Deit

Ég veit eiginlega ekki af hverju ég var svona stressuð en ég var komin með munnþurrk um 5 leytið og farin að skjálfa í hnjánum kl 6. Ekki var það djúpstæður höfnunarkvíði eða óviðráðnleg eftirvænting. Frekar eins og frammistöðukvíði. Þetta stress var einkum flippað fyrir það að ég hafði reiknað með því að hann vildi ekkert við mig tala en svo þegar ég fékk það sem ég vildi -og allt á tárhreinu, fannst mér einhvernveginn eins og ég væri til sýnis fyrir hann en ekki hann fyrir mig.

Nú er ekki eins og mér finnist neitt leiðinlegt að láta horfa á mig, eða hlusta á mig, svo hvaða æsingur var þetta eiginlega? Kannski bara þessi samúðarfulli, föðurlegi tónn þegar hann útskýrði fyrir mér í símann að það væri alls ekki vænlegt til árangurs að hunsa almenna sölumannstækni ef markmiðið væri að ná sér í kærasta. Eða kannski var það ekki tónninn heldur bara sannleikurinn í því sem hann sagði sem kom mér í uppnám. Ég þekki leikaraskapskenningarnar vel en neita bara að fara eftir þeim, því þótt sumir menn fúnkeri ekki nema í einhverju andskotans leikriti er sjúkt og rangt að koma fram við þá alla eins og þeir séu bjánar. Jæja, Eilífur lofaði að sannfæra mig um að það væri hvorki sjúkt né rangt en ég fékk á tilfinninguna að það væri ekki mikill ástríðuhiti á bak við dinnerboðið. Eins og hann langaði jafnvel meira að kenna mér að selja hamingju en að kaupa hana af mér í formi blíðuhóta og kjötsúpu. Eða kannski heldur hann að hamingja mín felist í sölumennskufærni og var að reyna að markaðssetja sjálfan sig sem ímynd hamingju minnar? Mér leið allavega eins og ég væri að fara í munnlegt próf í sölumennsku fremur en á „ekki yfirþyrmandi rómantískt“ stefnumót.

Staffið á Víkingnum var að fara á árshátíð og mig langaði svolítið með þeim. Það gekk samt ekki upp því markmið mánaðarins er að kynnast manni sem ég þori að vera stundum ekki mjög vond við og get boðið heim til mín án þess að eiga á hættu að barnaverndarnefnd leysi heimilið upp og á Hótelinu var úrtakið, samtals einn maður þegar úr myndinni. Það hélt ég allavega þessar 15 mínútur sem ég stoppaði hjá þeim en Eilífur sagði mér svo klukkutíma síðar að eitt af mergjuðustu sölumannstrixunum væri að gefast ekki upp fyrr en eftir minnst fimm tilraunir. Þar sem ég var ekki búin að reyna við Bruggarann í fullri alvöru nema tvisvar sinnum (já gæskur, það er rétt, þegar ég sagði þér fyrir löngu að mér væri engin alvara með þessu daðri þá meinti ég það og þegar ég sagði hreint út að mér væri alvara núna -eftir að þú hafðir hækkað töluvert á álitsskalanum, var það líka satt. Ég er svo vel innrætt að ég lýg bara til skemmtunar, ekki af illgirni) og varð það á að særa blygðunarkennd hans með fremur ósæmilegri uppástungu í fyrra skiptið, ákvað ég að gefa kapitalistaklækjum Eilífs séns og nú er ég búin að reyna mun oftar við Bruggarann. Dreif bara í því á leiðinni heim af deitinu, allt fyrir markmiðin -aldrei að víkja. Hann vill mig samt ekki. Kannski er hann hræddur um að ég ætli bara að hafa hann inni í stofu hjá postulínsbrúðunum til að hafa alltaf eitthvað fallegt til að horfa á. Það er svosem rétt svo langt sem það nær en ég var að hugsa um að vera líka svolítið góð við hann stundum. Klippa á honum táneglurnar og svoleiðis. Mér finnst svo fallegt þegar fólk gerir svoleiðis hluti fyrir hvert annað. (Auk þess eru táneglur brúkanlegar til bruggunar ástadrykkja er mér sagt.)

Jæja. Eilífur er allavega voða duglegur kennari. Eitthvað við heimili hans, bílinn og fasið sagði mér að ég fengi rétt sem héti eitthvað sem ég kann ekki að bera fram ásamt rauðvíni sem ég þyrði ekki að drekka (ég á það til að segja það sem ég hugsa ef ég verð drukkin og svo verð ég bara frekar ljót þegar ég drekk og það er mjög ógnvekjandi tilhugsun) en ég hef náttúrulega hrapað að ályktunum eins og stundum áður, boðið stóð ekki upp á veitingahús heldur matarklúbb heima hjá öðru fólki þar sem óvart vantaði eina dömuna. Þá einu einhleypu. Ó! það er alltaf svo skemmtilegt þegar stendur jafnt á tölum kynjanna. Ef ég væri bróðir minn hefði ég sagt <em>oj, ætlarðu að láta mig borða með einhverju ókunnugu fólki? Ég hef ekki einu sinni sofið hjá þeim.</em> En ég er semsagt ekki eins mikil pempía og bróðir minn. Brosti bara sölumannsbrosi og reyndi að selja honum þá hugmynd að ég væri einkar þakklát fyrir boðið og spennt fyrir því að hitta vini hans. Ég held samt að ég þurfi að fá nokkra brostíma hjá Heiðari snyrti áður en hann fellur fyrir því að ég sé sammála honum um að matarboð hjá ókunnugum vinahópi sé kjörinn vettvangur fyrir fólk sem hefur ekki talað saman í 12 ár til að rifja upp lítil og skammvinn kaffistofukynni.

Markmið kvöldsins er að hafa uppi á þeim fjórða í úrtakinu. Ef þið þekkið einhverja í alvöru einhleypa karlmenn (ekki sem ætla kannski bráðum að fara að skilja), lítið útlitsgallaða, lítið ósnyrtilega, ekki mjög leiðinlega, ekki í sárum eftir vonda kvensnipt, lítið gjaldþrota og ekki grasserandi í mjög mörgum aumingjasjúkdómum; þá vinsamlegast hafið samband. Ég er reiðubúin til að greiða allt að 2000 kr fyrir utan vask fyrir upplýsingar sem gætu leitt af sér stefnumót sem útheimtir ekki að ég beiti leiklistarhæfileikum mínum af einbeitni. Ég er nefnilega að spara þá fyrir skattmann.