Ég hef nú svosem ekki komist yfir að lesa allt það sem bloggað hefur verið um aðgerðir trukkakalla að undanförnu. Það má því vel vera að margur bloggarinn hafi tekið upp frasann; þarf þetta ekkert að vinna? en ég hef allavega ekki séð það enn.
Greinasafn fyrir flokkinn: Örblogg
Endurskilgreint
Forsætisráðherra hefur víkkað skilning minn á orðinu ofbeldi. Við erum að tala um forsætisráðherra, hvers ríkisstjórn sér enga sérstaka ástsæðu til að gera athugasemdir við manndráp og pyndingar í öðrum löndum svo fremi sem það eru stjórnvöld sem skipuleggja slíkt og framfylgja.
Að kunna að skammast sín
Ég var að hlusta á þetta viðtal fyrst núna. Ég hef aldrei verið sérlega hrifin af þeirri öfgafrjálshyggju sem Hannes Hólmsteinn hefur boðað en ég dáist virkilega að viðbrögðum hans við þessu heimildamáli. Það er svolítið vanmetinn hæfileiki að kunna að skammast sín. Mér finnst Hannes sýna þann hæfileika og virði hann meira fyrir vikið.
Bara læti!
Þessir atburðir minna mig á fjölmiðlafrumvarpið. Fremur ómerkilegt mál var til þess að sauð upp úr og sögulegur atburður átti sér stað. Mér fannst alltaf frekar súrt að fjölmiðlafrumvarpið af öllum málum yrði til þess að forsetinn beitti neitunarvaldinu. Á hinn bóginn fannst mér frábært að fá þessa staðfestingu á því að neitunarvaldið væri virkt.
Grímuball í Tíbet
Hér má sjá tíbeska lögreglumenn undirbúa sig fyrir grímuball. Eða eru þetta hryðjuverkamunkar sem eru búnir að drepa löggurnar og stela búningunum þeirra?
Það er málið
Auðvitað fer það ekki í taugarnar á nokkrum manni þótt fólk spili bingó á Austurvelli. Þeir eru heldur ekki margir sem taka það nærri sér þótt fólk beiti borgaralegri óhlýðni til að mótmæla jafn fáránlegum lögum og þeim að bingó skuli bannað á tilteknum degi. Það sem raunverulega fer fyrir brjóstið á ótrúlega mörgum er að þetta skuli gert í nafni félagsskapar sem vill að lög um trúfrelsi verði virt, að meðlimir Þjóðkirkjunnar greiði sjálfir fyrir sitt áhugamál og að fjölmiðlar hætti að halda úti ókeypis auglýsingarstarfsemi fyrir gervivísindamenn, gagnrýnislaust.
Þaulsetin
Nokkrar spurningar sem vakna við lestur þessarar fréttar.
-Var klósettið þá ekkert þrifið í tvö ár?
-Af hverju datt hún ekki af klósettinu þegar hún sofnaði?
-Hvar kúkaði kærastinn?
-Ef klósettsetur ná að gróa inn í hold fólks á tveimur árum, hvernig stendur þá á því að maður heyrir aldrei fréttir af inngrónum giftingarhringjum, eyrnalokkum, úrum og öðru skarti sem fólk gengur oft með áratugum saman?
-Spurði fólk sem kom í heimsókn aldrei óþægilegra spurninga?
-Fór kærastinn aldrei að heiman yfir helgi eða hver fóðraði hana þá á meðan?
-Hvaða afsökun gaf hún fjölskyldu og vinum fyrir að hitta engan svona lengi?
-Hvernig fór jólahald fram á heimilinu?