Ég gekk í gegnum aldurskrísu um 17 ára aldur. Kveið því að verða fullorðin af því að ég hélt að því fylgdi svo mikil ábyrgð og að það hlyti að vera þrúgandi. Það reyndist mér auðveldara að vera fullorðin en barn. Mig grunar að það verði mér líka auðveldara að vera miðaldra en ung.
Ég hef aldrei verið mikið afmælisbarn en mér finnst samt alltaf stöðugt meira tilefni til að fagna því að vera á lífi. Hef aldrei skilið almennilega tilganginn með að hafa sérstakan dag á árinu til þess en kemst samt alltaf við af væmni yfir því að fá afmæliskveðjur. Var einmitt í þessum orðum skrifuðum að fá eina sem mér þykir sérdeilis vænt um.
Ég held annars að ég sé að endurheimta kynhvötina. Spurning hvort ég ætti ekki að halda upp á það.