnvart henni.
-Það bitnar á mér þegar þú svarar ekki símanum, sagði hún. Ég bað hana ekki að skýra það nánar, sá fyrir mér að þú yrðir fjarrænn og eirðarlaus. Fokkitt, hvað er ég að velta mér upp úr því? Eins og ykkar líf bitni ekki líka á mér. Hringi samt í þig því ég er ekki grimm. Ég ætla að smíða eitthvað fram eftir og auðvitað máttu sitja hjá mér á meðan.

-Ertu að koma þér upp kærasta?
-Það held ég ekki. Ég þekki manninn ekki neitt og hann er svo nýfluttur út frá konunni sinni að það eru áreiðanlega ennþá föt af honum í þvottakörfunni heima hjá henni.
-En hann sýnir þér áhuga?
-Fólk sem stendur í skilnaði er alltaf einmana og sýnir öllum lífverum af hinu kyninu áhuga. Auk þess ofmeta flestir áhuga annarra á sér þannig að ef mér finnst einhver sýna mér áhuga deili ég þeim áhuga sem ég skynja með fjórum, og samkvæmt þeim útreikningi hefur hann ekki neinn brennandi áhuga á mér.
-En þú hefur áhuga á honum?
-Ég hef ánægju af félagsskap hans en ég held alveg vatni.
-Þú ert nú vön að svara síma þótt þú sért í góðum félagsskap.
-Ég hef fullan rétt til að svara ekki síma, jafnvel þótt ég sé ekki svífandi á bleiku skýi og það sem er að gerast í hausnum á þér núna heitir afbrýðisemi.

Þögn.

-Ég hætti ekki að elska þig. Ekki einu sinni þótt svo ólíklega fari að mér takist að mynda eðlileg tengsl við einhvern annan.
-Mmmm. Ég ætti best að vita það.
-Amm. Ég veit líka að þig langar alveg að halda utan um mig í nótt. Þú þarft bara að fara heim og tantra tíkina þína, svona fyrst hún er ekki hjá Blíðubrandi. Kannski er ágæt ástæða fyrir þessu einkvænisfyrirkomulagi sem við lifum við.
-Í rauninni finnst mér verra að hugsa um þig eina en með einhverjum öðrum. Það er bara það að fæstir hafa okkar afstöðu. Flestir einoka maka sína.
Ég veit, þú ert bara hræddur um að missa mig og það er ekki að fara að gerast. Auk þess er vísasta leiðin til að drepa áhuga karlmanns sú að sofa hjá honum og þú veist að ég hef enga þolinmæði til að standa í margra vikna leikaraskap bara til að húkka mann á greddunni.
-Já það er satt. Þú átt áreiðanlega eftir að klúðra þessu með því að sofa hjá honum, sagði hann og brosti ánægjulega.