Ég hef ekki skrifað pistil í heila viku og það eru margar vikur síðan ég hef birt pistil sem ég hef lagt vinnu í. Það gerist af og til að ruglið verður svo yfirþyrmandi að mér fallast bara hendur.
Afturbataklámstjarna skorar öðlingsstig, fær syndaaflausn og tekur að sér að framleiða klámvarnarefni fyrir grunnskóla í samstarfi við tvær konur sem ekki geta talist fagmenn frekar en hann sjálfur.
Stjórnandi verkefnisins hefur að vísu reynslu af því að vinna með þolendum ofbeldis en er líklega þekktust fyrir frumlegar ályktanir í leit sinni að klámi. Hún álítur t.d. að myndin hér til hægri sýni einkennisbúning vændiskvenna.
Þriðji höfundur myndarinnar fékk ágæta kynfræðslu þegar hún var ellefu ára; ég er ekki að grínast, þetta stendur í bæklingum sem fylgir myndinni. Mig langaði að skrifa eitthvað en fingurnir á mér slógu bara inn DÆS.
Klámskjöldur þjóðarinnar segir að fyrst hægt sé að senda menn til tunglsins sé líka hægt að ritskoða internetið. Annað DÆS.
Auðvitað er því enn ósvarað hvaða klám það er sem ekki telst ofbeldisfullt. Matti gerir þessum skilgreiningarvanda ágæt skil hér. Sjálf dæsi ég bara og reyni að finna Klámstofu viðeigandi einkunnarorð „Eigi skal sköp í renna.“
Grínari segir ósmekklega brandara á Óskarsverðlaunaafhendingunni og allt verður vitlaust. Gaurinn er að vísu mannréttindaaktívisti og enginn douchebag, ekki frekar en hann Hulli OKKAR en okkars vissum það náttúrulega ekki og höfðum því lögbundinn hnussunarrétt. DÆS! Spurning hvort Lögmundur þarf ekki að koma á fót Grínstofu. Henni eigi skal rugla saman við Spaugstofu sem er allt annað og léttúðarfyllra fyrirbæri. Grínstofa gæti t.d. skyldað grínara til að ganga með leiðbeinandi borða í hárinu (eða bara bundinn um eyrað ef sá sem ber sniðugheitin á borð er sköllóttur), í vg litunum að sjálfsögðu, rauðan ef grínarinn er douchebag, grænan ef hann er öðlingur.
Kristilegir íhaldsmenn vilja hafa „kristileg gildi“ að leiðarljósi við lagasetningu. Hætta svo við daginn eftir. DÆS.
Formaður Samfylkingarinnar gefur það út að ekki sé ráðlegt að koma stjórnlagafrumvarpinu í gegnum þingið. Að vísu strandaði aðeins á tveimur stjórnarliðum og annar þeirra var hann sjálfur en maður sér samt Samfylkingarfólk afsaka hann. DÆS, DÆS.
Innanríkisráðherra leggur allt kapp á að koma Happdrættisstofufrumvarpinu í gegnum þingið en útlendingalögin sitja á hakanum. Ég talaði við Mouhamed í gær. Hann var miður sín enda nýbúinn að fá þær fréttir að málinu hans verði frestað enn eina ferðina. Ögmundur veit alveg hversu lengi flóttamenn þurfa að bíða í óvissu en áhyggjur hans snúast um lottófíkn landans. Ekki bara DÆS heldur ÚFF!
Trúmenn vilja trúboð inn í skólana og halda því fram að trú sé orðin tabú. Í landi þar sem ríkiskirkja er ennþá rekin. Ef stórslys eða önnur áföll eiga sér stað á skólatíma á að hringja út fulltrúa allra trúfélaga frekar en að fá fagfólk til að sinna þeim börnum sem foreldrarnir geta ekki sótt strax. Double DÆS.
Og skapabarmaráðstefna… Æ, ég held ég gefi hinum fúllynda foréttindafeminista bara orðið.
Ég er eiginlega með of mörg dæs í maganum til að meltingin ráði almennilega við þau. Hrædd um að ég æli bara yfir lyklaborðið ef ég reyni að segja eitthvað merkingarríkara en DÆS!