Stundum er allt svo stórt inní manni að maður verður að garga eða lemja eða eitthvað og það er kannski asnalegt en það er samt sannleikur. Í kvöld var ég glöð af því að himininn er svo blár að maður gæti gargað. Og það gerði ég. Við fórum í labbitúr og ég gargaði af gleði og Silla sagði að ég væri vangefin. En það er ég ekki. Það eru hinir sem fatta ekki að stundum á maður að skrækja af því að himininn er blár. Það er út af guðdómnum.
Ég trúi ekki á guð en ég trúi á guðdóminn. Guðdómurinn hefur ekki skoðanir og hann getur ekki ákveðið neitt. Hann er bara í öllu og það er út af honum sem himininn er blár og það hefur ekkert með Jesús að gera. Það er heldur ekki hægt að tala við hann en maður fattar hann samt. En það þýðir ekkert að reyna að útskýra þetta með guðdóminn fyrir fólki af því að kristindómurinn er búinn að eyðileggja allt með því að blanda illgjörnum kalli saman við hann. Ég ætla sko ekki að fermast.