Þjóðin er mætt í Grasagarðinn.
Ég treðst í gegnum mannfjöldann með hnút í maganum. Lenti einu sinni í því að troðast hreinlega niður á gólf á yfirfullum skemmtistað og varð slíkri skelfingu lostin að ég gleymdi bæði nafni og andliti mannsins sem bjargaði mér frá stórslysi. Ég hef alltaf orðið kvíðin í mannmergð síðan en svo er þetta líka bara eitthvað svo ógeðslegt. Iðandi mannhaf, mor. Það minnir svo á pöddur og það er alltaf eitthvað ónotalegt við að vera minntur á að maðurinn er padda. Að lokum komumst við að rétta básnum.
Reyndar hefur mér alltaf þótt þessi tónlist ósköp leiðinleg en það er alveg sérstök stemning að sitja í grasinu með góðu fólki og drekka rauðvínið hennar Snjáku úr kaffikrús. Sonur minn Innhverfur liggur í keltu bróður síns og gott ef hann hlær ekki að sniðugheitum móðursystur sinnar sem mætti með raunvínsflösku en engan tappatogara. Ég get ekki gert upp við mig hvort ég ætti frekar að kaupa bol með áletruninni ‘ég er fúll umhverfisverndarskæruliði’ eða ‘ég er glaður umhverfisverndarskemmtikraftur’ svo ég læt það bíða.
Aftur í gegnum morið og nær sviðinu. Sit á öxlum sonar míns Byltingarinnar í von um að berja tónlistargyðjuna augum. Það virðist ekki svo langt síðan ég bar hann á öxlunum. Fyrir aftan gyðjuna blakta gulir og rauðir borðar með fiskamyndum og við ályktun að sjálfsögðu að þarna sé bein vísun í fánagjörninginn þann 17. júní.
En Náttúra hvað? Jú, fiskamyndir og einhverjar skreytingar með áskorunum um að hlífa landinu við gereyðingu. Og heilsíðu yfirlýsing í Grapevine. Fólk mætir kannski ekki á tónleika til að hlusta á ræðuhöld en mér hefði nú samt þótt viðeigandi að markmið tónleikanna væri allavega nefnt á nafn. Nei, ekki eitt orð. Nema ef á telja það með að Björk endaði sjóvið á því að segja ‘náttúra’ 4-5 sinnum. En hún er skvísa kerlingin, það má hún eiga.
Mjög gaman, rosa gaman en mér fannst ég ekki vera stödd á neinskonar náttúruverndarsamkomu. Og ég fann hvergi ruslafötu.
Partíið á eftir -ég verð stöðugt ánægaðari með að hafa eignast börnin mín ung. Í dag þekki ég fólk sem er miklu skemmtilegri partýfélagar en það fólk sem ég umgekkst um tvítugt, og synir mínir tilheyra þeim hópi. Kom heim um tvöleytið, pöddufull. Löt í dag og er ekki einusinni byrjuð á sunnudagskrossgátunni.