Spurningar úr FB leik

Notast þú við kaldhæðni?

Nei. Ég er hjartahlý kona, trúi á hið góða í manneskjunni og stafa frá mér yl og ljósi hvar sem ég kem.

Myndir þú vera vinur þinn?
Jájá, ég og ég erum ágætar vinkonur og stöndum saman þegar við erum búnar að ákveða eitthvað. Við erum að vísu oft ósammála og þurfum að rökræða hlutina mikið og lengi áður en við komumst að niðurstöðu. Mér finnst ég stundum óþarflega gagnrýnin á mig og mér finnst svo aftur ég taka þeirri gagnrýni óþarflega illa. En við sættumst nú alltaf á endanum.

Ég held annars að það hljóti að vera hræðileg örlög að líka illa við einu manneskjuna sem maður kemst ekki undan.

Áttu börn? (FB leikur)

Ég á tvo yndislega stráka en þeir eru fullorðnir og það er ekki eins.

Mig langar í barnabörn en synir mínir eru ekki sammála mér. Haukur sagði einhverntíma að það vær tilgangslaust að tala um börn á meðan hann ætti ekki einu sinni kærustu. Ég sagði honum að hann gæti bara barnað einhverja lausgyrta dræsu eins og aðrir ungir menn og það væri áreiðanlega fínt að vera helgarpabbi. Hann tók mig ekki alvarlega. Allavega veit ég ekki til að nein dræsa sé ólétt eftir hann enn.

Ég er að vísu ekki eins viss um að það sé tímabært fyrir Darra að verða pabbi, en ég er búin að margbiðja hann að negla einhverja einstæða móður. Hann vill það ekki.

Ef

Einu sinni var maður sem langaði að kvænast mér. Yfirleitt hefur það verið öfugt, því þrátt fyrir annálað hórirí mitt úti um allar koppagrundir, er ég mikill aðdáandi hjónabandsins og finnst ekkert sérstakt atriði að fólk sem ákveður að búa saman sé heltekið af hrifningu. Halda áfram að lesa

Hvað er uppáhalds hádegisverðarkjötið þitt? (FB leikur)

Umhverfisvænn nýstúdent með augnhárin titrandi af feimni, enda er uppáhaldsfrasinn minn ‘lambakjöt í rúmið mitt’.

Ef ég væri karlmaður myndi þessi játning leggja mannorð mitt í rúst en þar sem ég er kona munu sumir kyngja hneykslun sinni, aðrir hnussa stundarhátt, einhver hugsa ‘jahá, ég líka en ég er ekki svo vitlaus að tala um það’ og einhver nýstúdentinn mun hugsa dónalega til mín og kalla mig MILF.

Uppáhalds kvöldverðarkjötið mitt er hinsvegar saltkjöt en það getur maður nú ekki lagt á skrokkinn á sér mjög oft.

Líkar þér við skriftina þína? (FB leikur)

Rithönd segir eitthvað um persónuleikann. Mín rithönd er ekki snotur. Frekar gróf og flausturleg en læsileg þó -eins og ég. Rithönd mín var mjög hvöss á unglingsárunum en hefur mýkst. Maður meyrnar með aldrinum.

Ég kann alls ekki illa við skriftina mína en ég sit heldur aldrei og dáist að henni á sama hátt og ég get dáðst að minni eigin ritsnilld þegar maður horfir á innihaldið og orðfarið.

Hvenær gréstu síðast? (FB leikur)

Þessi finnst mörgum óþægileg svo ég spyr bara þá sem hafa klukkað mig.

Ég er ekki viss. Ég bregst við ofþreytu með með tárum og græt oft af tilfinningasemi yfir einhverri væmni í bíómyndum eða bókum, jafnvel í auglýsingum. Græt hinsvegar ekki við jarðarfarir, vinum og vandamönnum til óhugnaðar yfir kaldlyndi mínu. Ég hef ekki grátið af sorg, ótta eða reiði í nokkur ár.

En maður getur nú verið sár þótt maður grenji ekki.

Varst þú nefnd/nefndur í höfuði á einhverjum? (FB leikur)

Já, ég var nefnd eftir móðurafa mínum, Jóhanni, og langömmu Helgu. Semsagt Jóhún Helga. Það var ágætis nafn en ég kunni samt aldrei vel við það.

Þegar ég var 17 ára varð ég ástfangin af strák sem ég giftist nokkrum mánuðum síðar. Ég færði honum ávaxtakörfu þegar við vorum rétt að byrja að kynnast. Í körfunni voru allskonar suðrænir ávextir og eitt, rautt epli. Ég meinti ekkert sérstakt með þessu epli en minn tók því sem hinti um að ég vildi sofa hjá honum (og má furðu sæta að hann hafi þurft epli til að átta sig á því). Hann tók upp á að kalla mig Evu og það nafn fór mér betur og festist við mig. Í dag heiti ég Eva skv þjóðskrá.